Neytendasamtökin hafa skorað á Almenna innheimtu ehf. að stöðva tafarlaust innheimtu á smálánaskuldum sem byggja á ólögmætum lánum. Í tilkynningu frá samtökunum segir að fyrir liggi að vextir á smálánum séu margfalt hærri en heimilt er samkvæmt lögum. Þrátt fyrir það virðist ekkert fá stöðvað Almenna innheimtu við að innheimta þessi ólöglegu lán.
Hóta skráningum á vanskilaskrá Creditinfo
Á Íslandi má kostnaður vegna neytendalána, smálán falla undir þá skilgreiningu, einungis vera 50 prósent ofan á stýrivexti Seðlabanka Íslands á ársgrundvelli. Neytendasamtökin hafa hins vegar undir höndum gögn sem sýna að heildarendurgreiðslur lántakenda eru mun hærri en lög leyfa, jafnvel þó miðað sé við hæstu löglegu vexti. Þrátt fyrir það heldur Almenn innheimta áfram innheimtu sinni á ólöglegum vöxtum og hótunum um skráningu á vanskilaskrá Creditinfo, samkvæmt tilkynningu Neytendusamtakanna.
Creditinfo hefur staðfest að ekki verði skráð frekari vanskil á fólk vegna smálánaskulda nema höfuðstóll kröfunnar sé í vanskilum. Því hvetja Neytendasamtökin þá einstaklinga sem eru á vanskilaskrá vegna smálánaskuldar að sendu póst á Creditinfo og fara fram á að vera tekin af skrá.
Líkur á að bótaábyrgð hafi skapast
Neytendasamtökin hafa jafnframt beint þeim tilmælum til lántakenda, sem greitt hafa hærri upphæð til baka en sem nemur lánsupphæð, að fara fram á skýra sundurliðun frá Almennri innheimtu ehf. Fyrirtækið hefur hins vegar gefið sér allt að þrjá mánuði til að veita þessar upplýsingar sem neytendasamtökin segja að lántakendur eiga rétt á.
„Það vekur furðu að fyrirtækið hafi ekki tiltæka sundurliðun á kröfum sem það telur sér þó fært að innheimta. Þá telja Neytendasamtökin í hæsta máta óeðlilegt að innheimta vanskilakostnað á kröfur sem byggja á ólögmætum lánveitingum. Slíkt geti ekki verið löglegt,“ segir í tilkynningunni.
Enn fremur segir í tilkynningunni að Neytendasamtök hafi ítrekað komið þessu á framfæri við Almenna innheimtu en engin viðbrögð fengið. Samtökin telja að þar sem eigendum, stjórn og starfsmönnum Almennrar innheimtu megi vera ljóst að kröfutilbúningurinn standist ekki lög, séu jafnvel líkur á að bótaábyrgð hafi skapast, ekki síst í þeim tilfellum þar sem lántakendur hafa verið settir á vanskilaskrá að ósekju.
Leita að lántaka fyrir dómsmál
Hákon Stefánsson, stjórnarformaður Creditinfo, sagði í viðtali í Ríkisútvarpið í maí síðastliðnum að auðveldasta leiðin til að stöðva smálánafyrirtæki væri að láta vanskilin enda fyrir dómstólum. Hann sagði að hvorki þeir sem taka smálán né smálánafyrirtæki hafi látið innheimtumál fara fyrir íslenska dómstóla.
Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, hefur hins vegar bent á að sá hópur sem tekur þessi lán sé oft ekki í góðri stöðu og lántakan oft neyðarúrræði. Hann segir að því séu lántakendur ekki stakk búnir til að fara í hart og gefast upp undan harðri innheimtu.
„Við höfum reynt að aðstoða fólk við að ganga frá þeim málum. Þetta er mjög erfitt mál á alla kanta sér í lagi með tilliti til stöðu margra lántaka. Þeir eru oft ekki alveg í stakk búnir til að fara í hart og gefast upp undan gífurlega harðri innheimtu þessara fyrirtækja. Það eru hótunarbréf, símtöl og alls kyns dagsektir sem fyrirtæki telja sig geta sett á fólk. Á endanum gefast margir upp og greiða þetta,“ segir Breki í viðtali við RÚV.
Hann sagði aftur á móti að Neytendasamtökin væri að leita að einstaklingum sem væru tilbúin til að fara alla leið með málið í dómssal. „En við erum að leita að einstaklingum sem væru til í að fara alla leið. Neytendasamtökin myndu styðja þá eins og við getum með ráðum og dáð,“ segir Breki.
Þriðjungi fleiri í greiðsluaðlögun
Það sem af er ári hafa borist 258 umsóknir um greiðsluaðlögun hjá Umboðsmanni skuldara. Greiðsluaðlögun er úrræði fyrir einstaklinga sem eiga í verulegum greiðslu- og skuldavanda. Mikil fjölgun hefur orðið í umsóknum um greiðsluaðlögun hjá yngsta aldurshópnum, 18 til 29 ára, en umsækjendur úr þeim hópi voru 27 prósent allra umsækjenda í fyrra.
Í yngsta aldurshópnum 79 prósent umsækjenda með skyndilán og voru 22 prósent af heildarskuldum umsækjanda tilkomin vegna smálána á þessu aldursbili.