Nicolas Sarkozy, fyrrum forseti Frakklands, hefur verið ákærður fyrir spillingu og mútuþægni. Réttarhöld yfir honum munu fara fram á næstu mánuðum í París, að því er kemur fram í frétt Le Monde.
Sarkozy er einnig sakaður um að hafa þegið fjármagn frá Mouammar Gaddafi, fyrrum forseta Líbíu, í kosningabaráttunni 2007.
Katar og knattspyrna tengjast málinu
Í gær var fyrrum forseti UEFA, Platini, handtekinn. Telja frönsk yfirvöld að mögulega hafi Sarkozy haft áhrif á að Platini kaus Qatar sem næsta ríki til að halda heimsmeistaramótið í knattspyrnu árið 2022.
Platini hefur haldið því fram að Sarkozy hafi viljað að hann kysi Katar sem næsta gestgjafaríki heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. Platini heldur því þó fram að hann hafi ákveðið að kjósa Katar áður en hann sneiddi hádegisverðinn með fyrrum forsetanum, konunginum og prinsinum, að því er kemur fram í frétt Guardian.
Hleraður af yfirvöldum
Upp komst um Sarkozy í gegnum símahleranir, en símtöl hans og fyrrum lögmanns hans, Thierry Herzog, voru hljóðrituð af yfirvöldum. Ásamt fyrrum forsetanum voru Herzog og hæstaréttardómarinn Gilbert Azibert ákærðir fyrir spillingu og mútuþægni. Hinn síðarnefndi var einnig ákærður fyrir að rjúfa þagnareið, samkvæmt umfjöllun Le Monde.Þetta er í fyrsta skipti sem fyrrum forseti Frakklands hefur verið kærður fyrir spillingu. Lögmaður Sarkozy, Jacqueline Laffont, telur að ekki sé löglegt að nota hljóðritun á símtölum Sarkozy þar sem það brjóti í bága við lög Mannréttindadómstóls Evrópu.
Leki í skiptum fyrir stöðu í Mónakó
Azibert, dómarinn sem áður var nefndur, er sakaður um að hafa lekið leynilegum upplýsingum til Sarkozy og Herzog er varðar dómsmál sem viðkemur Sarkozy. Azibert er sakaður um að hafa reynt að hafa áhrif á dómsmálið í skiptum fyrir að vera veitt staða í Mónakó af Sarkozy. Að lokum hlaut hann þó ekki stöðuna.
Verið er að rannsaka önnur möguleg lögbrot Sarkozy. Hann er til dæmis sakaður um að hafa farið 20,5 milljónum evra fram úr leyfilegri hámarksfjárhæð kosningabaráttunnar árið 2012.