Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að nú sé tími til kominn að verkalýðshreyfingin beiti sér fyrir því að atvinnurekendur fari úr stjórnum lífeyrissjóða. Frá þessu greinir hann í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu sinni í dag.
Á fundi sem haldinn var í fulltrúaráði VR í Lífeyrissjóði verzlunarmanna í gærkvöldi var samþykkt að afturkalla umboð stjórnarmanna VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og var að auki samþykkt tillaga um nýja stjórnarmenn til bráðabirgða.
Áður hafði stjórn VR lýst yfir trúnaðarbresti gagnvart stjórnarmönnum félagsins hjá sjóðnum vegna samþykktar stjórnar hans um hækkun breytilegra vaxta verðtryggðra sjóðfélagalána sem gengur í berhögg við hina miklu áherslu sem lögð var á vaxtalækkanir í nýgerðum kjarasamningi.
Telur VR eiga að standa vörð um sjóðinn en ekki gera aðför að stjórn
Ragnar svarar í færslunni Guðrúnu Hafsteinsdóttur, varaformanni stjórnar Lífeyrissjóðs verzlunarmanna (LV) og stjórnarformanni Landssamtaka lífeyrissjóða, en hún sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að henni þætti atburðarásin vægast sagt mjög hryggileg. „Verzlunarmannafélag Reykjavíkur, rétt eins og Samtök atvinnulífsins, er bakland sjóðsins og þeir sem eiga að standa vörð um hann en ekki gera aðför að stjórninni eins og þarna var gert að hálfu VR.“
„Þau afskipti sem að sérstaklega formaður stjórnar VR hefur haft af stjórn LV eru með öllu óásættanleg og gagnrýni ég það harkalega. Ég vil minna á það að allir þeir sem setjast í stjórnir félaga, hvort sem það eru félagasamtök eða skráð hlutafélög eða önnur, lúta öll umboðsskyldu við hluthafa sem lýtur að því að við erum öll sjálfstæð í okkar störfum og við megum ekki undir nokkrum kringumstæðum hlaupa á eftir duttlungum fólks úti í bæ sem vill ráðskast með þær niðurstöður sem koma frá þessum stjórnum,“ sagði Guðrún við mbl.is.
Hún bætti því við að Ragnar Þór hefði ýjað margoft að því að ef að þetta og hitt yrði ekki gert, þá myndi hann skipta út stjórnarmönnum í lífeyrissjóðnum og nú væri það að raungerast. „Ég sé ekki hvernig Fjármálaeftirlitið ætlar að sitja hjá í þessum málum, því að þarna er utanaðkomandi aðili farinn að vasast í ákvörðunum stjórnar sem að hann hefur ekkert vald til að gera. Hann hefur ekki boðvald gagnvart stjórnarmönnum sem að hann skipar í þessa stjórn, það er alveg á hreinu,“ sagði hún.
Skuggastjórnun af hálfu fyrrum stjórnarmanna
Ragnar segir aftur á móti að lengi hafi verið rökstuddur grunur um skuggastjórnun af hálfu fyrrum stjórnarmanna úr röðum SA og því broslegt að slíkar ásakanir skuli koma úr röðum þeirra sem sjóðirnir hafa raunverulega þjónað.
„Þessi hörðu viðbrögð koma ekki á óvart í ljósi þess að krafa okkar í verkalýðshreyfingunni er að sjóðirnir starfi með siðferðislegri sjónarmið að leiðarljósi og taki hag almennings (allra sjóðfélaga) framyfir taumlausa græðgi og þjónkun við fjármálakerfið,“ skrifar Ragnar.
Hann segir að í ljósi þess að engin haldbær rök hafi verið fyrir hækkun sjóðsins á breytilegum vöxtum – heldur hefðu þeir þvert á móti átt að lækka – og að stjórn sjóðsins hafi fundist vextir vera orðnir of lágir, og hafi þannig breytt um viðmið í miðri á, megi spyrja um réttarstöðu þeirra sjóðfélaga sem eru með lán á breytilegum vöxtum hjá sjóðnum.
Ekki í fyrsta skipti sem SA vilja hafa áhrif á val verkalýðshreyfingarinnar
„Guðrún Hafsteinsdóttir bítur svo hausinn af skömminni með því að kalla eftir viðbrögðum FME vegna breytinga sem við gerðum á fulltrúum okkar í stjórn LIVE. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Samtök atvinnulífsins vilja ráða eða hafa áhrif á það hvaða fulltrúa verkalýðshreyfingin skipar á móti þeim í stjórn. Af hverju ætli það sé?
Ef Guðrún Hafsteinsdóttir kallar eftir viðbrögðum FME vegna þeirra breytinga sem við samþykktum á stjórn sjóðsins, og erum í fullum rétti til, þá mætti hún láta nokkrar af glórulausum fjárfestingum sjóðsins fylgja með í þeirri beiðni um skoðun,“ skrifar Ragnar.
Hann segir það vera löngu orðið tímabært að sjóðfélagar og almenningur, í gegnum verkalýðshreyfinguna, standi í lappirnar gegn vaxtaokri og öðru siðleysi sem fengið hafi að þrífast innan lífeyrissjóðakerfisins alltof lengi.
Voru SA í blekkingarleik þegar lífskjarasamningarnir voru undirritaðir? Guðrún Hafsteinsdóttir varaformaður stjórnar...
Posted by Ragnar Þór Ingólfsson on Friday, June 21, 2019