Mynd: Bára Huld Beck

Neyðarlánið sem átti aldrei að veita

Seðlabanki Íslands hefur birt skýrslu um veitingu 500 milljón evra neyðarláns til Kaupþings sama dag og neyðarlög voru sett á Íslandi, þann 6. október 2008. Skýrslan hefur verið rúm fjögur ár í vinnslu. Í henni er ekki mikið af nýjum upplýsingum um veitingu lánsins né ráðstöfun þess. Rétt tæplega helmingur lánsins tapaðist.

„Eftir á að hyggja hefði verið betra að veita ekki lánið. Það er hins vegar ekki þar með sagt að þetta hafi verið rangt sjónarmið miðað við aðstæðurnar og þær upplýsingar sem þá lágu fyrir. Allt orkar tvímælis þá gjört er og ekki er alltaf viðeigandi að nota einungis mælistikur upplýsinga síðari tíma þegar einstakar ákvarðanir eru metnar.“

Þetta segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri í formála 53 blaðsíðna skýrslu um 500 milljón evra þrautarvaralán sem Seðlabanki Íslands veitti Kaupþingi 6. október 2008.

Í henni kemur fram að það liggi nú fyrir að ekki muni endurheimtast meira af láninu en sem nemur 260 milljónum evra, sem eru 36 milljarðar króna á gengi dagsins í dag. Það þýðir að af höfuðstól lánsins, reiknað á gengi dagsins í dag, töpuðust 33,2 milljarðar króna. Þá á eftir að taka tillit til vaxta eða annarrar ávöxtunar sem umrædd upphæð hefði getað notið ef fjármununum hefði verið ráðstafað með öðrum hætti.

Árið 2014 hafði Seðlabanki Íslands gefið það út að um 270 milljónir evra myndu endurheimtast af láninu. Nú er ljóst að sú upphæð hefur skroppið saman.

Skýrslan hefur verið rúm fjögur ár í vinnslu, en tilkynnt var um gerð hennar í febrúar 2015. Í formálanum segir Már að meðal þess sem hafi tafið skýrslugerðina sé að reynt hafi „verið að fylgja þeirri meginreglu í starfi Seðlabankans á undanförnum árum að úrlausnarefni nútíðar og framtíðar hafi forgang umfram málefni fortíðarinnar.“  

Skýrslan átti upphaflega einungis að snúast um hvernig unnist hefði úr danska bankanum FIH, sem tekinn var að veði fyrir neyðarláninu. Síðar var því bætt við að skoða sérstaklega lánveitinguna sjálfa. Það hafi tafið vinnuna.

Í formálanum segir Már að tiltæk gögn um lánveitinguna séu fátækleg og „varðandi ýmis atriði þurfti að styðjast við minni og munnlega frásögn þeirra sem tóku þátt í ferlinu. Seðlabankinn hafði ekki gögn um ráðstöfun lánsins fyrr en í kringum síðastliðin áramót.“

Seðlabankinn bar ábyrgð en starfsreglum ekki fylgt

Tekist hefur verið á um það á undanförnum árum hver hafi tekið ákvörðun um að veita neyðarlánið. Yfirlögfræðingur Seðlabankans hefur sagt að Seðlabankinn hefði ákveðið að veita lánið. Geir H. Haarde sagði í sjónvarpsviðtali í október 2014 að Seðlabankinn hefði haft fulla heimild til að veita lánið.

Í skýrslu Seðlabanka Íslands segi að ekki leiki „vafi á að sjálf ákvörðunin var tekin af bankastjórn Seðlabankans að höfðu samráði við forsætisráðherra.“ Það voru því bankastjórar Seðlabankans sem tóku ákvörðunina um að lána Kaupþingi nær allan lausan nettó gjaldeyrisvaraforða þjóðarinnar. Ábyrgðin hvíldi á endanum hjá Seðlabankanum.

