Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins vill sjá verulegar breytingar á fjölmiðlafrumvarpi Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, áður en það verður lagt fram að nýju í haust. Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að lykilatriðið sé að taka á þátttöku RÚV á samkeppnismarkaði þar sem það nýtur yfirburða. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Tvíþættur stuðningur við fjölmiðla
Lilja kynnti fjölmiðlafrumvarpið fyrst í janúar síðastliðnum og í kjölfarið var það sett inn í samráðsgátt stjórnvalda. Fjölmargar athugasemdir bárust við það, meðal annars frá flest öllum fjölmiðlum landsins. Breytingar voru í kjölfarið gerðar á frumvarpinu og nýtt fjölmiðlafrumvarp kynnt á ríkisstjórnarfundi í byrjun maí. Frumvarpinu var dreift á Alþingi þann 20 maí en það komst þó ekki til umræðu á Alþingi áður en þingið fór í sumarleyfi.
Markmiðið með frumvarpinu er að efla hlutverk ríkisins, þegar kemur að fjölmiðlaumhverfinu, og styrkja rekstrarumhverfið, en í frumvarpinu felst meðal annars að stíga fyrstu skrefin í átt að því sem þekkst hefur á Norðurlöndunum um árabil. Í frumvarpinu er lagt til að stuðningur ríkisins við einkarekna fjölmiðla verði tvíþættur. Annars vegar stuðning í formi endurgreiðslu á allt að 25 prósent af tilteknum hluta kostnaðar af ritstjórnarstörfum, en að hámarki er hann 50 milljónir króna á fjölmiðil. Hins vegar talað um stuðning sem nemi allt að 5,15 prósent af launum starfsfólks á ritstjórn sem fellur undir lægra skattþrep tekjuskattsstofna.
Árlegur kostnaður er metinn 520 milljónir, en fyrri hugmyndir gerðu ráð fyrir 350 milljónum. Breytingar á hlutverki eða tekjustofnum RÚV eru ekki hluti af frumvarpinu en í greinargerðinni segir að stefnt sé að því að skoða tekjuuppbyggingu RÚV fyrir árslok 2019. Eins og kunnugt er hefur þátttaka RÚV á auglýsingamarkaði, samhliða tekjum af útvarpsgjaldi, verið umdeild.
Skilyrði að tekið verði á málefnum RÚV
Í mars síðastliðnum sagði Lilja í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut að það væri stjórnarmeirihluti fyrir frumvarpinu þrátt fyrir að það hefði verið gagnrýnt úr ýmsum áttum, meðal annars af hluta þingmanna Sjálfstæðisflokks. Fréttablaðið greinir hins vegar frá því dag að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins leggi mikla áherslu á að frumvarpið taki verulegum breytingum áður en það verður lagt fram að nýju í haust.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við Fréttablaðið að þótt frumvarpið hafi verið afgreitt út úr þingflokknum hafi verið samstaða um að það færi ekki í gegn á þessu þingi.
„Ég held að það sé alveg deginum ljósara að það voru ekki allir í þingflokknum sáttir við frumvarpið eins og það var lagt fram. Ráðherra fannst mikilvægt að leggja málið fram svo það fengi kynningu og einhverja umræðu. Það yrði svo verkefni næsta þings að ná þessu í gegn,“ segir Bryndís.
Heimildir Fréttablaðsins herma að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins muni meðal annars setja það sem skilyrði að tekið verði á málefnum RÚV. Að minnsta kosti verði settar miklar skorður við samkeppnisrekstri félagsins og það helst dregið alveg af samkeppnismarkaði.
Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í samtali við blaðið að ef einhver alvara sé í því að styrkja stöðu sjálfstæðra fjölmiðla þá verði að taka á þátttöku RÚV á samkeppnismarkaði. Hann segir að RÚV njóti yfirburða þar og því verði að jafna leikvöllinn. Hann segir hins vegar að mikill meirihluti þingsins vilji vernda RÚV.