Umræðu um þriðja orkupakkann sem átti að halda áfram á Alþingi klukkan 10.40 var frestað um óákveðinn tíma. Þetta var gert eftir að forystumenn flokkanna settust á fund í dag til að ræða framgang mála á Alþingi en frá þessu er greint í frétt RÚV.
Forystumenn flokkanna ákváðu að halda fundahöldum áfram klukkan ellefu og finna leiðir til að rjúfa þá flóknu stöðu sem upp er komin á Alþingi vegna málþófs þingmanna Miðflokksins um þriðja orkupakkann.
Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, segir í samtali við Kjarnann þetta vera stórfínt. „Það hefur aldrei staðið á okkur að fresta umræðum,“ segir hann.
Í stað þriðja orkupakkans hófu þingmenn því umræðu um heilbrigðisstefnu til ársins 2030, þingsályktunartillögu Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði undarlegt að komast í ræðustól að ræða málið eftir að hafa þurft að bíða í tíu daga. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, sagði þá að biðin væri hálfur mánuður, samkvæmt RÚV.
Forseti Alþingis sagði við upphaf þingfundar að forystumenn flokka hygðust eiga fund klukkan ellefu til að leita leiða til að ná samkomulagi. Því varð niðurstaðan af fyrri fundi þeirra í morgun að víkja frá röð mála á dagskrá. Þriðji orkupakkinn var því tekinn af dagskrá og mál sem honum tengjast.
Lögðu til lausn
Fjórir stjórnarandstöðuflokkar, Viðreisn, Píratar, Samfylkingin og Flokkur fólksins, lögðu til fyrir tveimur dögum að flokkarnir á Alþingi myndu semja um afgreiðslu þeirra mála sem bíða og að innleiðing þriðja orkupakkans, sem Miðflokkurinn hafði haldið uppi umræðu um dögum saman, yrði færð aftast á dagskrá þessa þings.
Umræðan staðið í 134 klukkustundir
Í frétt RÚV kemur fram að umræðan um þriðja orkupakkann sé orðin sú næstlengsta á Alþingi síðan sameinað hafi verið í eina deild árið 1991.
Umræðan hefur staðið í 134 klukkustundir og átta mínútur. Hún er klukkustund styttri en umræðan um Icesave og er orðin hálfum öðrum sólarhring lengri en umræðan um EES-samninginn. Umræðan um EES-samninginn var lengi langlengsta umræðan á Alþingi og sú fyrsta sem náði því að standa yfir í hundrað klukkustundir.