Bankinn hafði enda ótvíræða heimild til að veita þrautarvaralán án atbeina annarra valdhafa. Þá liggur fyrir að 21. apríl 2008 var samþykkt sérstök bankastjórnarsamþykkt, nr. 1167, um viðbrögð Seðlabankans við lausafjárvanda banka. Í reglunum var sérstaklega kveðið á um að skipa ætti starfshóp innan bankans til að takast á við slíkar aðstæður og að gilda ætti ákveðið verklag ef aðstæður sem kölluðu á þrautarvaralán kæmu upp. Verklaginu var skipt í alls sex þætti. Í samþykktinni var einnig fjallað um við hvaða skilyrði lán til þrautavara kæmi til greina og í henni var settur fram ákveðin gátlisti vegna mögulegra aðgerða Seðlabankans við slíkar aðstæður.

Þegar Kaupþing fékk 500 milljónir evra lánaðar 6. október 2008 var ekki farið eftir þessari bankastjórnarsamþykkt.

Í skýrslunni segir: „Þegar þrautavaralánið var veitt voru uppi einstakar aðstæður sem líkja mátti við stríðsástand á mörkuðum eins og áður hefur komið fram og því þurfti að bregðast fljótt við. Vegna hinnar miklu tímapressu við lánveitinguna reyndist ekki unnt að fylgja starfsreglunum að öllu leyti enda geta slíkar reglur eingöngu verið leiðbeinandi en ekki bindandi þar sem ekki er alltaf hægt að sjá fyrir hvernig ástand í fjármálaáfalli raungerist.“

Muna ekki atburðarásina á sama hátt

Ýmsar skýringar hafa einnig verið gefnar á því í gegnum tíðina hvað hafi valdið því að Kaupþingi hafi verið hjálpað en ekki öðrum íslenskum bönkum. Þá hafa þau sjónarmið einnig ítrekað verið sett fram að það hefðu ekki verið forsendur til að hjálpa neinum banka, staða þeirra hafi einfaldlega verið þannig.

Í skýrslunni eru rifjuð upp ummæli Össurar Skarphéðinssonar, þáverandi iðnaðarráðherra, í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem kom út í apríl 2010. Aðfaranótt 6. október, þess dags sem neyðarlög voru sett á Íslandi vegna fjármálahrunsins, funduðu ýmsir íslenskir ráðherrar með ráðgjöfum frá bandaríska bankanum J.P. Morgan sem komið höfðu til landsins daginn áður að ósk Seðlabankans. Í skýrslu rannsóknarnefndar er eftirfarandi haft eftir Össuri: „[… fulltrúar J.P. Morgan] sögðu: Þetta er bara svona, ykkar bankakerfi er þannig að það er varla hægt að bjarga því. Og ef það er hægt að bjarga einhverju þá er það Kaupþ…, þá er það KB.“

Sami skilningur virtist raunar koma fram hjá Geir H. Haarde, þá forsætisráðherra, í frægu símtali hans við Davíð Oddsson skömmu fyrir hádegi þennan dag, 6. október 2008. Þar sagði Davíð við Geir: „Þú ert að tala um það að við eigum frekar að reyna að hjálpa Kaupþingi.“ Og Geir svaraði:“ „Það slær mig þannig, sko, og mér fannst þeir vera líka á þeirri línu í gærkvöldi allavega þessir Morgan-menn“.

Símtal milli Davíðs Oddsonar og Geirs H. Haarde var í lykilhlutverki við veitingu lánsins.
Mynd: Samsett

Í skýrslu Seðlabankans kemur hins vegar fram að í viðtölum við þá sem voru í forsvari fyrir J.P. Morgan þessa örlagaríku nótt hafi þeir neitað að þeir hafi gefið til kynna að það væri á það reynandi að bjarga Kaupþingi. Þar er vitnað í viðtal Morgunblaðsins við Michael Ridley, sérfræðing hjá J.P. Morgan, sem var einn þeirra þriggja sem flogið var inn með einka­þotu frá London um kvöld­mat­ar­leytið 5. októ­ber 2008 til Reykja­víkur þar sem þeir fóru yfir stöðu banka­kerf­is­ins með íslenskum ráða­mönn­um.

Í viðtalinu, sem birt var í október 2018, sagði hann að ekki hafi verið til nægur gjald­eyr­is­vara­forði til að bjarga neinum íslensku bank­anna sem féllu. Kaup­þing, Lands­bank­inn og Glitnir höfðu sótt gríð­ar­lega fjár­muni á erlenda mark­aði þar sem lánsfé var ódýrt og vöxtur þeirra í kjöl­farið gerði það að verkum að bank­arnir þrír urðu allt of stórir í hlut­falli við íslenska hag­kerf­ið. Í ljósi þess að  ekki hafi verið til fjár­munir til að bakka upp allt banka­kerfið þá var ekki hægt að bjarga neinum banka.

