Isavia varð fyrir tölvuárás í gær. Tyrkneskur hakkarahópur segist hafa ráðist á vefsíðuna til að hefna fyrir móttökur tyrkneska karlalandsliðsins, að því er kemur fram í frétt RÚV.
Í tilkynningu frá Isavia segir að um svokallað DDos (Distributed denial of service) árás hafi verið að ræða þar sem „framkölluð er umferð á vefsíðuna með þúsundum sýndarnotenda. Með þeim hætti náðu óprúttnir aðilar að gera vefsíðuna óvirka.”
Á vefsíðu Isavia eru birtar flugupplýsingar fyrir alla íslenska áætlunarflugvelli. Tæknimenn hafi unnið að því að verjast árásunum og koma vefsíðunni í samt horf. Enn fremur er beðið velvirðingar á vandamálum sem þetta kunni að valda, að því er kemur fram í tilkynningunni.
Utanríkisráðuneytið neitar ásökunum
Tyrknesk stjórnvöld hafa beðið íslenska utanríkisráðuneytið svara við meintum töfum tyrkneska karlalandsiðsins í fótbolta við vegabréfaeftirlit og öryggisleit. Liðið kom til lands í gærkvöld vegna leiks við íslenska karlalandsliðið í fótbolta.
Í tilkynningu utanríkisráðuneytisins segir að ekki hafi verið mögulegt að bregðast við beiðni tyrkneska stjórnvalda við hraðameðferð í gegnum vegabréfsskoðun og öryggisleit þar sem hún kom með of skömmum fyrirvara. Slík fyrirgreiðsla standi að jafna aðeins háttsettum sendierindrekum og ráðamönnum til boða, að því er kemur fram í tilkynningunni.
Utanríkisráðuneytið hefur svarað orðsendingu tyrkneskra stjórnvalda þar sem áréttað var að framkvæmd eftirlitsins „hafi verið í samræmi við hefðbundið verklag og ekki hafi reynst unnt að verða við hraðmeðferð.“