Segir forystu Sjálfstæðisflokksins vera sama um vilja flokksmanna

Stríð Davíðs Oddssonar og Morgunblaðsins sem hann stýrir við Sjálfstæðisflokkinn heldur áfram á síðum blaðsins í dag. Þar gagnrýnir hann forystu flokksins harkalega og bætir í gagnrýni sína vegna þriðja orkupakkans.

davíð og forystan.jpg
Auglýsing

Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins, segir að forystusveit flokksins sé nú nokkuð sama um hvað sé samþykkt á landsfundum, að í þá sveit raðist reynslulítið fólk sem hafi fengið pólitískt vægi „langt umfram það sem áður tíðkaðist“ og að laskaður flokkurinn sé að taka á sig enn meira högg með stuðningi sínum við þriðja orkupakkann. Þetta er meðal þess sem fram kemur í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag.

Davíð skrifaði hvassa gagnrýni á Sjálfstæðisflokkinn og forystu hans á sama vettvangi fyrir viku síðan sem vakti mikla athygli, enda hefur Morgunblaðið nær alltaf fylgt Sjálfstæðisflokknum að málum og Davíð ein fyrirferðarmesti formaður í sögu flokksins. Þá sagði hann meðal annars  að Morg­un­blaðið væri borg­ara­legt blað og þótt „það lúti ekki fjar­stýr­ingum utan úr bæ frá flokkum eða ein­stak­lingum lætur að líkum að blaðið ætti oftar en ekki að geta átt góða sam­leið með flokknum ef hann er sjálfum sér sam­kvæmur og heill í fögrum fyr­ir­heitum sín­um.“

Gagnrýnir flokksforystuna

Í Reykjavíkurbréfi dagsins heldur gagnrýni Davíðs á flokkinn áfram og hún grundvallast fyrst og síðast á afstöðu hans flokksins í þriðja orkupakkamálinu, sem hann styður ásamt fjórum öðrum flokkum á þingi.

Auglýsing
Gagnrýnin beinist bæði gegn því að í forystu flokksins sé ekki að veljast nægilega öflugt fólk, og án þess að það sé sagt berum orðum er þar ugglaust verið að vísa til Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, varaformanns flokksins, og Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, ritara hans, sem eru báðar ungar konur sitt hvoru megin við þrítugt. Þær hafa báðar verið í stórum hlutverkum í orkupakkamálinu, Þórdís Kolbrún sem ráðherra orkumála og Áslaug Arna sem formaður utanríkismálanefndar.

Í bréfinu segir Davíð að það hafi lengi verið „óskráð meginregla í Sjálfstæðisflokknum, sem reyndist vel, að hversu öflugur sem formaður flokksins væri, sem þeir voru sannarlega langflestir, skyldi landsfundur eða flokksráðsfundur tryggja að sá sem næstur stæði formanninum hefði ríkulega stjórnmálalega reynslu ef örlög eða atvik höguðu því svo að fylla þyrfti skarðið yrðu góð tök á því.“

Nú þyki hins vegar fínt að reynslulítið fólk „sem hefur fengið pólitískt vægi með slíkt nesti langt umfram það sem áður tíðkaðist, tali niður til flokkssystkina sinna og leggi lykkju á leið sína til að vísa þeim sem eldri eru út úr umræðunni með þótta sem fer öllum illa.“

Segir Halldór stjórnast af ættarvita

Davíð rekur svo hvernig farið hafi verið með drög að landsfundarsamþykktir í hans tíð og hvaða aðferðarfræði hefði verið beitt til að semja um agnúa á þeim. Þá hefðu slíkar samþykktir verið teknar „mjög alvarlega“. Síðustu árin hafi hins vegar virst sem að forystusveit Sjálfstæðisflokksins „sé nokkuð sama um hvað samþykkt sé á landsfundum, því að ekkert þurfi með það að gera.“

Gagnrýni Davíðs á flokksforystuna og flokkinn undanfarið hefur kallað fram viðbrögð. Einn þeirra sem hafa svarað honum á opinberum vettvangi er Halldór Blöndal, fyrrverandi ráðherra og forseti Alþingis, sem starfaði með Davíð í stjórnmálum áratugum saman. Halldór er frændi Bjarna Benediktssonar, núverandi formanns Sjálfstæðisflokksins. Í grein sinni benti Halldór á að bréfaskriftir geti verið hættu­legar þar sem þær lýsi því í hvaða sál­ar­á­stand­i ­maður er þá ­stund­ina. Síðan gagnrýndi hann framsetningu Davíðs á þriðja orkupakkamálinu.

