Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að þau ítök sem atvinnurekendur hafi náð innan lífeyrissjóðanna séu engan veginn ásættanlegt og að það hljóti að vera markmið verkalýðshreyfingunnar að losa sjóðinn undan því oki. Hann segir jafnframt að miðað við viðbrögð „lobbíista“ við þeirri ákvörðun VR að skipta út öllum fulltrúum VR í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna, þá sé hreyfingin greinilega á réttri leið í þeirra baráttu. Þetta kemur fram í viðtali við Ragnar Þór í Mannlífi í dag.
Varnarviðbrögð þess sem telur sér ógnað
Í viðtalinu fjallar Ragnar meðal annars um þau hörðu viðbrögð sem ákvörðun VR, um að afturkalla umboð stjórnarmanna VR í stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og samþykkja tillögu um nýja stjórnarmenn til bráðabirgða, hefur fengið. Hann segir að nú þegar ítökum atvinnurekenda í stjórn lífeyrissjóðanna hafi verið ógnað og þá stökkvi lobbíistar atvinnurekenda til varnar. „Þetta eru varnarviðbrögð þess sem telur sér ógnað,“ segir Ragnar.
Davíð Stefánsson, nýráðinn ritstjóra Fréttablaðsins, er á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt Ragnar harðlega fyrir fyrrnefnda ákvörðun fulltrúaráðs VR en Davíð skrifaði leiðara um málið fyrr í vikunni. „Davíð var ráðinn ritstjóri Fréttablaðsins eftir að Helgi Magnússon fjárfestir keypti helmingshlut í blaðinu. Helgi er fyrrverandi stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna og einn af þeim sem stóð fyrir því að sjóðurinn lagði háar upphæðir í Silicor Materials í gegnum félagið Sunnuvelli sem áðurnefndur Davíð Stefánsson stýrði. Stefnan var að reisa kísilverksmiðju í Hvalfirði sem svo aldrei varð og milljarðar hafa tapast án þess að skóflu væri stungið í jörðu,“ segir Ragnar
Hann segir þetta vera eitt óteljandi dæma um „skaðvænleg áhrif ítaka atvinnurekanda í lífeyrissjóðunum.“ Hann segir það því hafa ekki komið á óvart að Davíð hefði ráðist að hans persónu til að gera baráttu VR fyrir því að losa um þessi ítök tortryggilega.
Ekki trú á því að vera formaður mjög lengi í viðbót
Ragnar segir jafnframt að baráttan fyrir réttindum launafólks taki aldrei enda og bendir á að þau réttindi sem hafi áunnist hafi oft verið hunsuð og gerð að engu. „Við erum svo oft búin að horfa upp á það að þau réttindi sem hafa áunnist með baráttu verkalýðshreyfingarinnar hafa verið hunsuð og gerð að engu. Lífeyrissjóðamálin eru til dæmis besta dæmið um það. Þau ítök sem atvinnurekendur hafa náð innan sjóðanna eru engan veginn ásættanleg og það hlýtur að vera markmið okkar að losa sjóðina undan því oki. Og miðað við þessi viðbrögð lobbíistanna sem við vorum að tala um í upphafi þá erum við greinilega á réttri leið í þeirri baráttu, það gefur manni von.“
Jafnframt segir hann að hann muni ekki vera lengur en átta ár sem formaður VR, hvernig sem allt velti. „Hef reyndar ekki trú á því að ég verði mjög lengi í viðbót, kannski bara þessi tvö ár. Hins vegar brennur enn í mér neistinn til að berjast fyrir bættum hag launafólks og á meðan hann lifir held ég áfram, hvort sem það verður í þessu starfi eða einhverju öðru,“ segir Ragnar Þór.
„Við erum því orðin þrælar eigin kerfis“
Þá nefnir Ragnar hann myndi vilja sjá margt breytast á meðan hann er enn formaður. Nefnir hann þar á meðal skerðingar á lífeyri aldraðra og öryrkja vegna samspils lífeyrissjóðanna og Tryggingastofnunar og segir að það verður koma því í gegn að þær verði lagðar af.
Auk þess nefnir hann „spillinguna“ innan lífeyrissjóðakerfisins. Hann segir að lífeyrissjóðirnir séu orðnir stærstu eigendur fasteignalána á Íslandi, stærstu eigendur smásöluverslunar og þjónustu fyrirtækja hér á landi. „Það þýðir að sjóðirnir hafa beinan og óbeinan hag af háu leiguverði, háu húsnæðisverði, háum vöxtum sem og verðtryggingu. Sjóðirnir hafa líka hag af lágum launum og hárri álagningu,“ segir Ragnar.
„Við erum því orðin þrælar eigin kerfis sem þvertekur fyrir að koma að samfélagslegri uppbyggingu innviða samfélagsins öðruvísi en að græða sem mest á því. Það er vitaskuld gjörsamlega óásættanlegt og þeirri baráttu þarf að halda áfram af fullum krafti, hvort sem það verður á meðan ég sit í formannssætinu eða ekki. Við þurfum að halda áfram að berjast hvernig sem allt veltist,“ segir Ragnar að lokum.