Á fundi sem haldinn var í fulltrúaráði VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna nú í kvöld, fimmtudaginn 20. júní 2019, var samþykkt að afturkalla umboð stjórnarmanna VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og var að auki samþykkt tillaga um nýja stjórnarmenn til bráðabirgða.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá VR.
Áður hafði stjórn VR lýst yfir trúnaðarbresti gagnvart stjórnarmönnum félagsins hjá sjóðnum vegna samþykktar stjórnar hans um hækkun breytilegra vaxta verðtryggðra sjóðfélagalána sem gengur í berhögg við hina miklu áherslu sem lögð var á vaxtalækkanir í nýgerðum kjarasamningi.
Stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna sendi frá sér tilkynningu vegna þessa, og mótmælti þessu mati stjórnar VR. Þá sendi FME einnig frá sér tilkynningu þar sem eftirlitið áréttaði skyldur stjórnarmanna samkvæmt lögum lífeyrissjóði.
Til fundar í kvöld var því boðað í þeim tilgangi að bera upp tillögu um að afturkalla umboð stjórnarmanna VR í lífeyrissjóðnum og að skipa nýja stjórnarmenn í þeirra stað til bráðabirgða.
Tillagan sem borin var upp og samþykkt með 20 atkvæðum gegn 2 (2 sátu hjá) var eftirfarandi: „Fundur í fulltrúaráð VR hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna samþykkir að trúnaðarbrestur hafi orðið milli VR og stjórnarmanna VR í Lífeyrissjóð verzlunarmanna og að umboð aðal- og varamanna VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna er afturkallað,“ segir í tilkynningu VR.
Að því búnu var borin upp tillaga um eftirfarandi aðila í stjórn til bráðabirgða:
Aðalmenn
Bjarni Þór Sigurðsson
Guðríður Svana Bjarnadóttir
Helga Ingólfsdóttir
Stefán Sveinbjörnsson
Varamenn
Björn Kristjánsson
Oddur Gunnar Jónsson
Selma Árnadóttir
Sigríður Lovísa Jónsdóttir