Alþingi hefur samþykkt tvö lagafrumvörp um breytingar á stjórnsýslu- og upplýsingalögum. Frumvörpin eru hluti af aðgerðum stjórnvalda til að auka tjáningarfrelsi og upplýsingarétt almenning. Með breytingunum eru upplýsingalögin útvíkkuð og ná þau nú til hluta af starfsemi Alþingis og dómstóla. Auk þess er kveðið á í lögunum um ráðgjafi stjórnvalda sem hefur það hlutverk að stuðla að bættri upplýsingagjöf hins opinbera og ber honum meðal annars að leiðbeina almenning um framsetningu upplýsingabeiðna.
Flóknar reglur um þagnarskyldu takmörkuðu tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna
Frumvörpin eru afrakstur nefndar sem forsætisráðherra skipaði í mars 2018 um um umbætur á löggjöf á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis. Nefndinni var meðal annars falið að fara yfir gildandi upplýsingalög í ljósi þróunar á alþjóðavettvangi og framkvæmdar laganna og meta hvort þörf væri á lagabreytingum.
Með lagabreytingunni bætist við kafli um tjáningarfrelsi og þagnarskyldu opinberra starfsmanna í stjórnsýslulögin. Kaflinn hefst á yfirlýsingu um að opinberir starfsmenn hafi frelsi til að tjá sig opinberlega um atriði sem tengjast starfi þeirra svo fremi sem þagnarskylda eða trúnaðar- og hollustuskyldur standa því ekki í vegi. Með lögunum er þó ekki verið að auka við þagnarskyldu opinberra starfsmanna heldur er þeim ætlað að skýra þær reglur sem um þagnarskyldu gilda til þess að gera opinberum starfsmönnum betur kleift að nýta tjáningarfrelsi sitt.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði þegar hún mælti fyrir frumvarpinu að flóknar og óljósar þagnarskyldureglur takmörkuðu tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna og gætu valdið hættu á að viðkvæmar upplýsingar kæmust á almannavitorð. Því væru skýrar reglur betri en óskýrar til að gæta beggja hagsmuna.
Auk þess voru gerðar fleiri breytingar á þagnarskylduákvæðum 80 lagabálka í því skyni að skýra og samræma framkvæmd þagnarskyldu í íslenskum rétti.
Ráðgjafi til að aðstoða almenning við að sækja upplýsingar
Á meðal þess sem breytt var í upplýsingalögunum er að nú ná þau yfir þá hluta starfsemi Alþingis og dómstóla sem eiga mest skylt við stjórnsýslu og hert er á skyldu ráðuneyta til að birta upplýsingar um mál sem þau hafa til meðferðar. Enn fremur er nú í lögunum kveðið á um frumkvæðisskyldu ráðuneyta í að birta upplýsingar um mál sem þau hafa til meðferðar.
Jafnframt hefur tími til að svara upplýsingabeiðnum verið styttur í lögunum en ef beiðni um aðgang að gögnum hefur ekki verið afgreidd innan 30 virkra daga frá móttöku hennar er beiðanda heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál sem úrskurðar um rétt hans til aðgangs. Þá er úrskurðarnefnd upplýsingamál einnig gert skylt að birta úrskurð svo fljótt sem verða má en að jafnaði innan 150 daga frá móttöku hennar.
Með lögunum er einnig komið á fót ráðgjafa stjórnvalda um upplýsingarétt almennings. Hann hefur það hlutverk að stuðla að bættri upplýsingagjöf hins opinbera. Honum ber meðal annars að leiðbeina einstaklingum, félagasamtökum, fjölmiðlum, lögaðilum og öðrum sem til hans leita um framsetningu beiðni um aðgang að gögnum, hvert henni skal beint og svo framvegis. Auk þess skal hann fylgjast með því hvernig opinberir aðilar rækja skyldur sínar til að veita almenningi aðgang að upplýsingum, hvort sem er samkvæmt beiðnum eða að eigin frumkvæði.
Stefnt að því að Ísland verði í fremstu röð
Haft er eftir forsætisráðherra í fréttatilkynningu Stjórnarráðsins að með frumvörpunum sé Ísland að taka skref í þá átt að skapa sér afgerandi lagalega sérstöðu á sviði tjáningar-, fjölmiðla- og upplýsingafrelsis.
„Ég er mjög ánægð með þennan áfanga til að auka gagnsæi og upplýsingafrelsi. Með þessum frumvörpum stígum við mikilvægt skref í átt að gagnsærri stjórnsýslu þannig að Ísland verði í fremstu röð varðandi reglur á þessu sviði. Breytingarnar fela í sér útvíkkun gildissviðs upplýsingalaga til dæmis hvað varðar stjórnsýslu, Alþingi og dómstóla en með lögunum er líka lögð ríkari kröfur á herðar stjórnvöldum til að tryggja betur aðgengi almennings að upplýsingum,“ segir Katrín.