Engar reglugerðir eða lög eru til um skilgreiningu á kolefnisjöfnun. Því eru engin lög eða reglugerðir um hvað flokkist sem kolefnisjöfnun, að því er kemur fram í svari Umhverfisstofnunar við fyrirspurn Kjarnans.
Í svari Umhverfisstofnunar segir að hugtakið kolefnisjöfnun sé almennt notað þegar „maður að borga einhverjum öðrum aðila fyrir að binda jafnmikið kolefni sem losnar við t.d. eina flugferð. T.d. flugferð losar eitt tonn af CO2 og maður borgar einhverjum aðila pening til að gróðursetja tré sem binda eitt tonn af CO2. Það tekur trén X ár að binda þetta eina tonn of CO2 og þau halda því bundnu líftíma trésins sem gæti verið c.a. 60-90 ár. Þegar tréð deyr byrjar það að rotna og þá losnar aftur það CO2 sem það hafði bundið.“
Er CarbFix kolefnisjöfnun?
Varðandi hvort CarbFix sé kolefnisjöfnun segir í svari Umhverfisstofnunar að CarbFix sé vissulega kolefnisbinding en flóknara væri að flokka CarbFix sem kolefnisjöfnun. „Við hliðina á Hellisheiðarvirkjun er Svissnenskt fyrirtæki með búnað sem sogar CO2 úr andrúmsloftinu og dælir því niður með Carbfix tækninni. Þarna er kolefnisbindingu sem sannarlega má líka kalla kolefnisjöfnun. Þessi tækni sogar CO2 úr andrúmsloftinu og bindur í bergi. Þannig að ef maður fer í flug sem losar 1 tonn af CO2 þá getur maður borgað þessu fyrirtæki pening fyrir að soga jafnmikið magn af CO2 úr andrúmslofti og binda það í bergi. Fyrirtækið er ekki að binda sömu CO2 mólikúlin og flugvélin losaði en jafnmikið magn þannig að það er hægt að líta svo á að flugferðin hafi verið kolefnisjöfnuð,“ segir í svarinu
Hins vegar flækist málið ef horft er aðeins á virkjunina sjálfa að mati Umhverfisstofnunar. „Í dag er staðan sú að það er dælt niður og bundið um 35% af því CO2 sem kemur upp úr borholum og fer í gegnum vélbúnaðinn í virkjuninni. Þarna sé ég Carbfix sem hreinsibúnað á virkjunnin sjálfri. Það er verið að taka gasstrauminn frá virkjuninni, ná 35% af CO2 úr straumnum og dæla því niður þar sem það bindist. Þarna er því verið að koma í veg fyrir losun á CO2 en það er ekki verið að taka neitt CO2 úr andrúmsloftinu. Þetta er því sannarlega kolefnisbinding en það er ekki verið að jafna neitt annað.“
„Ef Orkuveitan mundi taka að sér að kolefnisjafna flug fyrir einhvern annan aðila með þessari tækni og fyrirtækið tæki við greiðslu fyrir kolefnisjöfnun á einu tonni fyrir flugferð þá mundi fyrirtækið á móti þurfa að telja sem sem losun frá virkjuninni þetta eina tonn af CO2 frá virkjuninni sem í raun var búið að binda í berg. Þannig að fyrir hvert tonn sem væri kolefnisjafnað mundi reiknast annað tonn sem losun frá virkjuninni,“ segir einnig í svarinu.
„Fegurðin við CarbFix er að því CO2 sem er dælt niður er komið strax úr umferð og það er bundið að eilífu, á mannlegum tímaskala. Bundið mjög lengi á jarðfræðilegum tímaskala, milljónir ára,“ segir jafnframt í svarinu.
Uppfært:
Samkvæmt ábendingu frá Söndru Ósk Snæbjörnsdóttur hjá Orkuveitu Reykjavíkur er CarbFix ekki kolefnisjöfnun heldur kolefnisbinding. Jafnframt er CarbFix aðferðin viðurkennd sem bindingaraðferð af Milliríkjanefnd um loftslagsmál (IPCC).
Enn fremur hefur borist ábending að nú sé kolefnisjöfnun skilgreind í lög, það er þegar „aðili hlutast til um aðgerðir annars aðila til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og/eða binda kolefni úr andrúmslofti og notar staðfestingu á slíkum samdrætti eða bindingu til að jafna út sína eigin losun að hluta eða öllu leyti.“