Framleiðni vinnuafls í byggingarstarfsemi hér á landi hefur aukist talsvert umfram meðalþróun hagkerfisins í heild síðustu tíu ár. Íslensk fyrirtæki í byggingarstarfsemi hafa aukið framleiðni sína um tæp 38 prósent frá árinu 2008 sem er töluvert hraðari vöxtur en á hinum Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs.
Vöxturinn hraðari hér á landi
Framleiðni er mælikvarði á afköst og þau verðmæti sem skapast fyrir hverja unna stund. Í skýrslu Íbúðalánasjóðs kemur fram að framleiðnivöxturinn hér á landi hafi verið töluvert hraðari en að meðaltali á hinum Norðurlöndunum síðustu árin. Á meðan íslensk fyrirtæki í byggingarstarfsemi hafa aukið framleiðni sína um tæp 38 prósent frá árinu 2008, hefur samsvarandi aukning í Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi einungis verið tæp 3 prósent að meðaltali.
Í skýrslunni segir að byggingariðnaðurinn á Íslandi sé einnig sérstakur að því leyti að framleiðniaukning innan hans hefur verið hraðari en framleiðniþróun hagkerfisins alls.
Á hinn bóginn hafa fyrirtæki í byggingarstarfsemi á hinum Norðurlöndunum aukið framleiðni sína hægar en önnur fyrirtæki að meðaltali þar.
Að mati Íbúðalánsjóðs skýrist þessi mikli munur í framleiðnivexti milli Íslands og hinna Norðurlandanna á síðustu árum að einhverju leyti vegna þess að hagkerfi þeirra hefur mögulega verið í meira jafnvægi á tímabilinu og hér hafa verið miklar verðhækkanir í uppsveiflunni á síðastliðnum árum.
Framleiðni minnkaði með aukinni starfsemi
Hinn 1. janúar 2010 bjuggu 317.600 á Íslandi en 1. janúar á þessu ári var fjöldinn kominn upp í 356 þúsund. Á þessum átta ára tíma hefur landsmönnum því fjölgað um tæplega 40 þúsund manns. Þar af hefur vinnumarkaðurinn stækkað um 20 þúsund einstaklinga og telur hann nú um 206 þúsund. Í tölum Hagstofu Íslands hefur mátt sjá að stór hluti nýrra starfa hefur verið í ýmsum störfum innan ferðaþjónustunnar og byggingariðnaði.
Í byggingargeiranum hafa vinnustundir verið yfir meðaltali frá árinu 2015, en nýtingin náði hámarki árið 2017. Í fyrra minnkaði hún svo og voru meðalvinnustundir starfsmanna í byggingariðnaði sambærilegar meðalvinnustundum hagkerfisins alls.
Samhliða því að hver starfsmaður í byggingariðnaði bætti við sig vinnustundum hefur störfum í greininni fjölgað á hverjum ársfjórðungi síðan um haustið árið 2012. Mest var fjölgunin árið 2016, en dregið hefur jafnt og þétt úr henni síðan þá.
Eftir hraðan vöxt í framleiðni vinnuafls í byggingarstarfsemi hér á landi á undanförnum árum tók framleiðnin skarpa dýfu árið 2017. Hún lækkaði um tæp 5 prósent á einu ári. Þessi lækkun átti sér stað á sama tíma og starfsfólki í byggingariðnaði tók að fjölga og hver starfsmaður fór að vinna meira.
Í skýrslunni segir að þessar hreyfingar séu í samræmi við kenningar um minnkandi jaðarframleiðni vinnuafls. Stóraukning í íbúðaruppbyggingu á árunum 2016 til 2017, sem var keyrð áfram af fleiri ráðningum og meiri vinnu á hvern starfsmann, gæti að mati Íbúðalánasjóðs hafa leitt til minnkandi framleiðni, þar sem nýir starfsmenn og starfsmenn í yfirvinnu eru mögulega ekki jafnafkastamiklir og aðrir.
Lækkunin í framleiðni varði þó stutt en í fyrra jókst framleiðni vinnuafls í greininni á nokkurn veginn sama hraða í öðrum atvinnugreinum.
Þrátt fyrir hraðan vöxt í framleiðni vinnuafls hérlendis er heildarframleiðni Noregs Danmerkur og Svíþjóðar enn mun meiri.