Minnst verður jökulsins Ok með afhjúpun minningarskjaldar þar sem jökulinn var í Borgarfirði þann 18. ágúst næstkomandi. Okjökull var afskráður sem jökull árið 2014 en talið er að hann sé fyrsti jökulinn til að hverfa vegna loftslagsbreytinga. Minningarskjöldurinn er því hugsaður sem áminning um loftslagsbreytingar og er stílaður á framtíðina. Andri Snær Magnason, rithöfundur, var fenginn til að semja textann á skildinum:
„Ok er fyrsti nafnkunni jökullinn til að missa titil sinn. Á næstu 200 árum er talið að allir jöklar landsins fari sömu leið. Þetta minnismerkið er til vitnis um að við vitum hvað er gerast og hvað þarf að gera. Aðeins þú veist hvort við gerðum eitthvað.“
Telja að allir jöklar á Íslandi munu hverfa á næstu 200 árum
Okjökull var um 15 ferkílómetrar um aldamótin 1900 en hafði rýrnað í um 4 ferkílómetra einni öld síðar. Árið 2012 var hann kominn niður í 0,7 ferkílómetra og árið 2014 var hann afskráður sem jökull þar eð aðeins voru eftir þunnir, sundurlausir ísflákar þar sem jökull stóð forðum.
Á síðustu árum hafa margir íslenskir smájöklar látið á sjá, eða jafnvel horfið. Loftslagsspár gera ráð fyrir að veðurfar á Íslandi hlýni um um það bil 2 gráður á yfirstandandi öld og að jafnvel hlýni enn meira á næstu öld þar á eftir. Í ljósi þess telja jöklafræðingar að allir jöklar á Íslandi gætu verið horfnir eftir 150 til 200 ár.
Í fréttatilkynningu frá Rice háskólanum í Texas segir að rannsakendur frá háskólanum, ásamt Odd Sigurðssyni, jöklafræðing, og Andra Snæ Magnasyni munu afhjúpa minningarskjöldinn þann 18. ágúst næstkomandi í Borgarfirði.
Fjallað var um Okjökul í heimildamyndinni „Not Ok“ sem framleidd var af Cymene Howe og Dominic Boyer, mannfræðingum frá Rice háskóla. Jón Gnarr talsetti myndina en myndinni fjallaði um rýrnun jökulsins og áhrif loftslagsbreytinga.
Howe og Boyer standa einnig að gerð minningarskjaldarins en í tilkynningunni segir að þeir hafi viljað skapa minnisvarða um lítinn jökull sem hafði stóra sögu að segja. „Þetta verður fyrsti minnisvarðinn um jökull sem hverfur vegna loftlagsbreytinga í heiminum. Með því að minnast jökulsins vonumst við til þess að vekja athygli á rýrnun jökla. Jöklar eru mesta ferskvatnsforðabúr jarðar og frosið inn í þeim eru sögur af andrúmsloftinu. Enn fremur eru jöklar oft mikilvæg menningartákn,“ segir Howe.
Howe bendir jafnframt á að minnisvarðar séu ekki fyrir hina látnu heldur fyrir hina lifandi. „Með þessu minnismerki viljum við leggja áherslu á að það er undir okkur komið að bregðast við hraðri rýrnun jökla og áframhaldandi áhrifum loftslagsbreytinga í sameiningu. Fyrir Okjökull er það nú þegar of seint en jökullinn er nú orðin það sem vísindamenn kalla „dauður ís“.“
Ok is no longer a glacier. In collaboration with Cymene Howe, Dominic Boyer and geologist Oddur Sigurðsson we will place...
Posted by Andri Snær Magnason on Monday, July 22, 2019