Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og nefndarmaður í flóttamannanefnd Evrópuráðsþings, segir ljóst að stjórnvöld þurfi að hætta að vísa börnum úr landi. Hún segir í samtali við Kjarnann að það sé ómanneskjulegt og ómannúðlegt að íslensk stjórnvöld hafi vísað 75 börnum úr landi það sem af er ári. Hún bendir á að það sé stjórnvalda að ákveða hvort og þá hvernig dyflinnarreglugerðinni sé beitt en hún segir að dómsmálaráðherra hafi túlkað hana til hins ítrasta á síðustu árum.
Send aftur til Grikklands
Stundin greindi frá því í gær að kærunefnd útlendingamála hefur úrskurðað að Shanhaz Safari og börn hennar tvö, Zainab og Amir, fái ekki alþjóðlega vernd hér á landi. Fái úrskurðurinn að standa mun fjölskyldan þurfa að fara í flóttamannabúðir í Grikklandi. Samkvæmt umfjöllun Stundarinnar hafa íslensk stjórnvöld hafnað því að taka mál fjölskyldunnar til efnislegrar meðferðar á þeim forsendum að fjölskyldan hafi þegar fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi.
Búið er að sækja um endurupptöku í máli fjölskyldunnar í tvígang en í báðum tilvikum hefur þeim verið hafnað. Í seinni upptökubeiðninni var byggt á því mati sálfræðings að ef brottvísun yrði framkvæmd yrði Zainab fyrir sálrænum skaða. Á það var hins vegar ekki fallist og beiðninni hafnað í lok síðasta mánaðar. Ef ákvörðun íslenskra stjórnvalda fær að standa verður fjölskyldunni vísað úr landi í næstu viku.
Enn fremur var greint frá því á mánudaginn síðasta að vísa átti afgönsku drengjunum Mahdi og Ali Sarwary ásamt föður þeirra úr landi en brottvísun þeirra til Grikklands var frestað vegna mikils kvíða hjá öðrum drengunum. Ekki er þó vitað hvenær brottvísun barnanna mun fara fram en samtökin No Borders Iceland telja það muni gerast seinna í vikunni.
75 börnum synjað um vernd á þessu ári
Í kjölfar fréttaflutnings af þessum tveimur málum hafa stjórnvöld verið harkalega gagnrýnd á samfélagsmiðlum og þingmenn Samfylkarinnar meðal annars skorað á stjórnvöld að endurskoða stefnu sína í útlendingamálum. Þá hefur verið boðað til mótmælagöngu á morgun klukkan 17.00 þar sem fólk er hvatt til þess að ganga fylktu liði frá Hallgrímskirkju að Austurvelli til að mótmæla brottvísunum barna á flótta.
Í yfirlýsingu UNICEF vegna brottvísunar barna á flótta frá Íslandi segir að endursendingum umsækjenda um alþjóðlega vernd til Grikklands frá Íslandi var hætt árið 2010 vegna þess að aðstæður í gríska hæliskerfinu voru taldar ófullnægjandi og samkvæmt yfirlýsingunni hefur ekki verið talin ástæða til að endurskoða þá afstöðu.Hins vegar segja samtökin að endursendingum til Grikklands hafi ekki verið hætt hafi börnin þegar hlotið alþjóðlega vernd þar í landi.
Samtökin segja að þetta sé gert þrátt fyrir að alþjóðastofnanir upplýsi með reglubundnum hætti um slæma stöðu barna á flótta á Grikklandi. Fjölskyldur búi víða í tjaldbúðum og aðeins rúmur helmingur barnanna fái aðgang menntun. Foreldrar hafaiekki möguleika á að sækja vinnu og sjá fjölskyldu sinni farborða.
„Í ljósi skyldu stjórnvalda til að meta það sem barni er fyrir bestu, er ekki ásættanlegt að hagsmunir barnanna séu metnir ólíkir á grundvelli lagalegrar stöðu þeirra eingöngu, það er hvort þau eru umsækjendur um vernd eða með stöðu flóttafólks, þegar enginn raunverulegur munur er möguleikum þeirra til lífs og þroska í Grikklandi,“ segir í yfirlýsingunni.