Auglýsing
Í Reykjavíkurbréfinu í dag segir Davíð að Halldór Blöndal hafi stundum, hér áður fyrr, haft áttavita sem mátti hafa hliðsjón af. „En hann ratar illa eftir að notkunin á ættarvitanum óx. Og lendir þá í hverri hafvillunni af annarri. Ættarvitanum fylgdi hann þegar hann kúventi yfir nótt og lagðist á árar með Jóhönnu og Steingrími í Icesave og erlendum kröfuhöfum. Flokkurinn hans og okkar hefur ekki borið sitt barr síðan.“

Hann segir að kannanir sýni að þorri flokksmanna sé á móti þriðja orkupakkanum og að enginn hafi fengið að vita af hverju forysta flokksins hafi farið gegn flokknum í Icesave-málinu. „Og nú fær enginn að vita „af hverju í ósköpunum“, svo notuð séu orð formannsins sjálfs, laskaður flokkurinn á að taka á sig enn meiri högg. Halldór Blöndal áttar sig ekki á þessu fremur en Icesave, sem hann hafði barist gegn þar til ættarvitinn tók öll völd. Þessi sami ættarviti sem núna er að ærast í segulstormunum.“

Segir Bjarna hafa gefið til kynna að hann ætlaði ekki að skipa Má

Davíð rifjar líka upp þegar Már Guðmundsson var endurskipaður seðlabankastjóri af Bjarna Benediktssyni árið 2014, en Davíð var sjálfur seðlabankastjóri í nokkur ár þangað til að gerð var lagabreyting árið 2009 sem leiddi til þess að að hann fór úr starfi. Vinstri stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur skipaði svo Má í stöðuna síðar á því ári.

Davíð greinir frá því að Bjarni hefði „bæði gefið til kynna og sagt ýmsum frá að hann ætlaði sér ekki að endurskipa Má Guðmundsson þegar að því kom árið 2014. Þegar að þessu dró var ráðherrann staddur fyrir norðan, sennilega á Siglufirði, og hringdi í menn og upplýsti þá, og þar á meðal ritstjóra Morgunblaðsins, að vegna óvænts flækjustigs sem upp hefði komið (sem ekki verður farið út í hér) hefði hann ekki náð að gera breytingarnar sem hann hefði margboðað. Hann myndi því skipa Má og skipunarbréfið gæfi til kynna að það yrði til fimm ára. Hins vegar væri sameiginlegur skilningur á því að skipunin stæði í hæsta lagi til eins árs.

Ekki voru endilega allir mjög trúaðir á þennan málatilbúnað. En samkvæmt minnispunktunum sagði ráðherrann efnislega á þessa leið: Þessu mega menn treysta og Már gerir sér grein fyrir þessu og mun birta yfirlýsingu sem í raun staðfestir það sem ég er að segja.“

Már situr enn sem seðlabankastjóri og mun ljúka síðara kjörtímabili sínu sem slíkur í ágúst næstkomandi. Nú stendur yfir ráðningarferli á eftirmanni hans.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Ari
„Vægi loftslagsmálanna minnkar ekki þessa dagana“
Þingmaður VG segir að ef Íslendingar standi við það sem þeir hafa samþykkt af áætlunum um loftslagsmál og geri aðeins betur hafi þeir að minnsta kosti staðið við sinn skerf í málaflokknum.
Kjarninn 8. maí 2021
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Býður sig fram í 2. sæti – stefnir á að verða í framvarðasveit flokksins í Reykjavík
Brynjar Níelsson ætlar að bjóða fram krafta sína fyrir Sjálfstæðisflokkinn fyrir næstu kosningar en hann hefur verið á þingi síðan 2013.
Kjarninn 8. maí 2021
Nichole Leigh Mosty
Ég vil tala um innflytjendur.
Leslistinn 8. maí 2021
Jón Sigurðsson
Ein uppsprettulind mennskunnar
Kjarninn 8. maí 2021
Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, er einn þeirra sex sem eru með stöðu sakbornings í rannsókn héraðssaksóknara á viðskiptaháttum fyrirtækisins.
Fjallað um rannsókn á Samherja í skráningarlýsingu Síldarvinnslunnar
Hlutafjárútboð Síldarvinnslunnar hefst á mánudag. Á meðal þeirra sem ætla að selja hlut í útgerðinni í því er Samherji, sem verður þó áfram stærsti eigandi Síldarvinnslunnar. Fjallað er um rannsókn yfirvalda á Samherja í skráningarlýsingu.
Kjarninn 8. maí 2021
Nornahár og nornatár
Eigendur Icelandic Lava Show í Vík í Mýrdal skrifa reglulega hraunmola á Kjarnann. Þetta er sá fimmti. Markmiðið er að útskýra hin ýmsu fyrirbæri íslenskrar eldvirkni á einfaldan og áhugaverðan hátt.
Kjarninn 8. maí 2021
Þögnin rofin á ný
Hundruð íslenskra kvenna hafa í vikunni stigið fram opinberlega með sínar erfiðustu minningar, í kjölfar þess að stuðningsbylgja reis upp með þjóðþekktum manni sem tvær konur segja að brotið hafi á sér. Lærði samfélagið lítið af fyrri #metoo-bylgjunni?
Kjarninn 8. maí 2021
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Arion banki að ná markmiðum sínum og ætlar að dæla fé til hluthafa á næstu árum
Umfram eigið fé Arion banka var 41 milljarður króna í lok mars síðastliðins. Bankinn ætlar að greiða hluthöfum sínum út um 50 milljarða króna á næstu árum. Hann hefur nú náð markmiði sínu um arðsemi tvo ársfjórðunga í röð.
Kjarninn 8. maí 2021
Meira úr sama flokkiInnlent