Bára Huld Beck

Alkóhólistar á Alþingi

Auður Jónsdóttir rithöfundur rabbaði við Kára Stefánsson um alkóhólisma á Alþingi. Benda viðbrögð Klausturþingmanna til þess að þeir séu alkóhólistar og er eðlilegt að þjóðkjörnir fulltrúar séu drukknir á almannafæri?

Ég átti að mæta klukkan átta í Morg­un­út­varpið að tjá mig um fréttir vik­unnar en draum­ur­inn var svo sætur að ég snús­aði vekjara­klukk­una þangað til tutt­ugu mín­útur voru í að útvarps­þátt­ur­inn byrj­aði svo ég rétt náði að hringja á leigu­bíl og hend­ast upp í útvarps­hús. Þar sett­ist ég inn í stúdíó ennþá í svefn­rof­um, utan við mig þegar þátta­stjórn­endur byrj­uðu að fara yfir helstu tíð­indi síð­ustu daga. Fljót­lega bár­ust Klaust­ur­þing­menn í tal vegna nýlegs úrskurðar per­sónu­verndar í máli þeirra, þess efnis að Bára Hall­dórs­dóttir hefði brotið per­sónu­vernd­ar­lög með því að taka upp tal þeirra, þó henni væri ekki gert að borga sekt. 

Hrjót­andi heil­inn hrökk í gang og ég heyrði mig spyrja, ákveðið til að dylja þok­una í hausnum, hvort þeir væru ekki bara alkó­hólist­ar. Ég fabúler­aði eitt­hvað út frá þess­ari kenn­ingu minni, frekar óða­mála þegar mér fannst ég skynja fát á þátta­stjórn­endum en kannski var það bara ímyndun mín. Samt, kannski átti maður ekki að gera svona, að kalla aðra alkó­hólista. 

Ég skjögraði stressuð út úr þætt­in­um, rölti heim og lagð­ist aftur upp í rúm, nú með haus­inn fullan af örum vanga­veltum til að rétt­læta eigin mál­flutn­ing. En ég dugði ekki til að sann­færa sjálfa mig svo ég hringdi í Kára Stef­áns­son og sagði: Sæll Kári, mig langar að hitta þig og tala um alkó­hól­isma og stjórn­mál, ég var að pæla í þessu Klaust­ur­máli.

Kári kveikti strax á per­unni, álíka ör í vanga­veltum sínum þegar hann sagði eitt­hvað á þessa leið: Per­sónu­vernd er ögrað með þessu máli, hún er sett í erf­iða stöðu; lög um frið­helgi einka­lífs­ins gera miklar kröfur til fólks­ins sem situr í stjórn hennar en mér finnst það venju­lega höndla þessi mál skyn­sam­lega. Og það telur ekki rétt að taka upp svona sam­töl. Nefndin verður að huga að for­dæm­inu en samt er í raun­inni tekin afstaða með Báru sem þarf ekki að borga sekt. Það verður að hafa í huga að þessir Klaust­ur­þing­menn eru ekki venju­legir ein­stak­ling­ar, þeir eru kjörnir full­trúar þjóð­ar­inn­ar, sem geta boðið sig fram aft­ur, og þess vegna kemur það almenn­ingi við ef þeir verða sér til skammar á fyll­er­íi.

Ég hresstist öll við að heyra þetta og sagði: Já, ef atferli þeirra bendir til þess að þeir séu virkir alkó­hólistar hlýtur að vera í lagi að spyrja sig að því.

Kári gaf ekk­ert út á það heldur sagði: Ræðum þetta betur yfir kaffi, hringdu í mig klukkan eitt á morg­un.

Aflið sem litar dag­ana

Ég hélt áfram að horfa upp í loftið þegar ég var búin að kveðja Kára. Alkó­hól­ismi hefur verið mér hug­leik­inn megnið af ævi minni. Þegar ég velti fyrir mér hvort ein­hver sé hugs­an­lega alkó­hólisti er það ekki áfell­is­dómur yfir mann­eskj­unni. Þvert á móti. Svo margir sem mér þykir vænt um eru ýmist virkir eða óvirkir alkó­hólistar og síðan ég var barn hef ég horft upp á fólk menga líf sitt, stundum rústa eða jafn­vel glata því, út af sjúk­dómn­um. Ég veit ekki hversu oft ég hef horft upp á góðar mann­eskjur gera vonda hluti af því þær eru alkó­hólist­ar, raunar hef ég skrifað alla­vega þrjár skáld­sögur til að reyna að skilja atferl­ið. 

