Nýtt tilraunaverkefni Krabbameinsfélagsins miðar að því að bjóða konum gjaldfrjálsa legháls- og brjóstaskimun. Niðurstöður tilraunarinnar sýna fram á að tvöfalt fleiri konur mæti í skimun sé hún ókeypis, að því er kemur fram í fréttatilkynningu Krabbameinsfélagsins. Fyrstu fimm mánuði þessa árs, það er frá því tilraunaverkefnið hófst, hafa tvöfalt fleiri konur mætt í fyrstu skimun miðað við sama tímabil á síðasta ári.
Þátttaka kvenna í brjósta- og leghálsskimun hefur minnkað síðustu ár og segir í tilkynningunni að greiðsluþátttaka kvenna spili þar inn í. Vísbendingar séu um að greiðsla hindri skimun hjá umtalsverðum hópi kvenna. Almennt gjald fyrir leghálsskimun eru 4.700 krónur og er ákvarðað af stjórnvöldum.
Í tilkynningunni segir að árangurinn af tilraunaverkefninu fyrstu fimm mánuði ársins sé mjög mikill þar sem fjöldi kvenna sem fer í leghálsskimun í ár, það eru 557 konur, hefur tvöfaldast miðað við árið í fyrra þegar 277 konur fóru í leghálsskimun. Fjöldi kvenna sem fór í brjóstaskimun fjölgaði úr 245 í 572 á tímabilinu.
„Þetta staðfestir það sem við höfum lengi haldið fram, að kostnaður við skimunina skipti máli. Krabbameinsfélagið telur afar mikilvægt að skimun verði gerð gjaldfrjáls, líkt og hún er í langflestum nágrannalöndunum, einkum til að tryggja jafnt aðgengi að skimun,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins. „Heilbrigðisráðherra hefur lýst því yfir að hún ætli að gera skimunina gjaldfrjálsa, við söknum þess að ráðherra hafi ekki tilgreint hvenær, en treystum því að það verði fljótlega og hlökkum mjög til að heyra hvenær við getum útfært það, konum í landinu til heilla.”
Skimun getur bjargað lífum
Með skimun fyrir leghálskrabbameini er nánast hægt að koma í veg fyrir sjúkdóminn greinist hann á forstigi og með skimun fyrir brjóstakrabbameini er hægt að draga verulega úr dauðsföllum greinist meinið á byrjunarstigi, segir í tilkynningu Krabbameinsfélagsins.
„Það er virkilega ánægjulegt að sjá þann góða árangur sem þetta verkefni virðist vera að skila. Að auki eru langtímamarkmið og fleiri aðgerðir í þá veru að auka þátttöku kvenna í skimun að skila sér. Árangur er fram úr okkar björtustu vonum og við hlökkum til að gera enn betur grein fyrir honum,” segir Halla.