Gengið hefur verið frá sölu á öllum eignum þrotabús WOW air sem tengjast flugrekstri. Sveinn Andri Sveinsson, annar skiptastjóri þrotabús WOW air, staðfesti í samtali við Kjarnann að salan hafi átt sér stað. Sveinn Andri gat þó engar aðrar upplýsingar gefið um söluna.
Endurvekja lággjaldaflugrekstur til og frá Íslandi
Fréttablaðið greindi frá því dag að fjársterkir bandarískir aðilar með mikla reynslu í flugrekstri hafi keypt allar flugrekstareignir þrotabúsins. Heimildir blaðsins herma að um sé að ræða bæði vöru- og myndmerki WOW air, WOW lénin, flugrekstrarbækur, bókunarkerfi, hugbúnað, söluvagna, sölutölvur, einkennisfatnað ásamt stærstum hluta varahlutalagers og verkfæra.
Þá herma heimildir blaðsins að umfang viðskiptanna hlaupi á hundruðum milljóna króna og að fjárhæðin hafi verið greidd með eingreiðslu. Markmið kaupendanna er að endurvekja lágfargjaldaflugrekstur til og frá landinu bæði til Evrópu og Bandaríkjanna á grunni WOW air og í samræmi við þá hugmyndafræði sem lá til grundvallar lággjaldaflugi WOW air, samkvæmt Fréttablaðinu.
Kaupin eru með öllu ótengd þeim íslensku aðilum sem undirbúið hafa stofnun nýs lággjaldafélags undir nafninu WAB. Enn fremur hefur engin úr hópi fyrrverandi eigenda eða stjórnenda hins fallna flugfélags haft aðkomu að viðskiptunum. Þetta staðfestir Páll Ágúst Ólafsson lögmaður í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins.
Deila skrifstofurými
Páll Ágúst hefur haft milligöngu um samskipti kaupendanna við þrotabúið og önnur íslensk stjórnvöld vegna viðskiptanna. Páll Ágúst deilir skrifstofurými með Sveini Andra, skiptastjóra þrotabúsins, á Grjótagötu 7 í Reykjavík. Aðspurður segir Sveinn Andri, í samtali við Kjarnann, að þrjár lögmannsstofur deili skrifstofurýminu á Grjótagötu 7, líkt og gert er víða annars staðar. Hann tekur fram að enginn samrekstur eigi sér stað.