Ég er barn alkó­hólista og kannski er það ástæðan fyrir því að vinir mínir flissa að því að ef ég verð skotin í manni má næstum heita víst að hann sé alkó­hólisti. Eig­in­lega lað­ast ég að alkó­hólistum frekar en að dæma þá. Kenn­ingin segir að ef barn alkó­hólista og alkó­hólisti hitt­ist innan um þús­und manns finni þau strax hvort ann­að. Við mann­eskj­urnar erum í raun­inni bara elem­ent og ef við erum ekki því með­vit­aðri um elem­entin í okkur ráða þau örlögum okk­ar. 

En mér er líka alkó­hól­ismi hug­leik­inn út af sjálfri mér. Ég skildi fyrir einu og hálfu ári síðan og upp­lifði það sem fólk kallar þennan venju­lega skiln­að­ar­pakka. Í eitt ár djamm­aði ég eins og ung­lingur og komst þannig aftur í kynni við gam­al­kunn­ugt stjórn­leysi æsku- og ung­lings­ár­anna. Ef það er eitt­hvað sem ein­kennir alkó­hól­isma umfram annað er það stjórn­leys­ið. Því þó að kona kíki kannski bara tvisvar í mán­uði á bar­inn, þá lúrir undir afl þess megn­ugt að lita alla hina dag­ana.

Klausturþingmennirnir.
Samsett mynd

Eins og gerð­ist í til­felli Klaust­ur­þing­manna, þeir fram­kvæmdu hinn meinta sak­lausa gjörn­ing að kíkja á bar­inn og fá sér einn til að létta á streit­unni. Þegar rann af þeim voru þús­undir mættar á Aust­ur­völl til að mót­mæla ölv­uðu athæfi þeirra. Martröð! Já. En það hefði getað orðið verra. Þeir hefðu getað gert hvað sem er í þessu ástandi, allt hefði getað komið fyrir þá. Ef það er rétt sem Gunnar Bragi seg­ir, að hann hafi verið í löngu blakkáti.

Sektin féll á kon­una sem heyrði

Lífið verður stjórn­laust, stað­reyndin er sú að næstum allt vont sem kemur fyrir þig ger­ist undir áhrifum áfeng­is, svo margt vont ger­ist undir áhrifum þess, sagði Kári þegar ég heim­sótti hann dag­inn eftir á skrif­stofu hans í Íslenskri erfða­grein­ing­u. 

Ég hrað­rit­aði orðin með tölv­una á hnjánum því hvor­ugt okkar kunni að kveikja á upp­töku­tæk­inu í sím­anum og við veigruðum okkur við að trufla örygg­is­vörð­inn sem var far­inn niður eftir að hafa fylgt mér upp á efstu hæð. Kári talar hratt svo þegar hann sagði safa­rík­ustu hlut­ina lagði ég tölv­una frá mér til að ræða mál­in, áfjáð í umræðu­efn­ið. En ég náði þó að skrifa þessi orð hans: Á milli þess sem þú drekkur verður allt kaó­tískt. Ég hef aldrei verið mik­ill drykkju­maður en þó oft til vand­ræða við drykkju og lít á mig sem alka og hef ekki smakkað dropa af áfengi í nokkur ár. Það var ekki ákvörð­un, mér fannst þetta bara svo dap­ur­legt að ég gat ekki drukkið leng­ur. Ég hef oft orðið mér til skammar, brotið lög og gert alls­konar vit­leysu undir áhrif­um. Ég er eng­inn eng­ill þegar kemur að þessu. Og það er alveg kýr­skýrt í huga mér að það meikar engan sens fyrir mig að drekka.

Ímynd­aðu þér! Þessir alþing­is­menn sem fara á Klaust­ur­bar og drekka sig fulla. Ég held að það sé vissu­lega rétt, að þetta geri fólk. Og að það þyki ekk­ert til­töku­mál að þing­menn setj­ist við drykkju og tali á ógeð­felldan hátt um annað fólk. Þetta snýst frekar um hvernig þeir brugð­ust við eftir að allt komst upp. Þá var ekki aðal­at­riðið að þeir drykkju og töl­uðu á óvið­eig­andi hátt um fólk heldur að ein­hver heyrði það. Sektin færð­ist frá þeim yfir á þann sem hlust­aði á þá. Eins og þeir hefðu tekið karakt­er­túr í til­vist­ar­stefnu. Tréð í skóg­inum féll aldrei því eng­inn heyrði það falla.

Það eru við­brögð þeirra við gagn­rýn­inni sem end­ur­spegla alkó­hól­isma. Þetta er ein­hverjum öðrum að kenna! Allir alkar sem ég þekki reyna að kenna öðrum um drykkj­una og afleið­ingar henn­ar. All­ir.

Já, sam­sinnti ég, ein­beitt að vél­rita meðan myndir af glað­hlakka­legum alkó­hólistum frá ýmsum ólíkum tíma­bilum lífs míns döns­uðu fyrir hug­skots­sjón­um. Iðandi stjórn­leysi óskilj­an­legra atvika ein­kennir sam­neyti við þá alla. Allt þetta ynd­is­lega áfeng­is­sjúka fólk.

