Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að það fjölgi stöðugt upplýsingum og gögnum sem sýni fram á að innflutningur á fersku kjöti sé alls ekki sú ógn sem haldið hefur verið fram. Hann segir í samtali við Kjarnann að niðurstöður skimunar á vegum Matvælastofnunar á íslensku sauðfé og nautakjöti sýni að staðan er ekki jafn góð hér á landi líkt og haldið hefur verið fram. Sjúkdómsvaldandi bakteríur og sýklalyfjaónæmi í kjöti sé alþjóðlegt vandamál sem ekkert land sé ónæmt fyrir.
Fundu sjúkdómsvaldandi bakteríur í íslensku kjöti
Skimun á vegum Matvælastofnunar, heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins sýnir að STEC E. coli finnst bæði í kjöti af íslensku sauðfé og nautgripum. STEC fannst í 30 prósent sýna stofnunarinnar af lambakjöti og 11,5 prósent sýna af nautgripakjöti. Þetta er í fyrsta sinn hefur verið skimað fyrir eiturmyndandi tegund E.coli í kjöti af sauðfé og nautgripum hérlendis.
Á vef Matvælastofnunar segir að STEC sé eiturmyndandi tegund E. coli sem getur valdið alvarlegum veikindum í fólki en algeng sjúkdómseinkenni eru niðurgangur en einnig getur sjúkdómurinn leitt til nýrnaskaða, svokallað HUS (Hemolytic Urea Syndrome). Fólk getur smitast af STEC með menguðum matvælum eða vatni, með beinni snertingu við smituð dýr, eða umhverfi menguðu af saur þeirra. Þá segir að neytendur geta dregið verulega úr áhættu með því að gegnumelda kjöt fyrir neyslu og gæta að krossmengun.
Samanburðurinn byggður á ófullnægjandi upplýsingum
Ólafur segir í samtali við Kjarnann að samanburðurinn á innfluttu kjöt og íslensku hafi verið byggður á ófullkomnum upplýsingum. Hann segir að í fyrsta lagi vanti að miklu leyti upplýsingar um sýklalyfjanotkun í íslenskum landbúnaði en að einnig sé erfitt að bera þær upplýsingar saman við önnur Evrópuríki. Það sé vegna þess að lífmassi fiskeldis er meðtalinn í útreikningum á sýklalyfjanotkun í landbúnaði. Sýklalyf eru hins vegar ekki notuð í fiskeldi á Íslandi og vegna þess hve stór hlutur fiskeldis er af landbúnaði á Íslandi þá skekkir það hlutfallð. „Samanburðurinn um sýklalyfjanotkun í landbúnaði við hin Evrópuríkin verður því skakkur og óraunhæfur, “ segir Ólafur.
Í öðru lagi bendir hann á að hér á landi séu aðeins nýhafnar skimanir samkvæmt evrópskum reglugerðum. Skimun Matvælastofnunar á sjúkdómsvaldandi bakteríum í íslensku kjöti er sú fyrsta sem framkvæmd er hér á landi. Ólafur segir að niðurstöður Matvælastofnunar sýni að staðan er ekki jafn góð hér og landi og áður hefur verið haldið fram. „Nú fjölgar stöðugt upplýsingum og gögnum sem sýna fram á að innflutningur á fersku kjöti er alls ekki sú ógn sem haldið hefur verið fram,“ segir Ólafur.
Hann bendir á að sjúkdómsvaldandi bakteríur og sýklalyfjaónæmi í kjöt sé alþjóðlegt vandamál sem ekkert land sé ónæmt fyrir. „Það er rangt, líkt og þessu hefur verið stillt upp í umræðunni, að innlenda varan sé svo hrein og heilnæm en útlenda varan óhrein og hættuleg.“
Enn fremur segir Ólafur að stjórnvöld hafi vanrækt ýmsar varúðarráðstafanir og að það þurfi að horfa til fleiri þátta en innflutnings til að sporna við frekari útbreiðslu sjúkdómsvaldandi baktería og sýklalyfjaónæmi. Í stað þess að mismuna erlendri vöru með því banna innflutning á fersku kjöti þá hvetji félagið frekar til þess að stjórnvöld grípi til alhliða ráðstafanna þegar að kemur að matvælaöryggi.
Bjartsýn á að frumvarpið fari í gegn
Í febrúar síðastliðnum lagði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fram frumvarp á Alþingi sem felur í sér að frystiskylda á innfluttu kjöti verði afnumin og heimilt verði að flytja inn ferskt kjöt, fersk egg og vörur úr ógerilsneyddri mjólk. Frumvarpið er nú í annarri umræðu á þinginu en nái frumvarpið fram að ganga munu hömlur á innflutningi falla niður þann 1. september næstkomandi.
Ólafur segir aðspurður að FA sé bjartsýnt á frumvarpið verði samþykkt á Alþingi. „Að sjálfsögðu erum við bjartsýn á að þetta fari í gegn, það getur ekki verið að Alþingi brjóti áfram gegn EES- samningum vísvitandi.“
Munu beita sér fyrir frekari rannsóknum
Guðrún Tryggvadóttir, formaður Bændasamtaka Íslands, segir í svari við fyrirspurn Kjarnans að niðurstöður Matvælastofnunnar sýni, eins og fram kemur í skýrslunni, að það þarf að rannsaka þessi mál betur og skerpa á fyrirbyggjandi aðgerðum í sláturhúsum og kjötvinnslum.
„Bændasamtökin munu beita sér fyrir því Matvælastofnun rannsaki þessi mál enn frekar. Frekari rannsóknir eru mikilvægar til þess að leiða í ljós hvort bakteríurnar eru, í einhverjum tilfellum, til staðar í sjúkdómsvaldandi magni, en þær niðurstöður sem nú eru kynntar sýna eingöngu hvort þær finnast eða ekki,“ segir Guðrún.
Hún segir jafnframt að áhugavert væri í þessu tilfelli að hafa samanburð við önnur lönd í Evrópu. „Iðrasýkingar af völdum STEC eru afar fátíðar hér á landi í samanburði við önnur lönd og er tíðni þeirra hér á landi til dæmis með því lægsta sem gerist í Evrópu þrátt fyrir að skimun Matvælastofnunar hafi sýnt fram á algengi þeirra á kjöti.“
Auk þess bendir Guðrún á að niðurstöður skimunarinnar sýni sterka stöðu íslenska svínakjöt og kjúklingakjöts en í sýnum úr íslensku kjúklinga- og svínakjöti fannst hvorki salmonella né kampýlóbakter „Þetta eru mjög jákvæðar niðurstöður og til marks um hversu sterkar þessar greinar standa hér á landi og að sú áhersla sem lögð á þessi mál af hálfu bænda hefur skilað árangri,“ segir Guðrún.