Innlend netverslun nam 8 milljörðum króna í mánuðinum og var hlutfallsleg aukning 56 prósent. Maímánuður er enn fremur veltuhæsti mánuður í innlendri netverslun og netsölu frá því Rannsóknarsetur verslunarinnar hóf að birta slíkar tölur, að því er kemur fram í tilkynningu setursins.
Heildarvelta innlendra greiðslukorta nam 69,2 milljörðum króna í maí og jókst um 14 prósent miðað við apríl síðastliðinn og um 3,5 prósent samanborið við maímánuð 2018.
Svartur föstudagur hafði áhrif
Í tilkynningu Rannsóknarsetursins segir að nóvember 2018 hafi metið ef eingöngu sé litið til netverslunar en ekki netsölu þjónustufyrirtækja. Þá hafi verið markaðsdagar líkt og Svartur föstudagur.
Stærsti einstaki verslunarflokkurinn er dagvöruverslun og stórmarkaðir sem jókst um 9,7 prósent milli ára. Skýringin á því gæti verið samspil góðrar grilltíðar og að í mánuðinum hafi verið fimm föstudagar samanborið við fjóra í fyrra, samkvæmt tilkynningunni.
Velta í búðum dregst saman en netverslun eykst
Samdráttur var í veltu í búðum í raf- og heimilistækjasölu upp á 14,2 prósent milli ára. Velta netverslunar jókst hins vegar um 156,8 prósent milli ára og nam aukningin 244 milljónum króna, að því er kemur fram í tilkynningunni.
Innlend velta í fataverslun jókst bæði í búðum og á netinu. Á netinu var 25,8 prósent aukning milli ára og 17,8 prósent í búðum.
Hægt að versla lyf á netinu
Nýlega leit fyrsta netverslunin með lyf dagsins ljós. Það er netverslun Garðs Apóteks sem hefur hlotið staðfestingu Lyfjastofnunar. Hægt er nú að versla bæði lausasölu og lyfsseðilsskyld lyf á netinu.
Í fréttatilkynningu Apóteksins sagði að netverslunin væri liður í framtíðarþróun apóteka sem muni skila sér í bættri þjónustu við viðskiptavini og breyttu rekstrarmódeli apóteka.