Engin lánabeiðni og veðtöku var ábótavant

Þá er staðfest í skýrslunni að engin lánabeiðni var frá Kaupþingi í Seðlabankabankanum, að ekki var gengið frá lánasamningi né formlegri veðsetningu þótt að yfirlýsing um veðtöku í danska FIH bankanum hafi verið undirrituð og fyrir liggur að Kaup­þingi var frjálst að ráð­stafa lán­inu að vild. Þetta er allt í samræmi við það sem Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, hélt fram í grein sem hann birti í Fréttablaðinu í október 2014, og vakti mikla athygli.

Seðla­bank­inn svar­aði grein Hreið­ars Más sam­dæg­urs og sagði að hann væri að ekki að segja satt. Í yfir­lýs­ingu sagði að starfs­menn bank­ans hefðu strax gengið í „að full­vissa sig um að veðið fyrir lán­inu til Kaup­þings stæði til reiðu og lög­maður Kaup­þings gerði hlut­hafa­skrá í Dan­mörku strax við­vart um að Seðla­bank­inn væri að taka veð í öllum hlutum FIH-­bank­ans. Veð­gern­ing­ur­inn var full­klár­aður fyrir lok við­skipta­dags og rétt­ar­vernd veðs­ins hafði þá verð að fullu tryggð. Stjórn­endur Kaup­þings und­ir­rit­uðu gern­ing­inn fyrir lok við­skipta­dags 6. októ­ber. Þannig að full­yrð­ingar um að ekki hafi verið gengið frá veð­setn­ingu fyrr en mörgum dögum seinna eru rang­ar“.

Davíð Odds­son skrifaði í kjölfarið Reykja­vík­ur­bréf í Morgunblaðið undir þar sem hann hafnaði því sem Hreiðar Már hafði sagt í grein sinni. Þar sagði Dav­íð: „Í gær var birt yfir þvera for­síðu Frétta­blaðs­ins lyga­frétt með við­eig­andi myndum um stofnun og raunar ein­stak­ling sem öll fjöl­miðla­sam­steypan hefur haft veiði­leyfi á síðan ítök núver­andi eig­enda hófust þar, þótt um hríð væri logið til um eignarhaldið[...]Eitt sím­tal við við­kom­and­i, ­stofn­un­ina eða ein­stak­ling­inn hefð­i ­tryggt að blaðið yrði ekki sér til­ ­skammar með breið­síðu sinn­i“.

Skýrsla Seðlabankans sýnir að Hreiðar Már var að segja rétt frá í grein sinni. Lánið var greitt út þegar bankinn hafði fengið upplýsingar um að eignarhlutur Kaupþings í FIH væri veðbandalaus en áður en að frágangi veðyfirlýsingarinnar var lokið.

Í skýrslunni stendur að „þótt ekki hafi verið gengið frá lánssamningi hafa tilvist lánsins og gildi veðyfirlýsingarinnar aldrei verið dregin í efa, enda fór svo að Seðlabankinn gekk að veðinu og yfirtók eignarhlutinn. Vegna þess hversu langt var liðið á viðskiptadaginn í Evrópu var hafist handa við að undirbúa og framkvæma útgreiðslu lánsins um leið og ljóst var að eignarhlutur Kaupþings í FIH væri veðbandalaus og að veðið myndi fást, jafnvel þótt frágangi veðyfirlýsingarinnar væri ekki lokið. Fjárhæðin var millifærð á reikning Kaupþings í Deutsche Bank í Frankfurt. Í greiðslufyrirmælum til þeirra erlendu banka sem Seðlabankinn tók út af reikningum sínum hjá til að greiða fjárhæðina kom fram að evrurnar skyldu vera Kaupþingi til reiðu samdægurs.“

Ekki hægt að draga einhlítar ályktanir um ráðstöfun

Mikið hefur líka verið deilt um það árum saman í hvað neyðarlánið hafi farið. Geir H. Haarde hefur sagt opinberlega að hann hafi talið að peningarnir sem Kaupþing fékk að láni hefðu átt að fara til Bretlands til að mæta kröfum þarlendra stjórnvalda um aðgengilegt lausafé fyrir Kaupþing Singer & Friedlander.

