Verið er að prófa svokallaðan Mars-jeppa sem nota á í leiðangri NASA til Mars árið 2020 í nágrenni Langjökuls. Prófunin er í tengslum við SAND-E verkefni kostað af Bandarísku flug- og geimvísindastofnuninni, NASA. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu Háskólans í Reykjavík og Arctic Trucks Experience.
Nemendur í verkfræði og tæknifræði við nám í Háskóla Reykjavíkur eru rannsóknarteyminu til aðstoðar til að finna hentuga staði til prófana, kannana á rannsóknarsvæðinu með drónum, ásamt því að veita upplýsingar um einstakar jarðfræði- og veðurfarsaðstæður á Íslandi.
Vísindamennirnir hafa sérstakan áhuga á að fylgjast með breytingum á eðlis- og efnafræðilegum eiginleikum jarðvegs þegar hann berst með vatni og vindum. Það er meðal þeirra ástæðna að prófanirnar fara fram nærri jökulrönd Langjökuls því þar er að finna farvegi í sandinum eftir vatn sem kemur undan jöklinum, sem minna á farvegi á Mars, samkvæmt tilkynningunni. Sandurinn er jafnframt basalt sandur sem er líkur sandinum á Mars.
Mars-jeppinn tekur nú sýni á þremur stöðum og eru gögn og niðurstöður þeirra nýttar í sjálfstýringu jeppans. Jeppinn nýtir vélnám og gervigreind til þess að meta umhverfið sem keyrt er um. Jeppinn verður látinn aka sjálfur og meta umhverfið án aðkomu manna en einnig verður kannaður vænleiki þess að nota dróna til að skanna svæðið sem fram undan er, líkt og til stendur að gera í leiðangri NASA til Mars á næsta ári.