Félag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, Reliquum, átti engar kröfur á WOW air þegar það keypti skuldabréf á félagið með reiðufé þann 26. september í fyrra. Alls var fjárfestingin upp á þrjá milljónir evra, um 415 milljónir króna á gengi dagsins í dag.
Þetta segir Ragnhildur Sverrisdóttir, upplýsingafulltrúi Björgólfs Thors, í skriflegu svari við fyrirspurn Kjarnans. Þar segir einnig að með kaupum hafi Björgólfur Thor fyrst og fremst vilja „styðja Skúla Mogensen, sem hafði unnið þrekvirki við uppbyggingu flugfélagsins.“
Í nýrri bók Stefáns Einars Stefánssonar, viðskiptaritstjóra Morgunblaðsins, sem ber nafnið WOW – Ris og fall flugfélags og kom út í síðustu viku, var í fyrsta sinn greint frá því að Björgólfur Thor hefði tekið þátt í skuldabréfaútboðinu WOW air haustið 2018.
Kom fyrst inn í september 2018
Kjarninn beindi fyrirspurn til Björgólfs Thors vegna þessa og spurði hvenær Reliquum eða hafi upphaflega fjárfest í WOW air. Í svari Ragnhildar kom fram að Reliquum hafi fjárfest í skuldabréfaútboðinu rétt í lokin á útboðsferlinu í september 2018. „Fjárfestingin var metin eins og hver önnur fjárfesting þar sem ávöxtun þótti í samræmi við áhættu miðað við fyrirliggjandi upplýsingar á þeim tíma. Reliquum átti engar kröfur á WOW á þeim tíma og var greitt fyrir hin keyptu skuldabréf með reiðufé hinn 26. sept. sl.“ Aðspurð um hvort að Björgólfur Thor eða önnur félög á hans vegum hafi fjárfest með einhverjum hætti í WOW air fyrir þennan tíma svaraði Ragnhildur því neitandi.
Alls nam skuldabréfaútgáfa WOW air, sem varð gjaldþrota í lok mars síðastliðins, 60 milljónum evra að nafnvirði, eða um 8,3 milljörðum króna á gengi dagsins í dag. Nordic Trustees & Agency hafa lýst kröfu í þrotabúið fyrir hönd allra skuldabréfaeigenda. Reliquum stendur á bak við þá kröfulýsingu eins og aðrir skuldabréfaeigendur.
Birti færslu
Björgólfur Thor birti í dag færslu á heimasíðu sinni, www.btb.is, um málið. Þar endurtók hann að mestu það sem fram hafði komið í svörum Ragnhildar til Kjarnans og bætti við að hann hafi samþykkt þær tillögur sem lagðar voru fyrir skuldabréfaeigendur um að hugsanlega breyta kröfum í hlutafé, í þeim tilgangi að bjarga verðmætum. Forsenda þess hafi þó verið sú, líkt og áður hefur verið rakið, að nýir fjárfestar kæmu með hlutafé inn í WOW air, sem gekk ekki eftir.
Hann segir missi af WOW air og að leitt sé að ekki hafi tekist að koma félaginu fyrir vind. „Ég leyfi mér þó að vona að umfjöllun um málefni félagsins verði rétt og sanngjörn og að rangfærslur, á borð við þá að ég hafi verið hluthafi í WOW eða átt einhverja aðkomu þar aðra en kaup á skuldabréfum sl. haust, heyri sögunni til.“