Bandaríkin unnu heimsmeistaratitilinn í fótbolta kvenna um helgina en munur á greiðslum til fótboltamanna er gífurlegur á milli kynja í fótbolta í Bandaríkjunum og nær 730.000 dollurum eða rúmlega 92 milljónum íslenskum króna. Þetta kemur fram í greiningu The Guardian um bónusgreiðslur til fótboltamanna í heimsmeistaramótinu.
Hæstu launagreiðslur án bónusa eru 37.500 Bandaríkjadalir á meðal bandarískra fótboltakvenna, samkvæmt The Guardian. Hæstu launagreiðslur til karlkyns leikmanna eru hins vegar 108.695 Bandaríkjadalir og er þar með strax um mikinn mun að ræða. Enn bætist við ef bónusgreiðslur eru taldar með.
Kvennalandslið Bandaríkjanna hefur nú unnið tvöfalt fleiri heimsmeistaratitla en önnur landslið og var titillinn um helginna fjórði heimsmeistaratitill bandaríska liðsins síðan fyrsta mótið í kvennaflokki var haldið árið 1991. Bandaríkin hafa nú unnið tvöfalt fleiri titla en öll önnur landslið til samans, en Þýskaland á tvo titla að baki og Noregur og Japan einn hvort.
Fá bónusgreiðslur sem konur fá ekki
Bónusgreiðslur bætast við til leikmanna ef þeir voru kallaðir upp sem einn hinna 23 leikmanna og fá konur að hámarki 37.500 Bandaríkjadali en karlar 68.750. Auk þess eru fjölmargar bónusgreiðslur sem karlar fá en konur ekki, til að mynda fyrir spilaðan leik býðst bónusgreiðsla upp á 6.785 Bandaríkjadali, hámark 85.599 Bandaríkjadalir fyrir hámarks stig fengin og 195.652 Bandaríkjadalir fyrir að halda áfram í útsláttarkeppni. Að hámarki gæti karlalandsliðið fengið 329.376 Bandaríkjadali miðað við enga fyrir konurnar.
Gefið að allir bandarískir leikmenn hafi hlotið allar hámarksgreiðslur stæðu konurnar nú í 90.000 dollurum og karlarnir í 679.321 dollurum. Fyrir að vinna heimsmeistaramótið hlutu kvenkyns leikmennirnir 110.000 dollara í bónus en karlarnir hefðu hlotið 407.608 dollara í bónusgreiðslur. Kvennalandsliðið þarf nú að fara í sigurreisu um Bandaríkin og hljóta 60.689 dollara fyrir vikið, en karlalandsliðinu býðst ekkert slíkt. Karlkyns leikmenn standa því í 1.114.429 dollara miðað við 260.869 dollara hjá konunum.
Bónusgreiðslurnar eru greiddar af US Soccer til bæði karla og kvenna. Samkvæmt heimildum Guardian segir sambandið að mismunurinn sé að miklu leiti á ábyrgð Fifa, þó halda blaðamenn Guardian því fram að ekki sé hægt að segja það um allar greiðslurnar. Leikmenn bandaríska kvennalandsliðsins kærðu US Soccer fyrir kynjamismun, þar sem launamunurinn á milli liðanna voru helstu rök þeirra.