Ísland kynnir á morgun stöðu innleiðingar heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun á árlegum ráðherrafundi í New York. Auk forsætisráðherra ávarpa tveir fulltrúar frá ungmennaráði heimsmarksmiðanna fundinn, þau Kristbjörg Mekkín Helgadóttir og Sigurður Einnarson Mäntylä. Ungmennaráð heimsmarkmiðanna var sett á fót af stjórnvöldum til að virkja ungmenni landsins og vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun,
Ráðafólki ber skylda að hlusta á það sem þau hafa að segja
Í júní skiluðu stjórnvöld Sameinuðu þjóðunum fyrstu landrýnisskýrslunni um stöðu Íslands gagnvart heimsmarkmiðunum. Í skýrslunni er fjallað um innleiðingu íslenskra stjórnvalda á heimsmarkmiðunum á innlendum og erlendum vettvangi.
„Samþykkt heimsmarkmiðanna árið 2015 markaði mikil tímamót en ríki heims hafa aldrei áður sett sér jafn víðtæk, sameiginleg markmið. Ísland tók virkan þátt í samningaviðræðunum um heimsmarkmiðin og lagði áherslu á endurnýjanlega orku, stöðvun landeyðingar, sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins, jafnrétti kynjanna og framfarir í lækningu sjúkdóma og skaða á taugakerfinu,“ segir í skýrslunni
Í skýrslunni er lögð sérstök áhersla á börn, kynslóðina sem mun taka við eftir að gildistími heimsmarkmiðanna hefur runnið sitt skeið. „Víða um heim, þar á meðal á Íslandi, hafa börn og ungmenni undanfarið mótmælt aðgerðaleysi stjórnvalda í loftslagsmálum. Þessi samstaða er sterk vísbending um að börn beri ugg í brjósti yfir þeim veruleika sem fyrri kynslóðir hafa skapað framtíðinni og ráðafólki ber skylda til að hlusta á það sem þau hafa að segja,“ segir í skýrslunni.
Tólf fulltrúar á aldrinum 13 til 18 ára
Í ljósi þess að í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sé kveðið skýrt á um rétt barna til að láta skoðanir sínar í ljós og til að hafa áhrif á málefni er þau varða þá ákváðu stjórnvöld að virkja þátttöku ungmenna á Íslandi í gegnum ungmennaráð heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Í skýrslunni segir að meginmarkmið ungmennaráðsins sé að vekja athygli á heimsmarkmiðunum og sjálfbærri þróun, bæði á meðal ungmenna og innan samfélagsins í heild.
Ungmennaráðið samanstendur af tólf fulltrúum, víðs vegar af landinu, á aldursbilinu 13 til 18 ára. Ungmennaráðið fundar árlega með ríkisstjórninni en ungmennaráðið afhenti ríkisstjórninni fyrstu yfirlýsingu ráðsins í mars síðastliðnum.
Vilja að framgang frekari stóriðju verði stöðvað tafarlaust
Í yfirlýsingunni er vitnað í skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna sem kom út í október 2018 en þar kemur fram að heimurinn hafi til ársins 2030 til að framkvæma „fordæmalausar aðgerðir“ til að halda meðalhita jarðar í skefjum. Auk þess segir í skýrslunni að ungmenni séu stór hluti af lausninni enda þurfi að virkja allt samfélagið.
„Við erum mjög þakklát fyrir þau tækifæri sem við höfum fengið en okkur finnst þó að fleiri ættu að fá tækifæri sem þessi að eiga í beinum samskiptum við stjórnvöld. Það verður verkefni okkar að takast á við afleiðingar þeirra ákvarðana sem teknar eru í dag. Þess vegna er mikilvægt að við fáum rödd meðal þeirra sem eru að móta samfélög okkar og löggjöfina sem okkur er gert að búa við. Nauðsynlegt er þó að gleyma ekki að þið hafið valdið og vonandi viljann til breytinga því næstu tíu árin eru lykilár í að ráða örlögum komandi kynslóða. Við þekkjum öll frestunaráráttu í okkar daglega lífi og hvernig dagar, mánuðir, jafnvel ár geta liðið án nokkurs árangurs. Klukkan tifar, tíminn heldur áfram en spurningin er, hvenær mun seinasta sandkornið falla?,“ segir í yfirlýsingunni.
Ungmennaráðið vekur meðal annars athygli á að það þurfi að fylla upp í skurði þar sem votlendi gefi frá sér ónauðsynlega mikið magn koltvíoxíðs. Auk telur ráðið að samræma þurfi flokkunarkerfi þvert yfir sveitarfélög.
Enn fremur vill ungmennaráðið að framgang frekari stóriðju verði stöðvað tafarlaust og að afsláttum auk undanþágu í hag stóriðjunnar veðri afleitt. „Stóriðja stendur fyrir miklum raforkukaupum á Íslandi og sífellt er verið að auka framleiðslu raforku til að uppfylla þeirra kröfur. Margar virkjanaframkvæmdir hefðu verið ónauðsynlegar ef ekki hefði verið fyrir umfang stóriðju.“
Ákvarðanir sem teknar eru í dag munu hafa áhrif á framtíð þeirra
Á morgun munu tveir fulltrúar úr ungmenna ráðunni ávarpa ráðherrafundi í New York um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Í tilkynningu Stjórnaráðsins um fundinn er haft eftir Kristbjörgu Mekkín Helgadóttur, öðrum fulltrúanna, að svo lengi sem einhver sé tilbúinn að hlusta af alvöru þá telji hún að rödd unga fólksins geti haft áhrif.
„Það er samt svo mikilvægt að halda áfram að nýta rödd sína þó manni finnist maður á tímum vera að kalla inn í tómið. Við vonumst til þess að með þessu erindi okkar munum við koma röddum ungmenna á Íslandi eins vel til skila og við getum, það er svo bara að krossa putta að einhver sé tilbúinn að hlusta,“ segir Kristbjörg .
Sigurður Einarsson Mäntylä, hinn fulltrúinn, tekur í sama streng og spyr af hverju ungmenni ættu ekki að fá að taka þátt í þeim ákvörðunum sem teknar eru í dag og munu fyrst og fremst hafa áhrif á framtíð þeirra. „Valdhafar þurfa að eiga samráð við öll ungmenni, líka þau sem hafa ekkert endilega áhuga á stjórnmálum og loftslagsbreytingum því aðeins þá getum við tryggt sanna samvinnu,“ segir Sigurður.
Ísland skipuleggur þar að auki tvo hliðarviðburði sem fara fram á morgun og fjalla þeir báðir um ungmenni. Hægt verður að fylgjast með fulltrúum ungmennaráðsins á Instagram síðu UngRÚV.