Arndís Sue-Ching Löve, lyfjafræðingur og doktorsnemi við læknadeild, segir að ekki sé aðeins hægt að mæla magn fíkniefna í frárennsli heldur megi einnig skoða ýmsa vísa um heilbrigði samfélagsins.
Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Læknablaðsins en hún hefur síðustu fimm ár mælt fíkniefni í skólpi hér á landi fyrir doktorsverkefni sitt sem hún vinnur á Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði.
Hún segir að hægt sé að skoða umbrotsefni alkóhóls, nikótíns, koffíns og ýmis lífmerki sem bendi til dæmis til streitu eða sjúkdóma.
Fram kemur í grein Læknablaðsins að Arndís hafi síðastliðin fjögur ár tekið þátt í evrópsku samstarfsverkefni þar sem algeng fíkniefni eru mæld í frárennsli 85 Evrópuborga. Niðurstöðurnar hafa verið birtar af Evrópsku rannsóknamiðstöðinni, EMCDDA, fyrir eiturlyf og eiturlyfjafíkn.
Reykjavík í efsta sæti
Niðurstöðurnar sýna að fjórfalt meira kókaín mældist í skólpi höfuðborgarsvæðisins í mars í fyrra en tveimur árum áður. Það vermir efsta sæti borga Norðurlandanna þegar kemur að kókaíni en það tólfta sé litið til þeirra Evrópuborga þar sem fíkniefni voru mæld í skólpi á vikutímabili í fyrra. Efst er Bristol á Englandi, þá Amsterdam í Hollandi og Zürich í Sviss í því þriðja þegar kemur að kókaíni.
Arndís segir þetta vera í samræmi við aukningu kókaíns í ökumönnum hér á landi.
Aukning MDMA mikil um helgar
Reykjavík er samkvæmt mælingunum í öðru sæti yfir mest amfetamínmagn á eftir Saarbrücken í Þýskalandi, þar sem notkunin mælist þó nærri tvöfalt meiri. Hún mældist í 14. sæti yfir metamfetamín, þar sem Erfurt í Þýskalandi trónar á toppnum, og 9. sæti yfir MDMA, en Amsterdam í því efsta. Arndís segist fylgjast sérstaklega vel með þróun metamfetamíns hér á landi en aukning hefur mælst í Noregi og Finnlandi.
„Við fylgjum oft hinum Norðurlöndunum í þróun og viljum því sjá hvort metamfetamín-magn í frárennsli sé að aukast hér á landi,“ segir hún. Svo sé það MDMA, einnig kallað e-töflur eða Mollý. Heildarmagn MDMA hafi haldist stöðugt milli ára, en aukning sé mikil um helgar.
Hægt er að hlusta á hlaðvarp Læknablaðsins þar sem spjallað er við Arndísi hér.