Forsætisráðherra hefur lagt fram þingsályktunartillögu um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2020 til 2023. Þar má finna verkefnið „kyn og neysla“ sem felst í vitundarvakningu um umhverfis- og félagsleg áhrif tísku- og textíliðnaðarins. Á meðal aðgerða í því verkefni er að aflað verður gögnum um framleiðslu og neyslu textíls og þau gögn notuð í fræðslu. Auk þess verður sett upp vefsíða þar sem finna má upplýsingar fyrir almenning og fyrirtæki um umhverfis- og kynjaáhrif textílframleiðslu og textílneyslu.
Vald neytenda til að stuðla að mannsæmandi og umhverfisvænni framleiðsluháttum
Jafnrétti er lykiláhersla stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og í framkvæmdaáætlun forsætisráðherra í jafnréttismálum eru kynnt verkefni sem eiga að endurspegla markmið stjórnvalda á sviði jafnréttismála. Lagt er áhersla á að öll ráðuneytin hafi hlutverki að gegna við framkvæmd áætlunarinnar. Framkvæmdaáætlunin hefur nú verið birt í samráðsgátt stjórnvalda en í henni má á finna 24 verkefni sem á að framkvæma á árunum 2020 til 2023.
Eitt af þeim verkefnum er verkefnið kyn og neysla sem er á ábyrgð umhverfisráðuneytisins. Verkefnið er vitundarvakning um umhverfis- og félagsleg áhrif tísku- og textíliðnaðarins og vald neytenda og þá sérstaklega kvenna til að stuðla að mannsæmandi og umhverfisvænni framleiðsluháttum.
Umhverfisfótspor tísku- og textíliðnaðarins er stórt
Í greinargerð áætlunarinnar segir að tísku- og textíliðnaðurinn sé meðal umfangsmestu iðnaðarframleiðslu í heimi. Umhverfisáhrif iðnaðarins eru mjög neikvæð og er þar bæði um að ræða vatnsfreka framleiðslu og notkun hættulegra efna sem víða er skilað óhreinsuðu út í nærumhverfið með tilheyrandi umhverfisspjöllum og neikvæðum áhrifum á lífsgæði íbúa svæðanna.
Auk þess eru loftslagsáhrif framleiðslunnar mikil. Neysla á fatnaði hefur aukist um 60 prósent frá árinu 2000 og nú er heildarhluti losunar koltvísýrings frá framleiðslu tískuiðnaðarins talin vera um 5 prósent á heimsvísu, sem má að stórum hluta rekja til brennslu kola við orkuframleiðslu í verksmiðjunum.
Ennfremur segir í greinargerðinni að líftími hverrar flíkur hafi styst á síðustu árum sem auki sóun, sem er viðvarandi og vaxandi vandamál í heiminum. Því hafi iðnaðurinn í heild neikvæð áhrif á vistkerfi jarðar sem sé keðjuverkandi og hafi ekki síst alvarleg áhrif á efna- og valdaminni hópa í samfélaginu.
Auk umhverfisáhrifanna býr iðnaðurinn við það vandamál að stórfyrirtæki í tískuiðnaði bjóða út framleiðsluna til lægstbjóðandi sem nýti sér aðstæður á framleiðslusvæðum þar sem verkafólk í fataverksmiðjum er með allt niður í 2 dollara í daglaun. Þannig byggi iðnaðurinn tilveru sína á ódýru vinnuafli, sem er að stærstum hluta konur á aldrinum 15 til 22 ára.
Hver Íslendingur kaupir 17 kíló af fötum á hverju ári
Í greinargerðinni kemur jafnframt fram að konur séu stærsti hópur neytenda tískufatnaðar sem spilar saman við síbreytilegar kröfur um útlit og ímynd. Því hafi konur, sem helstu neytendur tískufatnaðar, bæði gríðarleg áhrif á eftirspurn og ríkjandi framleiðslu- og viðskiptahætti sem endurspeglast í kjörum og aðbúnaði verkakvenna, náttúruauðlindanýtingu og áhrifum á umhverfið á framleiðslustað.
Íslendingar eru engir eftirbátar annarra þjóða þegar kemur að fatakaupum en samkvæmt Umhverfisstofnun kaupir hver Íslendingur sautján kíló af nýjum fötum á ári hverju. Það er þrisvar sinnum meira en meðal jarðarbúi. Samhliða þessum gífurlegu fatakaupum hefur á síðustu árum orðið mikil aukning í fatasóun hér landi en árið 2016 hentu Íslendingar rúmum 5700 tonnum af textíl og skóm. Það er nærri því tvöfalt meira magn en fjórum árum áður og að meðaltali 15 kíló á hvern íbúa árið 2016.
Meirihluti þess úrgangs fer í urðun en auk þess voru yfir 3000 tonn send frá Íslandi til annarra landa í endurvinnslu árið 2018. Í úrgangsstefnu umhverfisráðuneytisins fyrir næstu sex ár kemur fram að stjórnvöld stefna að því að draga úr fatasóun á hvern íbúa um fimm kíló.
Vilja undirstrika mikilvægi endurnotkunar og endurvinnslu
Í framkvæmdaráætluninni segir að verkefnið kyn og neysla snúi að því að fræða og vekja
neytendur, sér í lagi konur, til umhugsunar um áhrif eigin neysluhegðunar á stöðu og réttindi
kvenna á framleiðslustöðum og lífsafkomu þeirra með hliðsjón af áhrifum framleiðslunnar á
náttúruauðlindir og umhverfið. Jafnframt gengur verkefnið út á að undirstrika mikilvægi
endurnotkunar og endurvinnslu.
Verkefnið gengur út á þrjár aðgerðir sem framkvæma á á árunum 2020 til 2023. Það verður unnið í samstarfi við meðal annars Umhverfisstofnun, Neytendastofu, Rauða krossinn, fyrirtækið Aftur og Listaháskóla Íslands. Fyrsta aðgerðin er að afla gögnum um framleiðslu, innkaup, notkun og neyslu textíls. Framsetning þeirra gagna verður síðan útfærð þannig að nota megi þau í fræðslutilgangi.
Þriðja aðgerðin felst í því að sett verður upp vefsíða þar sem finna má upplýsingar, fyrir almenning og fyrirtæki, um umhverfis- og kynjaáhrif framleiðslu og neyslu textíls.