Nær helmingur fyrirtækja, 45 prósent, sem tóku þátt í fyrirtækjarannsókn Gallups töldu mögulegt að fjölga hlutastörfum á vinnustaðnum þeirra. Í fyrra voru 46.000 einstaklingar utan vinnumarkaðar af ýmsum ástæðum. Ein leið til að auka þátttöku þeirra sem eru með skerta vinnugetu er að fjölga hlutastörfum en aðeins 23 prósent af öllum störfum á landinu eru hlutastörf. Þetta kemur fram í grein í ársriti VIRK 2019.
70 prósent fyrirtækja með starfsmann með skerta starfsgetu
Í grein Jónínu Waagfjörð, sviðstjóri þróunar atvinnutengingar hjá VIRK, er greint frá fyrstu niðurstöðum rannsóknar, sem Velferðarráðuneytið stýrði, þar sem kannaðir voru styðjandi og hindrandi þættir fyrir atvinnuþátttöku einstaklinga með skerta starfsgetu út frá sjónarmiðum atvinnurekandi. Könnunin var meðal íslenskra fyrirtækja sem framkvæmd var af Gallup dagana 20. júní til 14. september 2018. Stærð úrtaksins var 1313 fyrirtæki en 205 af þeim komu úr upplýsingagrunni VIRK.
Í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að 69 prósent þeirra fyrirtækja, sem tóku þátt í könnuninni, höfðu verið með einn eða fleiri starfsmenn með skerta starfsgetu á vinnustaðnum á síðustu 5 árum.
Þá kom fram í könnuninni að algengasta ástæða þess að vinnustaðir höfðu ekki ráðið fólk með skerta starfsgetu til vinnu, þar sem enginn slíkur starfsmaður hafði starfað á síðustu 5 árum, var að ekki væru hentug störf í boði innan vinnustaðarins.
Þegar spurt var um reynslu fyrirtækjanna af því að ráða starfsfólk með skerta starfsgetu á vinnustaðinn en hún var í flestum tilfellum mjög eða frekar góð. Einungis 4 prósent sögðu reynsluna hafa verið frekar eða mjög slæma.
5600 utan vinnumarkaðar vegna veikinda eða tímabundið ófær um að vinna
Árið 2018 voru 249.900 einstaklingar á vinnualdri, 16 til 74 ára, á Íslandi en af þeim voru um 46.000 einstaklingar utan vinnumarkaðar af ýmsum ástæðum. Rúmlega 36 prósent þeirra sem voru utan vinnumarkaðar voru fjarverandi vegna örorku eða fötlunar, eða um 11.000 manns, en 5.600 voru fjarverandi vegna veikinda eða vegna þess þau voru tímabundið ófær um að vinna.
Í greininni segir að þátttaka á vinnumarkaði sé mismunandi milli hinna ýmsu þjóðfélagshópa. Atvinnuþátttaka einstaklinga með skerta starfsgetu er um 61 prósent, en um 82 prósent hjá einstaklingum sem eru það ekki. Þegar einstaklingar með skerta starfsgetu eru á vinnumarkaðinum þá eru þeir mun líklegri til að vera í hlutastörfum í samanburði við þá sem eru með fulla starfsgetu eða um 19 prósents samanborið við 7 prósent þeirra sem eru með fulla starfsgetu.
Aðeins 23 prósent af öllum störfum hlutastörf
Rannsóknir hafa sýnt að það að vera með vinnu er mikilvægt fyrir bæði heilsu og velferð einstaklingsins og því er samkvæmt greininni mikilvægt að auka þátttöku þessa hóps á vinnumarkaði. Fjölgun hlutastarfa á íslenskum vinnumarkaði er ein leið til þess að mati greinarhöfundar en samkvæmt tölum frá Hagstofunni eru einungis 23 prósent af öllum störfum í landinu skilgreind sem hlutastörf.
Þegar einstaklingar með skerta starfsgetu eru á vinnumarkaðinum þá eru þeir mun líklegri til að vera í hlutastörfum í samanburði við þá sem eru með fulla starfsgetu. Í niðurstöðu könnunarinnar kemur fram að 45 prósent fyrirtækjanna töldu mögulegt að fjölga hlutastörfum á vinnustaðnum þeirra.
Þá kom fram í könnuninni að vinnuveitendur með fyrri reynslu af því að ráða einstaklinga með skerta starfsgetu voru marktækt líklegri til að vilja ráða aftur slíka starfsmenn á næstu tveimur árum og þeir voru líklegri til að telja mögulegt að fjölga hlutastörfum á vinnustaðnum.