Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að ekkert samkomulag sé til staðar um þinglok, hvorki við Miðflokkinn né aðra flokka stjórnarandstöðunnar. Í samtali við Kjarnann segist hún ekki geta sagt til um hvenær þinglok verði eins og stendur, en samkvæmt upphaflegri starfsáætlun átti þingi að ljúka í dag, 6. júní.
Stjórnarandstöðuflokkunum var boðin sá valkostur að fresta umræðum um tvö mál, þriðja orkupakkann og sameiningu Seðlabanka Íslands við Fjármálaeftirlitið, fram í ágúst fyrr í þessari viku en því tilboði var hafnað.
Því blasti við í gær að áframhaldandi þrátafl yrði til staðar og að umræður um þriðja orkupakkann, sem Miðflokkurinn hefur sett Íslandsmet í málþófi í umræðum um, myndu halda áfram í dag.
Dagskrá breytt skyndilega
Þingfundi var hins vegar skyndilega slitið rétt fyrir klukkan átta í gærkvöldi í stað þess að hann myndi standa langt inn í nóttina og fram á morgun, líkt og verið hefur lengst af á meðan að á málþófi Miðflokksins hefur staðið.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði í umræðum um fundarstjórn í morgun að Steingrímur væri „kranablaðamaður ríkisstjórnarinnar“ og að hann færi fram með „offorsi og öllum sínum krafti.“
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, sagði við sama tilefni að „þar til að nálgast hálft tólf í gærnótt lá fyrir að þessi fundur hér ætti að hefjast á óundirbúnum fyrirspurnum og svo ætti þriðji orkupakkinn að halda áfram út í hið óendanlega. En án fyrirvara breytir forseti dagskránni, án samráðs og þvert á fyrri orð, þvert á það sem forseti hafði áður sagt þingflokksformönnum. Um það snýst gagnrýni stjórnarandstöðunnar.“
Vilja ekki gera samkomulag saman
Mikil pattstaða er því uppi á Alþingi. Hún er meðal annars vegna þess að stjórnarandstaðan er ekki samstíga og skiptist í tvær fylkingar. Í annarri eru fjórir flokkar: Samfylking, Viðreisn, Píratar og Flokkur fólksins og í hinni er Miðflokkurinn.
Hluti vandamálsins snýst um að meirihluti stjórnarandstöðunnar vill ekki bera ábyrgð á Miðflokknum heldur vill semja sérstaklega um þinglok við stjórnina og láta Miðflokkinn gera sitt eigið samkomulag. Ríkisstjórnin vill á móti semja við alla stjórnarandstöðuna í einu.
Aðspurð segir forsætisráðherra að ekkert samkomulag sé til staðar né að slíkt sé í pípunum. „Hvorki við Miðflokkinn né hina stjórnarandstöðuflokkana.“