Hreiðar Már sagði við rannsóknarnefnd Alþingis að um 200 milljónir evra hefðu farið til sænska seðlabankans, til að tryggja starfsemi bankans þar, auk þess sem hluti lánsins hafi farið til Lúxemborgar, Finnlands og Noregs þar sem áhlaup var hafið á bankann. Rannsakendur hafa staðfest að hluti fjárins hafi sannarlega farið til Svíþjóðar.

Í grein Hreiðars Más frá því í október 2014 sagði hann að „allt fjármagnið var nýtt til að tryggja aðgang viðskiptavina bankans í fjölmörgum löndum Evrópu að bankainnistæðum sínum, tryggja aðgang dótturbanka Kaupþings í Evrópu að lausafé og mæta veðköllum bankans vegna fjármögnunar hans og viðskiptavina hans á verðbréfum hjá alþjóðlegum bönkum í Evrópu. Með öðrum orðum þá var allt féð notað til að tryggja sem frekast var kostur rekstur og hag Kaupþings og viðskiptavina bankans.“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fór fram á að fá upplýsingar um ráðstöfun neyðarlánsins.
Mynd: Bára Huld Beck

Í svari Katrínar Jak­obs­dóttur for­­­sæt­is­ráð­herra við fyr­ir­­­spurn Jóns Stein­­­dórs Vald­i­mar­s­­­son­­­ar, þing­­­manns Við­reisn­­­­­ar, um neyð­­­ar­lán­veit­ing­una, sem birt var á vef Alþingis 14. nóv­­­em­ber 2018, kom fram að hún ætl­­­aði að óska eftir því að Seðla­­­banki Íslands myndi óska svara frá Kaup­­­þingi ehf. um ráð­­­stöfun neyðarlánsins og að bank­inn myndi greina frá nið­­­ur­­­stöðum þeirra umleit­ana í skýrslu sinni sem birt var í gær.

Að mati Seðlabankans er ekki mögulegt að draga einhlítar ályktanir um ráðstöfun þrautarvaraláns Seðlabankans til Kaupþings á grundvelli þeirra upplýsinga sem hann aflaði sér. Þær sýni þó að á þessum tíma var verið að inna af hendi greiðslur sem ella hefðu líklega leitt til falls bankans. Inn á reikning Kaupþings í Frankfurt streymdu 698 milljónir evra til viðbótar við þá 500 sem Seðlabanki Íslands lánaði frá 6. til 8. október en staða hans var neikvæð upp á 397 milljónir evra í byrjun fyrri dagsins. Þegar Fjármálaeftirlitið tók yfir Kaupþing að morgni dags 9. október höfðu 810 milljónir evra flætt út af þeim reikningi. Ekki er farið yfir aðrar ráðstafanir á fé eða lánveitingar hjá Kaupþingssamstæðunni þessa daga í októbermánuði 2008 aðrar en þær sem fóru beint út af umræddum reikningi í Deutsche Banki í Frankfurt.

Flest vitað, annað ekki kannað sérstaklega

Lítið nýtt kemur fram um hvernig þeim fjármunum var ráðstafað. Hárri upphæð var ráðstafað til að takast á við áhlaup á Edge-innlánsreikninga Kaupþings, greiðslur voru inntar af hendi til norrænna seðlabanka og tveggja evrópskra banka vegna veðkalla i tengslum við endurkaupasamning og umtalsverðri fjárhæð var ráðstafað vegna gjaldeyrisviðskipta. Þá voru um 400-500 greiðslur sem voru undir tíu milljónum evra, alls upp á 114,5 milljónir evra, greiddar út.

