Þeir tíu frambjóðendur sem freista þess að taka við sem formaður breska Íhaldsflokksins og þar með forsætisráðherra Bretlands hafa nú verið tilkynntir. Í hópnum eru alls átta karlar og tvær konur. Á meðal þeirra er Andrea Leadsom, sem laut í lægra haldi fyrir May í síðasta formannskjöri, og Boris Johnson fyrrverandi utanríkisráðherra. Frá þessu er greint á vef BBC.
Theresa May hætti formlega sem leiðtogi Íhaldsflokksins á föstudaginn en hún mun hins vegar sitja áfram sem forsætisráðherra þar til eftirmaður hennar hefur verið skipaður. Fyrsta atkvæðagreiðslan fer fram á meðal þingmanna flokksins næstkomandi fimmtudag, þann 13. júní. Raðir atkvæðagreiðslna fara síðan fram á meðal þingmanna Íhaldsflokksins þar til frambjóðendunum hefur verið fækkað niður í tvo. Þá fá flokksmeðlimir Íhaldsflokksins, um 160 þúsund manns, að kjósa á milli þeirra tveggja frambjóðenda sem eftir standa og hefst sú atkvæðagreiðsla 22. júní. Mánuði síðar tekur nýr leiðtogi við embætti formanns flokksins.
Þeir tíu íhaldsmenn sem etja kappi um hver verður næsti leiðtogi Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Bretlands eru eftirfarandi.
- Michael Gove, umhverfisráðherra í stjórn Theresu May
- Matt Hancock, heilbrigðisráðherra
- Mark Harper, fyrrverandi þingflokksformaður og ráðherra
- Jeremy Hunt, utanríkisráðherra í stjórn Theresu May
- Sajid Javid, innanríkisráðherra í stjórn Theresu May
- Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra
- Andrea Leadsom, fyrrverandi leiðtogi neðri deildar breska þingsins
- Esther McVey, fyrrverandi atvinnu- og eftirlaunaráðherra
- Dominic Raab, fyrrverandi ráðherra Brexit-mála
- Rory Stewart, þróunarráðherra
Nýr formaður Íhaldsflokksins tekur við keflinu í Brexit viðræðunum en fresturinn til að ná samkomulagi um forsendur útgöngunnar var framlengdur fram í október á þessu ári. Skiptar skoðanir eru meðal frambjóðendanna tíu um hvernig best sé að haga útgöngunni.