Það sem af er árs 2019, hafa stjórnvöld afgreitt umsóknir 105 barna samkvæmt tölfræði á heimsíðu Útlendingastofnunar. Þarf af hafa 30 börn fengið vernd eða mannúðarleyfi hér á landi, 75 börnum hefur hins vegar því verið synjað um vernd, og þar af fengu 15 börn synjun á grundvelli verndar í öðru landi.
„UNICEF á Íslandi skorar á stjórnvöld að taka móttöku barna sem sækja um alþjóðlega vernd til endurskoðunar samhliða þeirri endurskoðun sem á sér stað í málefnum barna almennt. Þar er eitt af brýnustu verkefnunum að bæta stefnumótun, þekkingu og verkferla sem varða mat á því sem barni er fyrir bestu,“ segir að lokum í yfirlýsingunni.
Helmingur fylgdarlausa barna hverfur
Þungum áhyggjum var lýst yfir stöðu fylgdarlausa barna í Evrópu á Evrópuráðsþinginu í síðustu viku. Helmingur barna sem koma fylgdarlaus til Evrópu hverfur af móttökumiðstöðvum innan tveggja sólarhringa. Þau eru oft fórnarlömb mansals, þrælkunar og kynferðisofbeldis. Skýrsla sem Rósa Björk Brynjólfsdóttir, varaforseti Evrópuráðsþingsins og þingmaður VG, vann fyrir Evrópuráðsþingið varð grunnur að ályktun sem samþykkt var á þinginu einróma.
Í skýrslunni eru lagðar til breytingar á lögum ríkjanna til að veita börnum á flótta aukin réttindi. Meðal þess sem ályktunin felur í sér er sú krafa að börn fái alltaf opinberan fylgdarmann sem yfirvöld útvegi. Slík fylgd getur komið í veg fyrir að börnum sé rænt og þau seld í kynlífsþrælkun eða beitt kynferðisofbeldi. Einnig eru tilmæli í skýrslunni til stjórnvalda um pólitíska stefnumörkun, þar á meðal um frávísun flóttabarna og aukin framlög á fjárlögum til málaflokksins, börnum til heilla.
Stjórnvalda að ákveða hvort Dyflinnarreglugerðinni sé beitt
Rósa Björk segir í samtali við Kjarnann að ljóst sé að stjórnvöld þurfi að hætt að vísa börnum úr landi. Hún segir þetta snúast um pólitískan vilja og bendir á að á síðustu árum hafi dómsmálaráðherrar túlkað Dyflinnareglugerðina til hins ítrasta. „Það er ómanneskjulegt og ómannúðlegt að íslensk stjórnvöld hafi vísað 75 börnum frá landi aðeins á þessu ári,“ segir Rósa Björk
Dyflinnarreglugerðin, með síðari breytingum, felur í sér viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða Schengen-ríki beri ábyrgð á meðferð hælisumsóknar sem einstaklingur leggur fram í einu aðildarríkja Schengen-svæðisins. Þannig er stjórnvöldum heimilað að senda viðkomandi hælisleitanda aftur til þess Schengen-ríkis sem hann kom fyrst til. Í nýjustu Dyflinnarreglugerðinni er þó kveðið á um að ekki megi senda hælisleitanda aftur til ríkis þar sem hætta er á að hann sæti ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð og bann hefur verið lagt við flutningum hælisleitenda til Grikklands næstkomandi tvö ár. Samkvæmt yfirlýsingu UNICEF hefur endursendingum til Grikklands hins vegar ekki verið hætt hafi börnin þegar hlotið alþjóðlega vernd þar í landi.
Rósa Björk bendir aftur á móti á að samkvæmt reglugerðinni sé mögulegt að halda verndarhendi yfir börnum og fólki í viðkvæmri stöðu. „Það er stjórnvalda að ákveða hvort Dyflinnarreglugerðin sé yfirhöfuð notuð og ef svo er hvernig hún er túlkuð.“
Aðspurð segir hún að auðvitað sé þrýstingur innan Vinstri grænna þegar kemur að þessum málaflokki. Hún segir að flokkurinn sé með landsfundarályktanir og stefnur á þann veg að taka á móti flóttafólki og þeim sem leita eftir alþjóðlegri vernd á manneskjulegan og mannúðlegan hátt.