Rúmlega helmingur landsmanna er andvígur því að flugvöllurinn verði færður úr Vatnsmýri. Tæp 30 prósent eru hins vegar hlynnt flutningi flugvallarins en 20 prósent svöruðu hvorki né. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem Zenter framkvæmdi fyrir Fréttablaðið í síðustu viku. Þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar liggur fyrir á Alþingi.
Mesta andstaðan meðal stuðningsmanna Miðflokksins, Framsóknar og Flokks fólksins
Í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að 36,4 prósent svarenda eru mjög andvígir því að flugvöllurinn verði fluttur úr Vatnsmýrinni. Þá segjast 13,6 prósent vera frekar andvíg flutningum flugvallarins. Aftur á móti segjast 17,1 prósent vera mjög hlynnt því að flugvöllurinn sé fluttur og 9,7 prósent frekar hlynnt því. Þá svöruðu 19,1 prósent að þau væru hvorki andvíg né hlynnt flugvellinum.
Jafnframt kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins að andstaðan sé mest við flutning flugvallarins meðal stuðningsmanna Miðflokksins, Framsóknarflokksins og Flokks fólksins. Andstaðan við flutning flugvallarins er yfir 80 prósent meðal stuðningsmanna þessara flokka. Meirihluti stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins eru einnig andsnúnir flutningi flugvallarins, eða alls 60 prósent.
Þá er mestur stuðningur við flutning flugvallarins úr Vatnsmýri hjá stuðningsmönnum Samfylkingarinnar en alls 59 prósent segjast hlynnt flutningum. Þá eru stuðningsmenn Viðreisnar og Vinstri grænna hlynntari því en andvígir að flugvöllurinn fari úr Vatnsmýri. Þá segjast 33 prósent stuðningsmanna Pírata vera hlynntir flutningum en 35 prósent andvíg.
Þingsályktunartillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar
Í mars í fyrra lögðu 23 þingmenn úr sex stjórnmálaflokkum fram þingsályktunartillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar. Í henni fólst að kosið yrði um hvort flugvöllurinn eigi áfram að vera í Vatnsmýrinni eða ekki. Niðurstaða slíkrar atkvæðagreiðslu yrði alltaf ráðgefandi, en ekki bindandi.
Allir þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins voru á meðal flutningsmanna. Auk þeirra voru sjö þingmenn Sjálfstæðisflokks á tillögunni, tveir frá Framsókn og einn þingmaður frá VG og einn frá Pírötum. Einu flokkarnir sem eiga fulltrúa á Alþingi sem ekki voru með flutningsmann á tillögunni eru Samfylking og Viðreisn. Þingsályktunartillagan náði þó ekki fram að ganga.
Tillagan var aftur lögð fram í september á síðasta ári en þá lögðu sextán þingmenn úr fimm stjórnmálaflokkum frá tillöguna. Þingmenn úr Miðflokknum, Flokki fólksins, Framsókn, Sjálfstæðisflokknum og Vinstri- grænum. Málið gekk síðan til umhverfis- og samgöngunefndar í mars 2019.
Á borgarráðsfundi í apríl síðastliðnum var lögð fram umsögn borgarlögmanns um þingsályktunartillöguna. Umsögn staðgengils borgarlögmanns í málinu var á þann veg að Reykjavíkurborg leggist eindregið gegn því að tillagan verði samþykkt, meðal annars vegna þess að hún skerðir stjórnskrárvarðan sjálfstjórnarrétt borgarinnar, að slík lagasetning gengi gegn skipulagsáætlun sveitarfélagsins og væri í andstöðu við óskráða meginreglu stjórnskipunar um meðalhóf. Umsögnin var samþykkt með fimm atkvæðum í borgarráði og send til endanlegrar staðfestingar hjá borgarstjórn.