Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að forystusveit flokksins sé nú nokkuð sama um hvað sé samþykkt á landsfundum, að í þá sveit raðist reynslulítið fólk sem hafi fengið pólitískt vægi „langt umfram það sem áður tíðkaðist“ og að laskaður flokkurinn sé að taka á sig enn meira högg með stuðningi sínum við þriðja orkupakkann. Þetta er meðal þess sem fram kemur í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag.
Davíð skrifaði hvassa gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn og forystu hans á sama vettvangi fyrir viku síðan sem vakti mikla athygli, enda hefur Morgunblaðið nær alltaf fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum og Davíð ein fyrirferðarmesti formaður í sögu flokksins. Þá sagði hann meðal annars að Morgunblaðið væri borgaralegt blað og þótt „það lúti ekki fjarstýringum utan úr bæ frá flokkum eða einstaklingum lætur að líkum að blaðið ætti oftar en ekki að geta átt góða samleið með flokknum ef hann er sjálfum sér samkvæmur og heill í fögrum fyrirheitum sínum.“
Gagnrýnir flokksforystuna
Í Reykjavíkurbréfi dagsins heldur gagnrýni Davíðs á flokkinn áfram og hún grundvallast fyrst og síðast á afstöðu hans flokksins í þriðja orkupakkamálinu, sem hann styður ásamt fjórum öðrum flokkum á þingi.
Í bréfinu segir Davíð að það hafi lengi verið „óskráð meginregla í Sjálfstæðisflokknum, sem reyndist vel, að hversu öflugur sem formaður flokksins væri, sem þeir voru sannarlega langflestir, skyldi landsfundur eða flokksráðsfundur tryggja að sá sem næstur stæði formanninum hefði ríkulega stjórnmálalega reynslu ef örlög eða atvik höguðu því svo að fylla þyrfti skarðið yrðu góð tök á því.“
Nú þyki hins vegar fínt að reynslulítið fólk „sem hefur fengið pólitískt vægi með slíkt nesti langt umfram það sem áður tíðkaðist, tali niður til flokkssystkina sinna og leggi lykkju á leið sína til að vísa þeim sem eldri eru út úr umræðunni með þótta sem fer öllum illa.“
Segir Halldór stjórnast af ættarvita
Davíð rekur svo hvernig farið hafi verið með drög að landsfundarsamþykktir í hans tíð og hvaða aðferðarfræði hefði verið beitt til að semja um agnúa á þeim. Þá hefðu slíkar samþykktir verið teknar „mjög alvarlega“. Síðustu árin hafi hins vegar virst sem að forystusveit Sjálfstæðisflokksins „sé nokkuð sama um hvað samþykkt sé á landsfundum, því að ekkert þurfi með það að gera.“
Gagnrýni Davíðs á flokksforystuna og flokkinn undanfarið hefur kallað fram viðbrögð. Einn þeirra sem hafa svarað honum á opinberum vettvangi er Halldór Blöndal, fyrrverandi ráðherra og forseti Alþingis, sem starfaði með Davíð í stjórnmálum áratugum saman. Halldór er frændi Bjarna Benediktssonar, núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins. Í grein sinni benti Halldór á að bréfaskriftir geti verið hættulegar þar sem þær lýsi því í hvaða sálarástandi maður er þá stundina. Síðan gagnrýndi hann framsetningu Davíðs á þriðja orkupakkamálinu.
Hann segir að kannanir sýni að þorri flokksmanna sé á móti þriðja orkupakkanum og að enginn hafi fengið að vita af hverju forysta flokksins hafi farið gegn flokknum í Icesave-málinu. „Og nú fær enginn að vita „af hverju í ósköpunum“, svo notuð séu orð formannsins sjálfs, laskaður flokkurinn á að taka á sig enn meiri högg. Halldór Blöndal áttar sig ekki á þessu fremur en Icesave, sem hann hafði barist gegn þar til ættarvitinn tók öll völd. Þessi sami ættarviti sem núna er að ærast í segulstormunum.“
Segir Bjarna hafa gefið til kynna að hann ætlaði ekki að skipa Má
Davíð rifjar líka upp þegar Már Guðmundsson var endurskipaður seðlabankastjóri af Bjarna Benediktssyni árið 2014, en Davíð var sjálfur seðlabankastjóri í nokkur ár þangað til að gerð var lagabreyting árið 2009 sem leiddi til þess að að hann fór úr starfi. Vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur skipaði svo Má í stöðuna síðar á því ári.
Davíð greinir frá því að Bjarni hefði „bæði gefið til kynna og sagt ýmsum frá að hann ætlaði sér ekki að endurskipa Má Guðmundsson þegar að því kom árið 2014. Þegar að þessu dró var ráðherrann staddur fyrir norðan, sennilega á Siglufirði, og hringdi í menn og upplýsti þá, og þar á meðal ritstjóra Morgunblaðsins, að vegna óvænts flækjustigs sem upp hefði komið (sem ekki verður farið út í hér) hefði hann ekki náð að gera breytingarnar sem hann hefði margboðað. Hann myndi því skipa Má og skipunarbréfið gæfi til kynna að það yrði til fimm ára. Hins vegar væri sameiginlegur skilningur á því að skipunin stæði í hæsta lagi til eins árs.
Ekki voru endilega allir mjög trúaðir á þennan málatilbúnað. En samkvæmt minnispunktunum sagði ráðherrann efnislega á þessa leið: Þessu mega menn treysta og Már gerir sér grein fyrir þessu og mun birta yfirlýsingu sem í raun staðfestir það sem ég er að segja.“
Már situr enn sem seðlabankastjóri og mun ljúka síðara kjörtímabili sínu sem slíkur í ágúst næstkomandi. Nú stendur yfir ráðningarferli á eftirmanni hans.