Íbúum Akraness hefur fjölgað á hverju ári síðastliðin ár en áætlað er að þeim muni fjölga mun hraðar á næstu árum. Þegar lokið verður við að byggja í þeim hverfum sem skipulögð hafa verið í bænum eða eru á lokastigi skipulags þá mun íbúum Akraness fjölga um þrjú þúsund á næstu sex til tíu árum. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Eftirspurn eftir Sementsreit
Um hundrað íbúðir eru nú í byggingu á Akranesi og tæplega 1.100 íbúðir verða á þremur nýjum byggingarreitum eða hverfum. Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri á Akranesi, segir í samtali við Morgunblaðið að lóðir sem tilbúnar eru til bygginga séu uppseldar fyrir utan nokkrar lóðir í Skógahverfi sem bærinn bíður með úthlutun á vegna hugmynda um uppbyggingu á íbúðakjarna fatlaðra.
Á svokölluðum Sementsreit, þar sem verksmiðjubyggingar Sementsverksmiðjunnar voru, verða byggaðr 368 íbúðir. Bæjarstjóri býst við að mikil eftirspurn verði eftir lóðum á reitnum en auk íbúða verður byggð aðstaða fyrir verslun og þjónustu. Reiknað er með að fyrstu lóðunum verði úthlutað fyrir lok ársins.
Á næstu 6 til 10 ára mun íbúum á Akranesi því fjölga um 3000 ef áætlanir ganga eftir. Íbúar Akraness verða þá yfir 10 þúsund og íbúafjöldinn því tvöfaldast á þrjátíu árum. Sævar Freyr segir að ætlunin sé ekki að gera Akranes að dæmigerðum svefnbæ þar sem íbúarnir vinna mest annars staðar. Stórir vinnustaðir séu í bænum og í næsta nágrenni hans þótt HB Grandi hafi flutt fiskvinnslu sína annað. Sævar segist hafa áhuga á að efla nýsköpun og þróun í bæjarfélaginu.
Mest hækkun á Akranesi
Fasteignamat íbúða hækkar hvergi meira frá yfirstandandi ári en á Akranesi, eða um 21,8 prósent, samkvæmt nýju fasteignamati fyrir árið 2020 sem Þjóðskrá Íslands kynnti í byrjun júní. Næst mest hækkar matið í Suðurnesjabæ, eða um 17,7 prósent en um 16,6 prósent í Vestmannaeyjum.
Sé litið til landsins alls hækkar fasteignamat íbúða um 6,0 prósent milli ára. Þar af hækkar sérbýli um 6,6 prósent en fjölbýli um 5,3 prósent. Hækkunin er meiri á landsbyggðinni en í höfuðborginni, eða 9, prósent samanborið við 5 prósent.