Guðjón Skarphéðinsson, einn þeirra sem sýknaður var í Hæstarétti í september í fyrra í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, náði ekki samkomulagi við sáttanefnd stjórnvalda varðandi miska- og skaðabætur. Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns, segir að næstu skref séu að undirbúa málsókn þar sem ríkið virðist ekki vilja ná sáttum. Frá þessu er greint á RÚV.
Bótatilboð ríkisins of lágt
Í september árið 2018 sýknaði Hæstiréttur fimm sakborninga af öllum ákæruliðum í endurupptöku á einu umdeildasta sakamáli 20. aldarinnar, Guðmundar- og Geirfinnsmálsinu, nærri því 40 árum eftir að dómurinn féll í Hæstarétti árið 1980. Forsætisráðherra skipaði í kjölfarið sáttanefnd sem leiða átti sáttaumleitun við aðila máls og aðstandendur þeirra. Nefndin átti jafnframt að gera tillögur um hugsanlega greiðslu miska- og skaðabóta eða eftir atvikum svonefndra sanngirnisbóta til aðila málsins og aðstandenda þeirra.
Fréttablaðið greindi síðan frá því í lok apríl að upphaflega hefðu stjórnvöld hyggst verja til sáttanna í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu 400 milljónum en nú hefði sú upphæð verið hækkuð í 600 milljónir til að liðka fyrir viðræðunum. Þeirri upphæð yrði síðan deilt á milli hinna sýknuðu meðal annars eftir lengd frelsissviptingar.
Ragnar Aðalsteinsson sagði í viðtali í Silfrinu fyrr í mánuðinum að það hljóti að hafa orðið einhver mistök hjá stjórnvöldum þegar upphæð miskabóta í málinu var ákveðin. Enn fremur greindi hann frá því að hann hafi krafið ríkið um miskabætur upp á rúman milljarð og atvinnutjón nálægt 120 miljónum fyrir hönd síns skjólstæðings. Hann segist hafa miðaði upphæð bótanna við það fordæmi sem hann einna helst hafi en það er dómur Hæstaréttar frá 1983, í málum svonefndra Klúbbsmanna.
Næstu skref að undirbúa málsókn
Í morgun greindi Fréttablaðið síðan frá því að Guðjón hafi hafnað bótatilboði sáttanefndar stjórnvalda. Andri Árnason, settur ríkislögmaður í málinu, er hins vegar ekki búin að taka formlega afstöðu til kröfu Guðjóns en þar sem ekki var gengið að henni við borð sáttanefndar þá segir blaðið að ólíklegt sé að henni verði annað en hafnað.
Ragnar sagði í samtali við fréttastofu RÚV í morgun að ekkert formlegt tilboð hafi komið fram frá sáttanefnd en að nefndin hafi verið að ræða tölur á bilinu 120 til 150 milljónir króna. Hann sagði að því virðist sem ríkið vilji ekki ná sáttum og því séu næstu skref í máli Guðjóns hefja undirbúning að málsókn. „Ég tel ekki að ríkið vilji ræða sættir áfram. Ég veit ekki hvort það hafi áhuga á sáttum,” sagði Ragnar.
Þá sagðist Ragnar janframt að hann hefði ekki heyrt af því hvort að niðurstaða væri komin í mál hinna málsaðilanna sem sýknaðir voru í Hæstarétti síðasta haust.