Til skoðunar er innan Reykjavíkurborgar að leggja á tafagjöld til að draga úr og stýra umferð einkabíla innan borgarmarka. Þetta segir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, í Morgunblaðinu í dag.
Þar er haft eftir henni að horft sé til góðs árangurs Oslóarborgar af álagningu slíkra gjalda. „Norðmenn hafa beitt mengunar og tafagjöldum. Þau hafa tvenns konar áhrif. Þau draga úr bílaumferð og nýtast gríðarlega vel til að byggja innviði fyrir vistvæna fararmáta.“
„Það er ein sviðsmyndin sem við erum að vinna eftir og munum gera í samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Í þeim tilgangi að ná fram þessum markmiðum um öruggari og skilvirkari umferð en líka þessum loftlagsmarkmiðum okkar um betri loftgæði. Við vitum að hér í Reykjavík er illu heilli oft á tíðum bara ekki nógu gott ástand hvað varðar loftgæði og við þurfum að gera eitthvað í því og umferðin er oft á tíðum stærsti þátturinn þar.“
Hann sagði í þættinum að í þeirri vegferð væri verið að horfa á norskt módel, sem fyrirfinnst meðal annars í Osló, Björgvin, Stavangri og tveimur öðrum þéttbýliskjörnum þar sem eru sambærilegir að stærð við höfuðborgarsvæðið. „Þar sem að menn hafa sett upp gjaldtöku sem að hefur áhrif á hegðun fólks á ákveðin hátt. Stýrir umferð“.
Sigurborg segir við Morgunblaðið í dag að án róttækra breytinga muni markmið borgarinnar í loftslagsmálum ekki nást. „Jafnvel þótt það markmið náist árið 2040 að 58 prósent allra ferða verði með almenningssamgöngum með borgarlínu mun umferð engu að síður aukast. Við munum því ekki ná markmiðum Parísarsamkomulagsins í loftslagsmálum[...]Borgarlínan mun stýra uppbyggingunni í borginni. Við erum að þétta byggð mest þar sem línan verður. Samgöngumátinn hefur mest áhrif á hvernig borgir byggjast upp.“
Á meðal annarra leiða sem séu til skoðunar sé álagning tafargjalda. „Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu eru að skoða þessa leið. Það hefur þó engin ákvörðun verið tekin.“