Forsætisnefnd Alþingis hefur fallist á niðurstöður siðanefndar þingsins þess efnis að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hafi brotið gegn siðareglur alþingismanna með ummælum sínum um Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins. Tveir nefndarmenn lýstu sig andvíga niðurstöðunni. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Féllst á niðurstöðu siðanefndar
Ásmundur óskaði eftir því við forsætisnefnd þann 10. janúar síðastliðinn að tekið væri til skoðunar hvort þingmenn Pírata Björn Leví Gunnarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hefðu með ummælum sínum á opinberum vettvangi um endurgreiðslur þingsins á aksturskostnaði Ásmundar brotið í bága við siðareglurnar.
Siðanefnd komst síðan að þeirri niðurstöðu, í maí síðastliðnum, að ummæli þingflokksformanns Pírata, Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, sem hún lét falla þann 25. febrúar 2018 í Silfrinu hafi ekki verið í samræmi við siðareglur fyrir alþingismenn. Siðanefndin taldi aftur á móti að Björn Leví Gunnarsson hafi ekki gerst brotlegur við reglurnar.
Forsætisnefnd Alþingis hefur nú fallist á niðurstöðu siðanefndar en álit forsætisnefndar þessa efnis verður birt á vef Alþingis í dag en það var afgreitt á fundi nefndarinnar á föstudag.
Hafnaði því að vísa málinu aftur til siðanefndar
Samkvæmt Fréttablaðinu segir í áliti forsætisnefndar að það sé ekki tilgangur siðareglnanna að takmarka tjáningarfrelsi þingmanna. Af siðareglunum leiði að það geti haft þýðingu hvernig tjáningu er komið á framfæri og við hvaða aðstæður. Skorður sem siðareglurnar setji lúti þannig ekki að efni tjáningar heldur að ytri búningi hennar, til að mynda um háttvísi og aðferð.
Forsætisnefnd hafnaði þeim athugasemdum Þórhildar Sunnu að rétt hefði verið að siðanefndin legði mat á sannleiksgildi ummælanna og því bæri að vísa málinu aftur til siðanefndar til nýrrar meðferðar. Að mati forsætisnefndar gera siðareglurnar ekki ráð fyrir því að forsætisnefnd fari með úrskurðarvald um sannleiksgildi ummæla sem koma til skoðunar vegna siðareglna.
„Leggja ber áherslu á í þessu samhengi að í siðanefndarmáli þessu eru til skoðunar ummæli ÞSÆ á grundvelli siðareglna fyrir alþingismenn en ekki hvort ÁF hafi farið á svig við reglur um endurgreiðslu aksturskostnaðar eða hvort „rökstuddur grunur“ sé um slíkt.“ Með vísan til þessa féllst forsætisnefnd á álit siðanefndarinnar.
Tveir andvígir niðurstöðunni
Í forsætisnefnd sitja Steingrímur J. Sigfússon, forseti, Guðjón S. Brjánsson, Brynjar Níelsson, Þorsteinn Sæmundsson, Willum Þór Þórsson, Jón Þór Ólafsson, Steinunn Þóra Árnadóttir og Haraldur Benediktsson. Þorsteinn Víglundsson og Inga Sæland eru áheyrnarfulltrúar. Bryndís Haraldsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, situr einnig í forsætisnefnd en hún sagði sig frá umfjöllum um meint brot Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur og Björns Levís Gunnarssonar í forsætisnefnd í maí vegna ummæla sem hún lét falla í viðtali við RÚV.
Jón Þór Ólafsson, þingamaður Pírata og Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins lýstu sig andvíga niðurstöðunni, samkvæmt Fréttablaðinu. Guðjón Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar gagnrýndi fyrirkomulag við framkvæmd siðareglna í sérbókun en greiddi þó atkvæði með niðurstöðunni.