Bára Halldórsdóttir mætir í Héraðsdóm. Sektin féll á hana.
Bára Huld Beck

Klass­ískur fíkni­sjúk­dómur

Það má spyrja sig hvort rétt sé að dæma þetta fólk út frá því sem gerð­ist á barn­um, sagði Kári næst, því í þessu ástandi, þegar búið er að fjar­lægja allar hömlur og breyta starf­semi heil­ans með alkó­hóli, þá segja og gera menn hömlu­lausa hlut­i. 

Jamm, dæsti ég, hugsi yfir áhættu­hegð­un­inni að losa um allar höml­ur. Meðan höml­urnar voru virkar hlaut þó eitt­hvað af þessu að hafa lúrt í huga Klaust­ur­þing­manna því alkó­hól­ismi er ekki það sama og ofbeldi eða til­hneig­ing til skipu­lagðrar hat­urs­orð­ræðu, þó að hann leysi oft slíkt úr læð­ingi.

En þessi við­brögð þeirra benda til að þing­menn­irnir séu alkó­hólist­ar, útskýrði Kári. Að þeir þjá­ist af þessum sjúk­dómi sem breytir mönnum tölu­vert og þá er eðli­legt að þeir leiti sér hjálpar við því.

Þeir eru full­trúar Alþing­is, sem á hverju ein­asta ári veltir upp frum­varpi um að gera alkó­hól aðgengi­legra, koma því í mat­vöru­búðir og svo fram­veg­is. Eins og Alþingi sé ómeð­vitað um hvað þetta er alvar­legt mál. Fjórð­ungur þjóð­ar­innar verður fyrir áhrifum af alkó­hól­is­ma, hvort sem um er að ræða eigin alkó­hól­isma eða fjöl­skyldu­með­lima og ann­arra náinna, þú veist til dæmis hvaða áhrif neysla for­eldra hefur á börn. Fíkni­sjúk­dómar eru algeng­asta ástæða dauða ungs fólks, á milli fimmtán ára og fer­tugs. Fólk á aldr­inum milli fimmtán ára og fer­tugs deyr sjaldan af öðrum sjúk­dómum en fíkni­sjúk­dómar deyða það svo sann­ar­lega. Alkó­hól­ismi er klass­ískur fíkni­sjúk­dóm­ur.

Þegar þú drekkur áfengi tek­urðu inn efni sem minnkar höml­ur, veldur væn­i­sýki og óstöðugri hugsun jafnt sem óstöð­ugum fót­um, þetta er eit­ur­lyf sem Ríkið selur þér og getur stór­skaðað þig, botn­aði Kári og byrj­aði síðan að þylja upp hrika­legar lík­am­legar afleið­ingar langvar­andi drykkju eins og inn­vortis blæð­ing­ar, skert skamm­tíma­minni, flog, tremma og geð­ræn vanda­mál.

Þing­menn drukknir á almanna­færi

Lýs­ing­arnar á afleið­ingum sjúk­dóms­ins urðu svo hrika­legar úr munni tauga­lækn­is­ins, sem nýverið var fyrstur Íslend­inga kjör­inn í banda­rísku vís­indaka­dem­í­una, að ég veigraði mér við að skrifa frek­ari útlist­ingar á þeim. En Kári breytti ekki um svip og hélt áfram: Það er tak­marka­laus ósvífni í sjálfu sér að ætl­ast til þess að þegar búið er að kjósa mann­eskju til þess að stjórna land­inu hafi hún heim­ild til að taka inn eitur sem tekur af henni stjórn­ina og allar höml­ur. Og sitja þannig, sem þing­menn, að ræða mál þings­ins eins og þeir gerðu.

Ég hef tekið þátt í alls­konar ósvífnum og slæmum sam­ræðum undir áhrifum áfeng­is, og skamm­ast mín fyrir það, en ég hef aldrei gert það sem kjör­inn full­trúi þjóð­ar­inn­ar. Kannski að það sé mátt­leys­is­leg afsökun en mér finnst að þetta fólk, sem við kjósum til að stjórna land­inu, verði að setja sér hærri við­mið og gæta þess að taka ekki eit­ur­lyf sem hafa áhrif á starf­semi heil­ans meðan þing er við störf. Á móti kemur að það er afskap­lega vanda­samt að setja þing­mönnum lífs­regl­ur, sem eru öðru­vísi en okkar hinna, því auð­vitað vill maður líka hafa full­trúa þjóð­ar­innar inni á þingi með kostum þeirra og göll­u­m. 

