Engum úr afgönsku fjölskyldunum tveimur, sem bíða brottvísunar, verður vísað úr landi í þessari viku, samkvæmt heimildum Kjarnans.
Fréttaflutningur af brottvísun Shanhaz Safari og börnin hennar tveimur ásamt brottvísun afgönsku drengjanna Mahdi og Ali Sarwary ásamt föður þeirra hefur vakið hörð viðbrögð og skorað hefur verið á stjórnvöld að hætta brottvísun barna á flótta.
Endursend til Grikklands
Kærunefnd útlendingamála hefur úrskurðað að Shanhaz Safari og börn hennar tvö, Zainab og Amir, fái ekki alþjóðlega vernd hér á landi. Íslensk stjórnvöld hafa hafnað því að taka mál fjölskyldunnar til efnislegrar meðferðar á þeim forsendum að fjölskyldan hafi þegar fengið alþjóðlega vernd í Grikklandi.
Sótt hefur verið um endurupptöku í máli fjölskyldunnar í tvígang en í báðum tilvikum hefur þeim verið hafnað. Í seinni upptökubeiðninni var byggt á því mati sálfræðings að ef brottvísun yrði framkvæmd yrði Zainab fyrir sálrænum skaða. Á það var hins vegar ekki fallist og beiðninni hafnað í lok síðasta mánaðar. Ef ákvörðun íslenskra stjórnvalda fær að standa verður fjölskyldunni vísað úr landi í næstu viku.
Enn fremur var greint frá því á mánudaginn síðasta að vísa átti afgönsku drengjunum Mahdi og Ali Sarwary ásamt föður þeirra úr landi en brottvísun þeirra til Grikklands var frestað vegna mikils kvíða hjá öðrum drengnum. Ekki er þó vitað hvenær brottvísun barnanna mun fara fram en samtökin No Borders Iceland telja það muni gerast seinna í vikunni.
Benda á slæma stöðu flóttamanna í Grikklandi
Brottvísun fjölskyldanna tveggja hefur verið harðlega gagnrýnd á síðustu dögum. UNICEF á Íslandi hefur skorað á stjórnvöld að taka móttöku barna sem sækja um alþjóðlega vernd til endurskoðunar. Í tilkynningu frá samtökunum er bent á að alþjóðastofnanir hafa upplýst með reglubundnum hætti um slæma stöðu barna á flótta í Grikklandi. Fjölskyldur búi víða í tjaldbúðum og aðeins rúmur helmingur barnanna fái aðgang menntun. Foreldrar hafi ekki möguleika á að sækja vinnu og sjá fjölskyldu sinni farborða. Þrátt fyrir þetta séu börn sem þegar hafa hlotið alþjóðlega vernd þar í landi endursend til Grikklands.
Þá hefur umboðsmaður barna sent bréf til dómsmálaráðherra og forstjóra Útlendingastofnunar þar sem hann óskar eftir fundi hið fyrsta til að fara yfir mál barna sem endursenda á til Grikklands þar sem fjölskyldunum hefur verið veitt alþjóðleg vernd.
Hefur ekki heimild til að stíga inn í einstaka mál
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dómsmálaráðherra, sagði í gær í stöðufærslu á Facebook að hún gæti ekki tjáð sig um málefni einstaka fjölskyldna en að mál þeirra séu til skoðunar innan þess kerfis sem löggjafinn hafi búið til um málaflokkinn. Hún segir að svo hægt sé að tryggja jafnræði í meðferð slíkra mála hafi hún ekki heimild til að stíga inn í einstaka mál.
Í stöðufærslunni tekur hún þó fram að hún hafi lengi talað fyrir því að það þurfi sérstaklega að fara yfir framkvæmd útlendingalaganna þegar að kemur að börnum. Hún bendir á að tekið sé fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að nú þegar komið er reynsla á lögin þá sé hægt að endurskoða þau.
Þá greinir Þórdís frá því að í síðustu viku hafi verið ráðherrafundur um útlendingamál og að tilefni fundarins hafi meðal annars verið að endurhugsa þverpólitíska útlendinganefnd sem sett var á laggirnar árið 2014, til dæmis með því að bæta inn í hana fulltrúa barnamálaráðherra og endurskoða almennt hlutverk hennar. „Út frá þessu höfum við rætt að rýna ákveðna þætti betur,“ skrifar Þórdís að lokum.
Skýringar Þórdísar í stöðufærslunni hafa hins vegar verið harðlega gagnrýndar, þar á meðal af Þórhildi Sunnu Ævarsdóttir, þingmanni Pírata. Þórhildur Sunna skrifar í athugasemd við stöðufærsluna að Þórdís geti ákveðið hér og nú að brottvísa engum börnum til Grikklands. „Þú gætir líka meira að segja bara ákveðið hér og nú að brottvísa engum börnum til Grikklands eða Ítalíu þar sem allir vita að engin mannúð bíður barna. Þarft ekki að rýna neitt. Þetta er margrýnt og lengi vitað. Segðu bara stopp Þórdís, sýndu hugrekki!,“ skrifar Þórhildur Sunna.
Boðað hefur verið til mótmælagöngu í dag klukkan 17.00 þar sem fólk er hvatt til þess að ganga fylktu liði frá Hallgrímskirkju að Austurvelli til að mótmæla brottvísunum barna á flótta. Yfir 1400 manns hafa boðað komu sína á mótmælin.