„Þetta er auðvitað áfellisdómur finnst mér yfir stjórnsýslunni í bankanum að þessu leyti. Það er alveg vafalaust í mínum huga.“
Þetta sagði Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í gærkvöldi. Jón Steindór lagði í fyrra fram fyrirspurn til forsætisráðherra þar sem hann fór fram á að fá upplýsingar um ráðstöfun neyðarlánsins sem Seðlabanki Íslands veitti Kaupþingi í október 2008, upplýsingar um hvernig ákvörðun um lánið var veitt og hvernig innheimtur af láninu voru.
Í svari sínu við fyrirspurninni beindi forsætisráðherra því til Seðlabanka Íslands að hann myndi óska eftir upplýsingum um þá ráðstöfun frá Kaupþingi ehf., slitabúi hins fallna banka.
Skýrsla Seðlabankans um veitingu lánsins var síðan birt í fyrradag.
Hægt er að sjá stiklu úr þætti gærdagsins hér að neðan:
Í skýrslunni kemur skýrt fram að ekki hafi verið unnið í samræmi við bankastjórnarsamþykkt um veitingu þrautarvaralána, sem hafði verið sett í apríl 2008, þegar neyðarlánið var veitt. Þar er einnig staðfest að engin formleg lánabeiðni hafi legið fyrir í seðlabankanum, að lánið hafi verið greitt út áður en gengið var frá lánapappírum og formlegum veðtökugögnum.
Jón Steindór segir að þrátt fyrir að reynt sé að sýna því skilning að ákvarðanirnar hafi verið teknar við mjög óvenjulegar aðstæður, í miðju fjármálahruni, þá séu svona vinnubrögð ekki boðleg. „Það réttlætir það ekki að menn geri það með þessum hætti. Að það sé nánast ekki til nein skjölun af neinu tagi á beiðnum, á hinni formlegu ákvörðun, með hvaða skilyrðum og svo framvegis. Jafnvel þótt menn séu í miklum flýti og undir gríðarlegri pressu þá á stofnun eins og Seðlabankinn skilyrðislaust að hafa þannig verklag og ferla að það standist slíkt álag en sé samt gert með réttum og formlegum hætti.“
Jón Steindór segir að sér finnist það heldur ekki boðleg skýring.„Þarna var um að tefla þvílíka hagsmuni og þvílíka fjármuni að menn hljóta að vilja læra sem hraðast af fortíðinni til þess að menn geri ekki sömu mistökin í framtíðinni. Það er ansi stór tímateygja þegar þú ert komin tíu ár frá atburðum þangað til að þú ætlar að fara að læra af þeim. Þá getur maður spurt sig hvað hefði getað gerst eða hvað hefði gerst í millitíðinni.“