„Ég segi nei takk við þessu áliti, það er ekkert inntak í því og stenst ekki skoðun þegar kemur að siðareglunum sjálfum.“ Þetta segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, í viðtali á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Ástæða ummælanna er sú að forsætisnefnd féllst á niðurstöður siðanefndar þingsins í síðustu viku þess efnis að Þórhildur Sunna hefði brotið gegn siðareglur alþingismanna með ummælum sínum um Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins.
Henni finnst Alþingi hafa sett sig gríðarlega niður í þessu máli og í staðinn fyrir að rannsaka fyllilega akstursgreiðslur til Ásmundar þá festist þau í orðhengilshætti í ummælum hennar um að tilefni sé til að rannsaka hvort hann hafi framið refsivert brot.
„Ég skil ekki hvernig forsætisnefnd, sem vísar frá staðfestu tilviki um kynferðislega áreitni þingmanns gagnvart blaðamanni, sem vísar frá kvörtun vegna óhóflegrar akstursgreiðslna Ásmundar Friðrikssonar, sem vísar frá kvörtun vegna ítrekaðra ummæla Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um að það sé alvanalegt að karlkyns þingmenn tali jafn ógeðslega um samþingkonur sínar – konur, fatlaða og samkynhneigða – sem þeir félagar á Klausturbar gerðu, kemst að þessari niðurstöðu,“ segir Þórhildur Sunna.
Afþakkar gildisdómana
Þórhildur Sunna segir að þetta sé sama forsætisnefnd sem hafi klúðrað allri meðferð í Klausturmálinu en kjósi að hengja sig í orðhengilshátt og gildisdóma um hvernig hún tjáir sig en ekki um hvað hún segir eða hvort það sé satt eða logið. Nefndin líti fram hjá öllum rökum um tjáningarfrelsi þingmanna og skyldu hennar til að tjá sig um málefni líðandi stundar og til þess að vinna gegn spillingu.
„Ég kalla þá forsætisnefnd gjörspillta af samtryggingu karlaklíkunnar sem neitar að taka afstöðu til nokkurs nema minnar framkomu – einhverrar konu í stjórnarandstöðu sem móðgaði miðaldra karl,“ segir Þórhildur Sunna.
Hún segist afþakka þessa gildisdóma á framsetningu hennar og bendir hún á að engin rök hafi verið sett fram í áliti forsætisnefndar hvernig hún hefði átt að gera þetta betur. „Þeir neita að skoða hvort eitthvað hafi verið til í því sem ég var að segja.“ Þeir hefðu einungis þurft að skoða samhengi umræðunnar á þessum tíma og þau gögn sem fyrir lágu og þá getað gefið sér að það væri fullkomlega réttmætt að segja á þessum tímapunkti að það hefði verið rökstuddur grunur til þess að hefja rannsókn hvort Ásmundur Friðriksson hefði svikið út fé.