Brottförum ferðamanna hefur fækkað í hverjum mánuði frá síðustu áramótum. Í júní voru brottfarir erlendra farþega frá landinu um Keflavíkurflugvöll um 195 þúsund eða alls 39 þúsund færri ferðamenn en í júní árið á undan. Fækkun milli ára nemur 16,7 prósentum. Þetta kemur fram í talningu Ferðamálastofu og Isavia.
Bandarískum farþegum fækkar um 35 prósent milli ára
Frá áramótum hafa 900 þúsund erlendir farþegar farið frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll sem er 12,4 prósent fækkun miðað við sama tímabil í fyrra. Fækkun hefur verið alla mánuði frá áramótum, í janúar fækkaði brottförum um 5,8 prósent, í febrúar um 6,9 prósent, í mars um 1,7 prósent, í apríl um 18,5 prósent og um 23,6 prósent í maí.
Bandaríkjamenn voru fjölmennastir í júní eða tæplega þriðjungur brottfara. Þeim fækkaði hins vegar um 35,1 prósent á milli ára. Þjóðverjar voru í öðru sæti en brottfarir þeirra voru 17 þúsund talsins eða 6,4 prósent fleiri en í júní árið áður. Í þriðja sæti voru brottfarir Breta, um tíu þúsund talsins og fækkaði þeim um 21,1 prósent á milli ára.
Færri Íslendingar ferðast
Þó ferðamönnum hafi fækkað mikið á undanförnum mánuðum þá hefur kortavelta ferðamanna ekki dregist jafn mikið saman og fjöldi ferðamanna. Þó að heildarkortavelta hafi dregist saman í apríl og maí þá ráðstafaði hver ferðamaður 28 prósent fleiri krónum hér á landi í apríl en fyrir ári síðan og 30 prósent fleiri kónum í maí en kortavelta á hvern ferðamann hefur aldrei verið jafn mikil og í maí.Þá ráðstafaði jafnframt hver og einn ferðamaður mun meira í sinni eigin mynt en áður. Í apríl ráðstafaði hver ferðamaður 13 prósent meiru í eigin mynt en fyrir ári síðan og 15 prósent meira í maí.
Auk þessarar auknu eyðslugleði ferðamanna þá hefur dvalartími ferðamanna á landinu lengst. Ef skráðar og óskráðar eru gistinætur teknar saman og deilt niður á fjölda ferðamanna þá sést að hver ferðamaður dvaldi mun lengur á landinu í apríl og maí en fyrir ári síðan. Þannig var dvalartíminn 19,6 prósent lengri í apríl og 18,7 prósent í maí, sem er nálægt sólarhrings lengri dvalartími.
Þessa breytingu í hegðun ferðamanna má að einhverju leyti rekja til falls WOW air en samkvæmt könnun Ferðamálastofu meðal erlendra ferðamanna dvöldu ferðamenn með WOW air skemur en aðrir ferðamenn og eyddu minna að meðaltali en til dæmis ferðamenn með Icelandair. Þá flutti WOW air hlutfallslega fleiri ferðamenn sem stöldruðu aðeins í skamma stund á landinu án þess að gista.