Kaupskil, félag í eigu Kaupþings, hefur lokið sölu á öllu hlutafé sínu í Arion banka. Í tilkynningu frá Kaupþingi segir að 20 prósenta eignarhluturinn í bankanum hafi verið seldur erlendum og innlendum fjárfestum. Söluverðið var 27,4 milljarðar króna en gengið í viðskiptunum var 75,5 krónur á hlut.
Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að íslenska ríkið fái 9,8 milljarða í sinn hlut á grundvelli afkomuskiptasamnings sem var á meðal þeirra stöðugleikaskilyrða sem Kaupþing þurfti að undirgangast við samþykkt nauðasamninga í árslok 2015.
Gengið var frá bindandi samkomulagi við hóp fjárfesta um kaupin þann 1. júlí síðastliðinn með þeim fyrirvara að ríkið myndi ekki að stíga inn í viðskiptin og nýta sér forkaupsrétt sinn.
Samkvæmt heimildum Markaðarins keypti vogunarsjóðurinn Taconic Capital um helming hluta Kaupskila, en fyrr átti sjóðurinn 16 prósent hlut í bankanum og á hann nú um fjórðungshlut og er því stærsti einstaki hluthafi bankans. Taconic á einnig 48 prósent hlut í Kaupþingi, umsýslufélags þrotabúseigna Kaupþings banka sem féll 2008.
Nýr bankastjóri og aðstoðarbankastjóri
Benedikt Gíslason, sem var áður stjórnarmaður í Arion banka, hóf störf sem bankastjóri Arion í byrjun síðustu viku. Auk þess tilkynnti bankinn í gær að Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason hefur verið ráðinn sem nýr aðstoðarbankastjóra Arion. Ásgeir var áður framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Kviku banka.