Ríkissjóður hefur keypt húseignina Jónstótt ásamt lóð en ríkiseignir taka við umráðum eignarinnar með sambærilegu fyrirkomulagi og er gagnvart Gljúfrasteini en Jónstótt er við hliðina á Gljúfrasteini.
Þetta kemur fram í svari Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, við fyrirspurn Bryndísar Haraldsdóttur um Laxnesssetur.
Áætlaður kostnaður ríkisins vegna kaupa og lágmarksendurgerðar á fasteigninni Jónstótt liggur á bilinu 120 til 145 milljónir króna. Komið er að miklu viðhaldi á eigninni og verður ákvörðun um framkvæmdir tekin svo fljótt sem verða má, segir í svarinu.
Alþingi samþykkti í júní árið 2016 að fela menntamálaráðherra að hefja uppbyggingu Laxnessseturs á Gljúfrasteini í samvinnu við Mosfellsbæ og stjórn Gljúfrasteins. Samkvæmt þingsályktunartillögu sem samþykkt var verður leiðarljós setursins að halda á lofti minningu Halldórs Laxness, veita fræðsu um verk hans og leggja áherslu á að Mosfellssveit og -bær var hans heimabyggð. Þá verði setrið einnig með aðstöðu til rannsókna og fræðistarfa.
Starfshópur skipaður
Í svari ráðherra kemur jafnframt fram að kaupin séu mikilvæg fyrir uppbyggingu Laxnessseturs. Þar sé meðal annars litið til þess að samkvæmt deiliskipulagi fyrir Þingvallaveg sé gert ráð fyrir breytingum á legu vegarins sem myndi gera núverandi bílastæði við Gljúfrastein ónothæft, en bílastæði í landi Jónstóttar lægi mjög vel við safninu.
Ákvörðun um með hvaða hætti húsnæðið og landareignin að Jónstótt verði nýtt í þágu framtíðaruppbyggingar Laxnessseturs verður tekin síðar. Í því augnamiði verður skipaður starfshópur með fulltrúum ráðuneytis, Mosfellsbæjar, stjórnar Gljúfrasteins og Framkvæmdasýslu ríkisins.