Alls voru tíndir 977 blautklútar í fjörunni í Bakkavík á Seltjarnarnesi í síðustu viku en aldrei hafa fundist eins margir blautklútar í einni hreinsunarferð. Þetta kemur fram í frétt Umhverfisstofnunar í dag.
Til samanburðar voru alls tíndir 753 blautklútar árið 2017 og 605 árið 2018.
Í síðustu viku fóru starfsmenn Umhverfisstofnunar í fjöruna í Bakkavík á Seltjarnarnesi að tína rusl, vegna vöktunarverkefnis stofnunarinnar. Vöktunin felur í sér að tína allt rusl á 100 metra kafla, fjórum sinnum á ári. Ruslið er flokkað eftir staðlaðri aðferðafræði og eru gögnin notuð til að fylgjast með þróun á magni og samsetningu rusls á ströndum. Í frétt Umhverfisstofnunar kemur fram að fljótlega hafi orðið áberandi hversu mikið var af blautklútum, sem síðan var staðfest eftir talningu á ruslinu eins og áður segir.
Umhverfisstofnun ítrekar við tilefnið að klósettið er ekki ruslafata en stofnunin hóf vöktun rusls á ströndum sumarið 2016, samkvæmt aðferðafræði og leiðbeiningum frá OSPAR. Vaktað er fyrirfram afmarkað svæði á hverri strönd. Tilgangur vöktunarinnar er að finna uppruna rusls á ströndum, hvaða flokkar rusls safnast mest fyrir, meta magn sem safnast fyrir yfir ákveðið tímabil og að fjarlægja ruslið. Með vöktuninni uppfyllir Ísland hluta af aðgerðaráætlun OSPAR, um að draga úr skaðsemi úrgangs í hafi og á ströndum. OSPAR er samningur um verndun hafrýmis Norðaustur-Atlantshafsins sem Ísland hefur staðfest.
Blautklútarnir langstærsta vandamálið
Árlega fara um 70 til 80 milljón tonn af skólpi gegnum hreinsistöðvar Veitna. Þar af eru um 200 tonn af fitu sem hellt er í niðurföll en áætlað er að um 65 tonn af blautþurrkum sé hent í klósett á ári, samkvæmt frétt RÚV frá því í janúar síðastliðnum.
Langstærsta vandamálið eru blautklútarnir, sem allt of margir henda í klósettið. Það gerist ítrekað að blautklútar stífla skólphreinsidælur á höfuðborgarsvæðinu.
Íris Þórarinsdóttir, tæknistjóri fráveitu hjá Veitum, sagði í samtali við RÚV að flestir þessir klútar væru úr fínum plasttrefjum og leystust því alls ekki upp eins og klósettpappír gerir í fráveitukerfinu.
Blautklútarnir vefjast utan um dælurnar og blandast við fitu og annan úrgang. „Og myndar köggla, og það er þetta sambland af blautklútum og öðru rusli, og fitu, sem líka kemur mikið í fráveitukerfið en ætti ekki að gera það, sem er að mynda þessa fituhlunka,“ sagði Íris.