Brynjólfur Bjarnason, stjórnarformaður Arion banka og Friðrik Sophusson, stjórnarformaður Íslandsbanka, útiloka ekki sameiningu bankanna ef slíkt auki hagræði. Friðrik segir að ef eingöngu er litið til stærðarhagkvæmni þá sé ljóst að sameining bankanna geti borgað sig. Hann bendir þó á að slík ákvörðun sé í hendi annarra aðila. Brynjólfur segir að sameiningin yrði skoðuð ef þannig myndi nást fram aukin hagræðing og betri rekstur. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Hagræðing í rekstri banka fram undan
Brynjólfur segir í samtali við Morgunblaðið í dag að fram undan sé mikil hagræðing í rekstri banka hér á landi og í því samhengi sé ekki hægt að útiloka sameiningu banka. „Það er alveg ljóst að auka þarf hagkvæmni í rekstri banka. Við myndum skoða sameiningu ef þannig myndi nást fram aukin hagræðing og betri rekstur. Slíkt er auðvitað eftirsóknarvert,“ segir Brynjólfur.
Stjórnarformaður Íslandsbanka, Friðrik Sophussonar, tekur undir með Brynjólfi og segir að sameining banka gæti borgað sig. „Í bankastarfsemi er mikil stærðarhagkvæmni. Ef eingöngu er litið til hennar er ljóst að sameining getur borgað sig. Slík ákvörðun er hins vegar í höndum annarra aðila,“ segir Friðrik.
Bankasýsla ríkisins þyrfti að leggja fram tillögu um sameiningu bankanna. Samkeppniseftirlitið þyrfti síðan að samþykkja þá tillögu og fjármála- og efnahagsráðherra að leggja þá tillögu fram á Alþingi. Í umfjöllun Morgunblaðsins segir að ef af yrði sameiningingunni færi íslenska ríkið með 40 prósent hlut í banka sem skráður yrði á markað í Svíþjóð og á Íslandi.
Miklar breytingar hjá Arion banka
Miklar breytingar hafa átt sér stað í Arion banka á undanförnum mánuðum. Kaupskil, félag í eigu Kaupþings, lauk í síðustu viku sölu á öllu hlutafé sínu í Arion banka. Samkvæmt uppfærðum lista yfir stærstu hluthafa Arion banka er nú stærsti eigandi bankans, Taconic Capital með 23,53 prósent hlut í bankanum.
Och-Ziff Capital Management er næst stærsti hluthafinn með 9,25 prósent hlut og Fossar Markaðir hf. er nú þriðji stærsti hluthafi Arion banka með 8,01 prósent eignarhlut. Hlutur Stoða er 4,8 prósent og þá hefur Lífeyrissjóður verslunarmanna bæst inn á lista yfir stærstu hluthafa, og er nú með 2,73 prósent hlut. Þá á Íslandsbanki 2,53 prósent hlut í Arion banka .
Í lok fyrsta ársfjórðungs þessa árs var eigið fé bankans 193 milljarðar króna, og heildareignir rúmlega 1.200 milljarðar.
Enn fremur hefur verið skipaður nýr bankastjóri og aðstoðarbankastjóri. Benedikt Gíslason tók við sem bankastjóri Arion banka 1. júlí, og aðstoðarbankastjóri var skömmu síðar ráðinn Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, sem áður stýrði fyrirtækjasviði Kviku banka. Benedikt og Ásgeir Helgi hafa verið samstarfsmenn áður, og störfuðu meðal annars saman í framkvæmdahópi um losun fjármagnshafta árið 2015.
Hluthafafundur hefur verið boðaður hjá bankanum þann 9. ágúst næstkomandi og verða þá kosnir tveir nýir stjórnarmenn, og breytingar gerðar á tilnefningarnefnd, samkvæmt boðun til fundarins og tilkynningu um hana til kauphallar.