Auk þess var staðfest að tvær greiðslur vegna hinna svokölluðu CLN-viðskipta fóru út af reikningi Kaupþings í Frankfurt eftir að neyðarlánið var veitt. CLN-viðskiptin, sem unnin voru að undirlagi Deutsche Bank, snérust um að frá 29. ágúst til 8. októ­ber 2008 lán­aði Kaup­þing á Íslandi alls 510 millj­ónir evra í slíka gjörninga, sem jafngilti nálægt 70 milljörðum króna miðað við gengi evru 7. október 2008. Um var að ræða lánshæfistengd skuldabréf sem voru orðin verðlaus í lok ofangreinds tímabils. Á nokkrum vikum hafði rúmlega hálfur milljarður evra tapast og eftir stóð ekkert nema risaskuld eignarlausra aflandsfélaga við Kaupþing.

Greiðslur frá Kaupþingi vegna veðkalla frá Deutsche Bank hófust 22. september, sama dag og tilkynnt var að Sheikh Al Thani hefði keypt stóran hlut í bankanum. Þorri greiðslnanna fór fram eftir að Glitnir hafði verið þjóðnýttur og síðustu tvær, samtals upp á 50 milljónir evra, voru millifærðar 7. október 2008, daginn eftir að Kaupþing fékk neyðarlán frá Seðlabanka Íslands og tveimur dögum áður en bankinn fór á hausinn. Þær greiðslur eru staðfestar í skýrslu Seðlabankans.

Þar segir að færslurnar beri með sér að „áhlaup er í gangi á innstæður og önnur fjármögnun er að verða erfiðari sem lýsir sér í veðköllum sem væntanlega tengjast veð- og endurkaupasamningum. Samtals nema greiðslur til norræns seðlabanka, útstreymi á innstæðum og greiðslur vegna veðkalla 442 milljónum evra. Vegna greiðslna í tengslum við CLN skuldabréfið má nefna að málið er ennþá til meðferðar hjá dómstólum. Ekki er heldur hægt að draga miklar ályktanir af upplýsingum um fjárhæð gjaldeyrisviðskipta og mótaðila í þeim viðskiptum. Gera má ráð fyrir að þær færslur hafi þegar verið skoðaðar af þar til bærum aðilum.“

Már Guðmundsson segir í Morgunblaðinu í dag að bankinn hafi hvorki skoðað saknæmi þeirra ráðstafana sem gripið var til né til hverra stór hluti fjármunana fór, til að mynda sá hluti sem skilgreindur er sem gjaldeyrisviðskipti eða smærri viðskipti. „Aðrir gætu náttúrlega sagt að það var líka að koma þarna inn annað fé, 698 [milljónir evra]. Í hvað var það nýtt? Það var þarna útstreymi á öðrum liðum eins og gjaldeyrisviðskiptum og við vitum ekkert nákvæmlega hvað var á bak við það en það ætti að vera eðlilegt að lita þannig á að ef þeir sem voru að rannsaka þessi mál töldu eitthvað óeðlilegt þá hefðu þeir átt að skoða það og kannski var það gert.“

Upplýsingar sem hafa legið fyrir í níu ár

Ekkert er þó farið yfir aðrar ráðstafanir sem gerðar voru innan Kaupþingsamstæðunnar daganna eftir að neyðarlánið var veitt, og þangað til að bankinn féll. Skoðun Seðlabankans einskorðaðist við að fara yfir það sem fór inn og út af reikningi bankans í Frankfurt þessa daga. Þar er um að ræða upplýsingar sem legið hafa fyrir hjá þrotabúi Kaupþings frá árinu 2010, eða í níu ár, en aðilar máls hafa ekki beðið um fyrr en um síðustu áramót.

Ýmislegt hefur verið rannsakað um það hvernig Kaupþing ráðstafaði fé þessa daga í byrjun október 2008. Þar ber helst að nefna lán Kaupþings til félags sem hét Lindsor Holding upp á 171 milljón evra og er dagsett 6. október 2008. Lindsor var, samkvæmt gögnum rannsakenda hjá embætti sérstaks saksóknara og Fjármálaeftirlitinu og yfirheyrslum yfir þeim sem að málinu komu, stýrt af stjórnendum Kaupþings. Í skýrslu Seðlabanka Íslands er ekkert nýtt sett fram um þá lánveitingu en greint frá því að um hana hafi verið fjallað í fjölmiðlum og í gæsluvarðhaldsúrskurði sem greint hafi verið frá opinberlega.

Hægt er að lesa meira um Lindsor-málið hér.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar