Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, sagði á blaðamannafundi í dag að sérfræðingar Seðlabanka Bandaríkjanna hefðu átt fundi með Facebook, vegna áforma samfélagsmiðla- og tæknirisans um að setja í loftið rafmynt, Libra, á næsta ári.
Powell sagði að of snemmt væri að fullyrða hver yrðu áhrifin af þessum áformum, en of snemmt væri að tala um að Libra gæti orðið eitthvað í líkindum við það sem Bandaríkjadalurinn er í dag, þegar kemur að alþjóðaviðskiptum.
Tilkynnt var um þá ákvörðun Seðlabankans í dag, að halda stýrivöxtum óbreyttum í tveimur prósentum, en fram kom í máli Powell að vextir gætu jafnvel lækkað við næstu endurskoðun vaxta. Ástæðan er meðal annars sú, að dregið hefur úr eftirspurn í heimsbúskapnum, og yrði vaxtalækkun þá til þess fallin að örva heimsbúskapinn enn frekar, til að stuðla að meiri hagvexti og atvinnusköpun.
Markaðir brugðust vel við þessum yfirlýsingum, og hækkuðu hlutabréfavísitölur víða í kjölfarið, samkvæmt umfjöllun Wall Street Journal.
Powell sagði horfur í bandarískum efnahag vera nokkuð góðar um þessar mundir, en þó yrði að fylgjast grannt með þróuninni í heimsmálunum, og hvernig næstu misserin yrðu í þeim efnum, ekki síst í Evrópu og Asíu.
Atvinnuleysi í Bandaríkjunum er nú með allra lægsta móti, eða um fjögur prósent, en spár gera ráð fyrir að hagvöxtur í Bandaríkjunum á þessu ári verði um 2 til 3 prósent.