Malasíska fyrirtækjasamstæðan Berjaya Land Berhad mun greiða 53,6 milljónir dala, jafnvirði um 6,7 milljarða króna fyrir 75 prósent hlutafjár í Icelandair Hotels og þeim fasteignum sem tilheyra hótelrekstrinum. Stofnandi og stjórnarformaður Berjaya er Tan Sri Dato Vincent Tan, kaupsýslumaður frá Malasíu, en hann er eigandi breska knattspyrnufélagsins Cardiff City. Frá þessu er greint í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag.
Tan segir, í viðtali við ViðskiptaMoggann í dag, að hann sjái mikil tækifæri á íslenskum hótelmarkaði en hann kannar nú möguleika á því að reisa nýtt hágæðalúxushótel hér á landi.
Háð endurfjármögnun skulda
Í tilkynningu Berjaya til malasísku kauphallarinnar segir að kaup Berayja séu háð því að skuldir Icelandair Hotels verði endurfjármagnaðar með nýjum lánum upp á 64 til 72 milljónir dala sem jafngildir átta til níu milljörðum króna. Kaupin eru einnig háð samþykki dómsmálaráðuneytisins á grundvelli laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna,.
Kaupsamningurinn gerir ráð fyrir að Berjaya eignist 75 prósent hlut, og að viðskiptin gangi í gegn um áramótin. Viðskiptin gera ráð fyrir að Icelandair haldi eftir 25 prósent hlut í að minnsta kosti þrjú ár, en eftir það muni Berjaya eignist þann hlut. Icelandair Hotels er með fjölbreytta gistimöguleika um land allt og heildarfjöldi herbergjaframboðs félagsins er 1.811. Að auki hyggst félagið, í samstarfi við Hilton Hotels, opna nýtt 145 herbergja glæsihótel á Landsímareit árið 2020.
Í tilkynningu sem Icelandair Group sendi kauphöllinni á Íslandi kom fram að að heildarvirði hótelkeðjunnar og tengdra fasteigna, hlutafé og vaxtaberandi skuldir, væri 136 milljónir dala, um 17,1 milljarður króna, í viðskiptunum. Aftur á móti segir í tilkynningu Berjaya að hlutafé Icelandair Hotels og fasteignanna sé metið á 71,5 milljónir dala í viðskiptunum miðað við stöðu vaxtaberandi skulda keðjunnar, sem séu 64 milljónir dala, og veltufjármuna hennar. Áætlað kaupverð á 75 prósentum hlutafjárins sé þannig liðlega 53,6 milljónir dala en endanlegt verð mun ráðast af fjárhagsstöðu hótelkeðjunnar þegar kaupin ganga í gegn í lok ársins.
Tekjur Icelandair Hotels námu 97 milljónum USD árið 2018 og heildarfjöldi starfmanna var 699. EBITDA hótelrekstrarins var 7 milljónir USD og leigutekjur fasteigna tengdum hótelrekstrinum námu 5 milljónum USD. Heildarflatarmál fasteignanna er 17.738 m2 og samanstanda af Hilton Canopy Reykjavík, Icelandair Hótel Akureyri, Icelandair Hótel Mývatni og Icelandair Hótel Héraði.
Mikil tækifæri í íslenskri ferðaþjónustu
Vincent Tan segist sjá mikil tækifæri í íslenskra ferðaþjónustu til lengri tíma í viðtali við Viðskiptamoggann í dag og þá sérstaklega fyrir vel þá borgandi ferðamenn sem koma til landsins. „Ég tel að það sé pláss á markaðnum fyrir alvöru lúxushótel og við erum að kanna möguleika á að bæta slíkri einingu inn í eignasafnið hjá Icelandair Hotels.“
Félag Tan á eign á Geirsgötu 11 þar sem nú stendur fiskvinnsluhús. Aðspurður hvort að sú eign komi til greinar sem staðsetning fyrir slíkt lúxus hótel segir hann að það muni tíminn leiða í ljós.