Jafnréttisnefnd KÍ hefur sent frá sér ályktun þar sem málflutningi Helgu Daggar Sverrisdóttur grunnskólakennara, sem hún setti fram í aðsendri grein sem birtist á Kjarnanum, um falskar ásakanir nemenda um meint ofbeldi kennara er mótmælt. „Nefndin telur málflutning kennarans vera þess valdandi að grafa undan trausti nemenda og forráðafólks til kennara og skólakerfisins,“ segir orðrétt í ályktun nefndarinnar.
Þá telur nefndin að umræddur málflutningur sé illa rökstuddur og gangi í bága við skyldur skólakerfisins við barnavernd og þá frumskyldu kennara að valdefla nemendur, virða þá og vernda. Nauðsynlegt sé að samfélagið í heild hjálpist að við að bjóða ungu fólki upp á góð uppeldisskilyrði þar sem hlúð er að siðferðisvitund og virðingu.