Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur birt drög að nýjum lögum um námslánakerfið LÍN í samráðsgátt. Með frumvarpinu er lagt til að innleitt verði nýtt námsstyrkjakerfi samhliða námslánakerfinu og nafni sjóðsins í kjölfarið breytt í SÍN, stuðningssjóður íslenskra námsmanna.
Helstu breytingarnar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru að þeir sem ljúka prófgráðu innan tilgreinds tíma geti fengið námsstyrk sem nemur 30 prósentum af höfuðstól námsláns, auk þess sem námsstyrkur verður veittur vegna framfærslu barna lánþega.
Þriðja atlagan að breyttu lánakerfi
Í desember í fyrra skipaði mennta- og menningarmálaráðherra starfshóp um lánakjör Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Frumvarpið er samið út frá tillögum starfshópsins og er markmiðið með frumvarpinu að ganga skrefinu lengri í átt að því að tryggja hagsmunum námsmanna á Íslandi betur en gert hefur verið.
Frumvarpi er þriðju atlagan að breytingu á námslánakerfinu en tæp 30 ár eru liðin frá setningu núgildandi laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Námsmenn hafa á undanförnum árum kallað eftir bættu námslánakerfi og auknum fjárhagslegum stuðningi við nám sitt frá íslenska ríkinu.
Félagslegur jöfnunarsjóður
Í fyrra tók Ísland þátt í samanburðarkönnun á högum evrópska háskólanema í 28 ríkjum í Evrópu. Niðurstöður könnunarinnar sýndu að íslenskir námsmenn hafi almennt miklar fjárhagslegar áhyggjur og meta fjárhagsstöðu sína slæma. Samkvæmt könnuninni meta 34 prósent íslenskra háskólanema fjárhagsstöðu sína annað hvort alvarlega eða mjög alvarlega. Þetta hlutfall er þó nokkuð yfir meðaltali, en í Evrópu er meðaltalið 26 prósent.
Að sama skapi hafa kannanir sem gerðar hafa verið á vegum Efnahags- og framfarastofnunina, OECD, sýnt fram á að háskólanemar hér á landi eru almennt eldri en gengur og gerist annars staðar á Norðurlöndunum. Hvergi er jafn lágt hlutfall í yngsta aldurshópnum, 24 ára og yngri, og að sama skapi er hvergi jafn hátt hlutfall nema í elstu aldurshópunum, 30 ára og eldri.
Í greinargerð frumvarpsins segir að frumvarpinu er ætlað að tryggja jafnrétti til náms á Íslandi og að hér sé kerfi sem dragi úr aðstöðumun í samfélaginu og tryggi eftir því sem kostur er öllum sem í hlut eiga jafna möguleika og jöfn tækifæri. Þannig á möguleiki á menntun að vera án tillits til landfræðilegra aðstæðna, kyns eða efnahagslegra og félagslegra aðstæðna.
Með frumvarpinu er því lagt til til að nafni Lánasjóðs íslenskra námsmanna verði breytt í Stuðningssjóð íslenskra námsmanna og að hann verði rekinn sem félagslegur jöfnunarsjóður.
30 prósent niðurfærsla af höfuðstól
Í frumvarpinu má finna nýmæli sem snýr að styrkjum til lánþega námslána. Almenna beina styrki til lánþega námslána er ekki að finna í núgildandi námslánakerfi á Íslandi en slík styrkjakerfi eru hins vegar við lýði á öðrum Norðurlöndum. Í frumvarpi er lagt til að námsmenn geti áunnið sér styrki ljúki þeir prófgráðu innan tilgreinds tíma. Fjárhæð námsstyrksins verður 30 prósent niðurfærsla af höfuðstól námslánsins að námi loknu. Styrkirnir eru því ekki ætlaðir til framfærslu meðan á námi stendur enda falla þeir ekki til fyrr en að námi loknu.
Í greinargerð frumvarpsins segir að ástæða þess að þessi leið sé valin sé vegna þess að hún sé „langtum einfaldari og skilvirkari“ en til dæmis það styrkjakerfi sem þekkist í Danmörku þar sem styrkirnir eru greiddir út líkt og námslán hérlendis. „Með þessu kerfi verið að hvetja námsmenn til að ljúka námi á tilskildum tíma. Þetta er nauðsynlegt til að ná því markmiði sem styrkirnir eiga m.a. að stuðla að, þ.e. að sporna við þeirri þróun að námsmenn ílengist að óþörfu í námi.“ segir í greinargerðinni.
Í greinargerðinni segir jafnframt að námsmenn á Ísland eru líklegri til að hafa fjölskyldu á framfæri en námsmenn í öðrum Evrópuríkjum. Samkvæmt fyrrnefndri samanburðarkönnun á högum háskólanema átti þriðjungur svarenda á Íslandi eitt barn eða fleiri, sem er hæsta hlutfall meðal þátttökuríkjanna, og 41,2 prósent yngstu barna voru yngri en þriggja ára.
Í ljósi þessara aðstæðna námsmanna og til að styrkja SÍN sem félagslegan jöfnunarsjóð var ákveðið að veita beinan styrk á meðan námi stendur vegna barna lánþega námslána. Í frumvarpinu er tekið fram að lagt sé til að námsstyrkirnir verða undanskildir skatti.
Námslán greidd út mánaðarlega
Enn fremur er lagt til í frumvarpinu að heimilt verði að greiða námslán út mánaðarlega en námsmenn hafa allt frá setningu núgildandi laga barist fyrir því að samtíma greiðslur yrðu settar á að nýju.
Auk þess er gert ráð fyrir því að meginreglan verði að námslán skulu greidd með mánaðarlegum afborgunum og að fullu endurgreidd á því ári þegar lánþegi nær 65 ára aldri. Lánþegar geta einnig valið hvort þeir þrepaskipti endurgreiðslum námslána sinna eða endurgreiði með tekjutengdum afborgunum séu námslok hans áður eða á 35 aldursári. Auk er lögð til sú breyting að við námslok geti lánþegi valið um hvort hann endurgreiði námslán sín með verðtryggðu eða óverðtryggðu skuldabréfi.
Með frumvarpi eru einnig lagðar til heimildir handa ráðherra að veita tímabundna ívilnun við endurgreiðslur námslána vegna tiltekinna námsgreina og handa lánþegum sem eru búsettir og starfa í brothættum byggðum. Heimildirnar eru ætlaðar til þess að gefa ráðherra tækifæri til þess að bregðast við ástandi þar sem skortur er viðvarandi eða fyrirsjáanlegur á fólki með tiltekna menntun með því að skapa sérstakan hvata til þess að sækja þá menntun eða starfa í tiltekinni starfsgrein og/eða til þess að bregðast við ástandi þar sem vöntun er á menntuðum einstaklingum í brothættum byggðum.