Eldum rétt segir félagið dregið inn í dómsmál fjögurra erlendra starfsmanna Manna í vinnu að ósekju. Málið sem vísað er til er stefna á hendur fyrirtækisins Eldum rétt og Mönnum í vinnu. Þeim er stefnt til greiðslu bóta vegna nauðungarvinnu, að því er kemur fram í tilkynningu á vegum Eflingar.
Samkvæmt tilkynningunni keypti Eldum rétt vinnuafl hjá starfsmannaleigunni Menn í vinnu í janúar og hafi þar með borið ábyrgð á að kjör verkamannanna og aðstæður væru sómasamlegar. Lögsókn gegn fyrirtækinu og framkvæmdastjóra þess hefur nú verið þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Kristófer Júlíus Leifsson, framkvæmdastjóri Eldum rétt, segir enn fremur geta fullyrt að fyrirtækið tæki aldrei þátt í að koma illa fram við fólk „og myndum heldur aldrei líta undan í aðstæðum þar sem slíkt væri látið viðgangast. Við höfðum hreinlega ekki vitneskju um að slíkar aðstæður væru uppi og teljum rétt að þetta mál fari sína leið fyrir dómstólum.“
Formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, segir Eldum rétt ekki geta firrt sig ábyrgð og gagnrýndi starfsmannaleigur harðlega. Í stöðufærslu á Facebook segir hún augljósa áhættu að flytja inn vinnuafl í gegnum starfsmannaleigu þar sem slík fyrirtæki geti verið „skálkaskjól undirborgana, misneytingar og jafnvel mansals. Af þeim sökum var leidd í lög „keðjuábyrgð“, svo fyrirtæki gætu ekki firrt sig ábyrgð á aðbúnaði starfsfólks síns með því að hafa það formlega í vinnu hjá öðrum.“ Þar af leiðandi telur Sólveig Eldum rétt bera ábyrgð á að starfsmennirnir hefðu það ekki verr en annað starfsfólk.