En er eðli­legt að vera virkur alkó­hólisti á þingi? spurði ég, með­vituð um að áber­andi fylgi­fiskar alkó­hól­isma eru meðal ann­ars óheið­ar­leiki, dóm­greind­ar­leysi, óábyrg kyn­lífs­hegð­un, sið­rof og afneit­un.

Þegar búið er að kjósa fólk á þing á það ekki að sjást drukkið á almanna­færi, sagði Kári stað­fast­ur. Og segjum sem svo að þetta hefðu verið skipu­lagðar njósnir á Klaust­ur­bar … væri þá eitt­hvað rangt við það? Mér finnst það ekki. Þetta eru full­trúar þjóð­ar­inn­ar, hún á rétt á að vita það ef svona upp­á­komur eiga sér stað. Eins og ég sagði, ég er meira hissa á við­brögðum þess­ara þing­manna eftir á en því að þeir hafi verið öskr­andi full­ir.

Það hefði verið eðli­legt ef Alþingi hefði boðið þessum mönnum upp á með­ferð til að forð­ast frek­ari upp­á­komur af þess­ari gerð. Og svo er það þetta: Alka­hól­ismi er sjúdómur sem veldur ekki bara ein­kennum hjá þeim sem drekkur heldur líka hjá fjöl­skyldu­með­limum hans og öðrum í nærum­hverfi. Klaust­uræv­in­týrið sýnir okkur líka, svo ekki verður um vill­st, að áhrifin ná langt út fyrir það. Sú birt­ing­ar­mynd alka­hól­isma sem blasti við okkur á Klaust­ur­barnum hefur valdið óyndi hjá heilli þjóð. Það er eðli­leg krafa að þátt­tak­end­urnir geri eitt­hvað í sínum mál­um.

Sam­úðin eins og súrt gall

Í huga mínum er alkó­hól­ismi sjúk­dómur og ég lít á hann sem hvern annan sjúk­dóm svo ég áfellist ekki menn fyrir hann, hélt Kári áfram. Við eigum ekki að gera það. En við getum tjáð áhyggjur af sjúk­dómn­um, af hverju má það ekki? Við eigum að sjá til þess að sjúk­dóm­ur­inn hafi sem minnst áhrif á mann­inn og sam­fé­lagið sem hann býr í. Hugs­aðu þér hvað upp­á­koman á Klaust­ur­bar hefur haft mikil áhrif á líf þess­ara þing­manna og þeirra nán­ustu. Sýndu smá sam­úð. Ókei!

Birgir Þór

Ókei, já, sagði ég og fann gam­al­kunn­uga samúð aðstand­and­ans vætla upp í mig eins og súrt gall.

Þetta hefði ekki komið fyrir ef þeir hefðu ekki drukk­ið, sagði Kári með þunga.

Nei, sam­sinnti ég. Nefni­lega!

Þá segja menn: Öl er innri mað­ur. Rosa­lega eru þetta vondir menn. Má vel vera, kjams­aði Kári, að þeir séu vondir menn. En það er ekki rök­rétt ályktun að draga af því sem kom fyrir á Klaust­ur­barnum því menn gera alls­konar og segja undir áhrifum áfeng­is. Heila­börk­ur­inn hefur því hlut­verki að gegna að hemja hugs­anir og athafnir en eftir nóg áfengi missa menn stjórn­kerfið sitt, heil­inn hættir að virka og þeir missa höml­urn­ar. Mér finnst ekki skyn­sam­legt að dæma menn á grund­velli þess sem þeir gera þegar heil­inn á þeim virkar ekki. En mér finnst líka að það megi gera kröfur til þeirra þegar þeir verða sér og sínum til skammar svo þeir taki á vanda sínum og leiti sér aðstoð­ar. Í stað þess að rísa upp nokkrum dögum síðar og segja að allt saman sé öðrum að kenna. Að hafa heyrt þetta eða bent á það! Þeir ættu frekar að líta á þetta sem víti til varn­aðar og forð­ast áfengi.

Já, bara þakka Báru! Alveg sam­mála, sagði ég en þá setti Kári í brýrnar og til­kynnti mér að ég væri í hættu.

Ég?!

Já, þú með þinn heila. Þú ert barn alkó­hólista og heil­inn þinn er ein­göngu búinn til úr upp­lýs­ingum sem voru not­aðar til þess að búa til heila for­eldra þinna og alka­hól­ismi er heila­sjúk­dóm­ur.

Mynd­irðu ekki drekka ef þú værir ég? spurði ég. 

Nei, sagði Kári. Það er hættu­legt fyrir þig. Ég myndi heldur ekki drekka ef ég væri ég af því það væri hættu­legt fyrir mig. 

Senni­lega er það rétt, muldr­aði ég og tók Kára á orð­inu.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnAuður Jónsdóttir
Meira úr sama flokkiViðtal