Fjölmargar borgir eru að verða uppiskroppa með vatn og eru margar þeirra höfuðborgir ríkja. Borgirnar eru úr öllum heimsálfum og hafa sumar þeirra tekið til örþrifaráða til að stemma stigu við vatnsskorti.
Nú ætti að vera rigningatímabil í Chennai, en ekkert bólar á regninu. Þessi fimm milljóna manna indverska borg er því að verða uppiskroppa með vatn. The New York Times fjallar um aðstæður Chennai í frétt sinni.
Það sama var uppi á teningnum í Jóhannesarborg í fyrra og lýst var yfir neyðarástandi í borginni. Þá var talað um „Lokadaginn“ eða „Day Zero,“ það er daginn sem að borgin yrði uppiskroppa með vatn. Borgaryfirvöld hófu átak í samvinnu með borgurunum til þess að spara vatn.
Vantsskortur í öllum heimsálfum
Sameinuðu þjóðirnar telja að vatnsskortur sé nú þegar til staðar í öllum heimsálfum. 700 milljónir manna gætu þurft að flytja heimili sín vegna vatnsskorts árið 2030, auk þess sem þriðjungur grunnvatns heimsins er nú þegar undir miklu álagi.
Sem stendur er ekki heimsskortur á vatni, heldur eru einstaka ríki undir miklu álagi og geta orðið uppiskroppa með vatn, að því er kemur fram á vefsvæði Sameinuðu þjóðanna. Samkvæmt skýrslu Institute for Security Studies eru 60 prósent áa í Afríku ofnýttar og mun neysla halda áfram að aukast í álfunni á komandi árum.
BBC hefur tekið saman lista yfir ellefu borgir sem eiga í mikilli hættu á að verða uppiskroppa með vatnsforða sinn. Borgirnar eru London, Tókýó, São Paulo, Bangalore, Beijing, Kairó, Jakarta, Moskva, Istanbúl, Mexíkóborg og Miami. Allt eru þetta fjölmennar borgir og sumar jafnvel höfuðborgir.