Skipasmíðastöðin Crist S.A. hefur samþykkt tilboð Vegagerðarinnar um lokauppgjör vegna smíði Herjólfs og styttist því í að ferjan verði afhent. Tilboðið hefur verið samþykkt en samningar hafa ekki verið undirritaðir en vænta má þess að það verði gert fljótlega. Tilboðið var sent skipasmíðastöðinni í morgun.
Þetta kemur fram í frétt Vegagerðarinnar í dag.
Vegagerðin hefur átt í stífum samningaviðræðum við skipasmíðastöðina frá því í lok febrúar þegar ljóst var að stöðin krefðist viðbótargreiðslu upp á 8,9 milljónir evra. Sú krafa var að mati Vegagerðarinnar ekki í samræmi við efni samnings um smíði skipsins.
Í núverandi sáttagerð hefur Vegagerðin fallist á að greiða stöðinni viðbót við smíðaverð upp á 1,5 milljónir evra auk þess að falla frá kröfu um tafabætur að andvirði 2 milljóna evra. Það er álit Vegagerðarinnar að með þessu sé fram komin lausn sem báðir aðilar geta við unað um leið og forðað verði frekara tjóni vegna tafa á afhendingu skipsins.
Í fréttinni kemur jafnfram fram að Vegagerðin fagni því að deilan sé leyst og að það styttist að nýr Herjólfur komi til landsins.